Örvitinn

Henson - FC Diðrik

Henson 2 - 2 FC Diðrik
Rigning og gola í laugardalnum í kvöld, veðrið var samt ekki slæmt. FC Diðrik voru efstir í A riðli fyrir þennan leik, þannig að ég bjóst við því að það yrði á brattan að sækja fyrir okkur. En utandeildin er nokkuð jöfn og það var ekki mikill munur á liðunum í kvöld.

Henson var sterkara liðið í frekar jöfnum fyrri hálfleik. Ég fékk eitt ágætt færi sem markvörður þeirra varði, ég komst einn í gegn hægra megin við teigin með varnarmann í mér, átti ágætt skot en of nálægt markverði. Henson spilaði oft vel í fyrri hálfleik en slakur dómari leikins var ansi duglegur við að flauta og dæma á okkur. Diðrik átti fá færi í fyrri hálfleik, helst langskot utan af velli, þar af eitt sem endaði í þverslá en var þó aldrei á leiðinni inn!

Í síðari hálfleik byrjaði Henson af nokkrum krafti og uppskárum við mark eftir um 10 mínútur. Varnarmaður gaf boltann aftur á markmann, ég pressaði markmanninn sem klikkaði á hreinsuninni og gaft beint á Gísla sem skaut í opið mark af um 25 metra færi.

Eftir markið pressuðum við þá nokkuð, enda virtist þeim bregða við það. Ekki tókst okkur að bæta við marki þrátt fyrir góðan kafla. Diðrik sóttu upp og fengu ranglega dæmda aukaspyrnu fyrir hægra megin fyrir utan teig. Aukaspyrnan kom fyrir þar sem Alli lenti í því að nikka boltanum í eigið mark, afskaplega ódýrt jöfnunarmark.

Við spíttum í lófana og uppskárum annað mark, Kjartan komst einn í gegn með harðfylgni og kláraði færið vel.

Diðrik voru sterkari það sem eftir lifði leiks og uppskáru jöfnunarmark þegar um 10 mínútur voru eftir. Slæm varnarvinna hjá Henson, boltinn ekki hreinsaður þegar færi á því gafst. Að öðru leyti átti vörnin mjög góðan dag og var að stoppa ágætan framherja Diðrik vel.

Síðustu mínútur sóttum við svo af krafi, fengum nokkrar aukaspyrnur sem sköpuðu hættu en náðum ekki að klára. Diðrik fengu hraðaupphlaup og sköpuðu sér hættuleg færi en það hefði verið stórslys ef þeir hefðu stolið sigrinum.

Leikurinn var þokkalega prúðmannlega leikinn, engin gróf brot sáust í leiknum en nóg af var smápústrum. Dómari leiksins var arfaslakur í fyrri hálfleik og hallaði þá ansi mikið á okkur, hann dæmi á Henson í hverjum einasta 50/50 bolta. Á tímabili í fyrri hálfleik var ég bara farinn að hlæja að þessu. Í síðari hálfleik tók hann sig á og dæmdi nokkuð jafnt á bæði lið.

Enn og aftur kemst Henson yfir í leik en nær ekki að vinna. Í sumar höfum við komist yfir í öllum leikjunum nema á móti Ufsanum, en höfum bara unnið einn leik. Í síðustu umferð mætum við FC Hjörleif sem eru í þriðja sæti riðils fyrir þessa umferð og hafa bara fengið á sig 3 mörk í sjö leikjum! Fjandakornið, ég ætla að setja mark næst.

Ég átti ekki mjög góðan dag, átti ágætis spretti í fyrri hálfleik og komst einu sinni í gegn og átti þá ágætt skot. Í síðari hálfleik var ég ekki að gera góða hluti, pressaði þó markvörðinn í fyrra markinu og átti svo ágætis fyrirgjafir, meðal annars úr aukaspyrnum á lokamínútum leiksins.

utandeildin