Örvitinn

Viðhorf til athugasemda - lagfæringar á færslum

Það er áhugavert að fylgjast með mismunandi viðhorfi bloggara til athugasemdakerfa í dagbókum. Margir hafa tekið þá skynsamlegu ákvörðun að hafa ekkert athugasemdakerfi, en öðrum finnst gaman að fá athugasemdir, jafnvel þó manni sé stundum bent á rangfærlsur og fái jafnvel hressilega á baukinn af og til.

Vefdagbækur eru náttúrulega persónulegur vettvangur einstaklinga, en þegar maður tjáir sig um einhver mál og útvarpar því finnst mér eðlilegt að gera ráð fyrir athugasemdum. Ekki þarf athugasemdakerfi til þess, menn geta að sjálfsögðu komið með athugasemdir í eigin dagbók, athugasemdakerfi eru að mínu mati skemmtileg viðbót og trackback vísanir mætti alveg nota meira í íslenskum bloggheimum.

Gneistinn er með eftirfarandi athugasemd í dagbókinni sinni, ég geri ráð fyrir að einhver frjálshyggjumaður hafi svarað honum og ekki verið sammála greininni..

"Best að minna á regluna um að þeir sem mér líkar ekki við hafa ekki málfrelsi í þessu athugasemdakerfi og mun athugasemdum þeirra verða eytt miskunnarlaust."

Ekki líklegt að ég fari að setja inn athugasemdir á þeim vettvangi, ekki einu sinn sem nafnlaus gunga. Jafnvel þó það væri bara til að segja að ég er sammála honum varðandi reykingar. Nú veit ég vel af gömlum rimmum á huga að mAlkav er ekki vel við mig, en það kemur málinu ekki við. Svona viðvaranir fæla nefnilega fleiri frá.

Árni velti athugasemdum fyrir sér nýlega og kemur með ágætis punkta, ég er sammála honum að mestu leyti. Ég hef hingað til ekki séð ástæðu til að eyða út athugasemdum, ekki einu sinni þegar mér hefur þótt vegið að mér persónulega. Ég gæti þó gripið til þess að eyða út skítkasti, sérstaklega ef það er ekki sett fram undir nafni. Einu athugasemdirnar sem pirra mig eru nafnlausar athugasemdir, settar fram með augljóslega röngum póstföngum. Ég hef sett smá texta í athugasemdaformið til að benda á að ég sýni ekki póstföng á síðunni, kannski breytir það einhverju.

Eitt að lokum, um daginn varð smá umræða í bloggheimum erlendis eftir að Mark Pilgrim skrifaði forrit sem las scripting news reglulega og byrti allar breytingar sem gerðar voru á síðunni. Þannig var hægt að sjá hvernig Dave Winer setti inn hluti og tók svo út aftur, t.d. skítkast um einstaklinga. Ég hef haft þann sið að setja færslur inn frekar hráar og laga þær svo eftirá. Oft eyði ég út því sem mér finnst asnalegt en ef einhver hefur lesið færsluna læt ég efnisinnihald yfirleitt standa óbreytt, laga frekar málfar og bæti inn efni þar sem við á.

Í gær gerði Árni athugasemd við skrif mín um Biskup, í stað þess að eyða þeim strikaði ég yfir þau, þar sem ég gat ekki rökstutt þau með góðu móti. Ég mun áfram breyta færslum eftir að ég set þær inn en mun leggja mig fram um að breyta ekki innihaldi eða fullyrðingum eftir að einhver mér ótengdur hefur lesið. Já, þannig er það nú bara. Þessi síðasta setning er ágætt dæmi um vankunnáttu mína í að enda málsgreinar og pistla, því hef ég ákveðið að hún verði ekki síðasta setning þessa pistils. Heldur þessi.

Ýmislegt
Athugasemdir

Már Örlygsson - 13/08/03 07:43 #

Fyndið er með gagnrýni MP er að hann hefur sjálfur alltaf breytt færslum í sinni dagbók, og það sést best núna þegar hann er kominn með opið "revision-history" fyrir allar færslur.

Sömuleiðis er fyndið að hann gagnrýnir DW fyrir að fleima fólk að óþörfu, en er síðan mjög duglegur við að gera það sama sjálfur - og er síst mjúkhentari en DW.

Ég ber geysimikla faglega virðingu fyrir MP. Hann er alveg suddalega klár og duglegur, en hann er hrokafullur asni og kvikindi þegar honum sýnist svo.