Örvitinn

Hugtakanotkun í trúarumræðu ("trúarbrögð/trúleysi")

Ég verð stundum pirraður á því hvernig menn þvælast með hugtökin trú og trúleysi í rökræðum um trúmál. Sérstaklega finnst mér þetta pirrandi þegar menn skjótast inn í umræður með yfirlýsingar um að þeir séu vissulega trúlausir en við öfgafullu trúleysingjarnir séum nú bara engu skárri en trúmenn, við séum alveg jafn trúaðir. Ástæðan fyrir pirring mínum er að mér finnst að þarna sé verið að rugla með mismunandi merkingu orða.

Atheist er enska orðið yfir trúleysi og er að vissu leyti skírara en íslenska orðið trúleysi. Theist er sá sem trúir á Gvuð eða Gvuði, sér í lagi persónulegan skapara. Sjá dictionary.com?theist

Belief in the existence of a god or gods, especially belief in a personal God as creator and ruler of the world.
A-ið í atheist þýðir *ekki* og atheist er því einfaldlega ekki-theist. "Sá sem trúir ekki á Gvuð(i)". Því má ljóst vera að þegar trúleysingjar tala um trú eru þeir sérstaklega að tala um trú á Gvuð(i). Trúleysingjar eru ekki efahyggjumenn af gamla skólanum sem engu trúa eða fullvissumenn sem telja sig hafa smíðað rökhyggjukerfi sem útskýrir alla veröldina. Engan trúleysingja hef ég séð halda því fram að vísindin geti útskýrt *allt*. Einungis trúmenn varpa slíkum fullyrðingum fram fyrir hönd trúlausra þegar rökræður eru komnar út í vitleysu.

Auðvitað getum við ekki vitað allt með vissu, við neyðumst til að trúa ýmsum hlutum. Ég þarf að stóla mig á sérfræðinga og ég breyti jafnvel um skoðun þegar ný þekking kemur fram. Ég er jafnvel óákveðinn í ýmsum efnum og hef ekki fyrir því að mynda mér skoðun á þeim, er alsæll í minni fávisku. Þar er jafnvel munur á mér og mörgum trúmönnum, því vissa þeirra er mikil og oftast eiga þeir svar við flestum hlutum. "Af hverju er rangt að drepa mann?", "Gvuð segir það", "Af hverju á maður að sýna fólki góðvild?", "Jesú sagði það" "Af hverju er samkynhneigð synd", "vegna þess að það stendur í Biblíunni" Fjandakornið, þetta er einfalt. Ég þarf að pæla miklu meira í þessum einföldu hlutum til að komast niðurstöðu.
En hér er verið að nota hugtakið trú í annarri merkingu en þegar verið er að ræða um trúaða (sbr. theist)

Mér finnst alltaf leiðinlegt að lesa yfirlýsingar um að trúleysi sé trú eða trúarbrögð. Trúleysi er lífsskoðun á sama hátt og trú er lífsskoðun, ákveðin sýn á heiminn. En trúleysi er alls ekki trú, ekki frekar en atheism er theism. Íslenska orðið trú hefur of víða merkingu, en það er engin ástæða til að rugla þeim saman þegar þessi mál eru rædd.
Már skrifar:

"Málið er að ég á voðalega bágt með að gera greinarmun á svona hörðu rökhyggjufólki sem nýtir hvert tækifæri til að ráðast að trú kristinna og annara með rökum, og þeim sem trúa guð og biblíuna. Mér sýnist að þetta fólk ríghaldi í rökhyggjuna af nákvæmlega sömu innlifun og þörf og þeir trúuðu ... Þessi harða rökhyggja sem afneitar allri trú er í raun ekkert annað en trúarbrögð í sjálfu sér"

Hér er verið að nota orðið trúarbrögð í mismunandi merkingu. Auðvitað er ekkert að því að nota orðið trúarbrögð á þennan hátt og það er meira að segja ákveðin hefð fyrir því. En þegar verið er að ræða um eðli trúleysis er mikilvægt að hafa hugtökin á hreinu.
Hvaða merkingu hefur orðið trúarbrögð? Samkvæmt dictionary.com er það svona:

    1. Belief in and reverence for a supernatural power or powers regarded as creator and governor of the universe.
    2. A personal or institutionalized system grounded in such belief and worship.
  1. The life or condition of a person in a religious order.
  2. A set of beliefs, values, and practices based on the teachings of a spiritual leader.
  3. A cause, principle, or activity pursued with zeal or conscientious devotion.
Eins og sjá má af þessari upptalningu á einungis síðasti liðurinn við í þessari merkingu, en eins og glöggir menn sjá er ekki stigsmunur heldur eðlismunur á síðustu skilgreiningunni og skilgreiningunum á undan. Ég mótmæli því ekki að það megi segja að trúleysi mitt sé eins og trúarbrögð í fjórðu merkingu, það sama má segja um knattspyrnuáhuga minn og eflaust fleira. En það er misnotkun á hugtakinu að nota það í þessari merkingu þegar verið er að tala um trú og trúleysi vegna þess að ákaft trúleysi sem (A cause, principle, or activity pursude with zeal or conscientious devotion) er alls ekki sami hluturinn og trúarbrögðin sem trúleysingjar kenna sig við.

Samkvæmt listanum hérna uppi, eru trúleysingjar ekki hluti af 1a,1b,2,3 en sumir trúleysingjar (þar með talið ég) fell undir skilgreiningu 4. Allir trúmenn falla undir einhvern af 1a,1b,2,3 og sumir undir 4. Við sjáum kannski ekki hversu kjánalegt það er að notið hugtakið trúarbrögð um trúleysingja fyrr en við notum það á trúmenn í þeirri merkingu. "Þjóðkirkjuprestar eru margir svo ákaflega trúaðir að það er í raun ekkert annað en trúarbrögð í sjálfu sér" Þessi setning er merkingarlega alveg rétt, en hún er samt kjánaleg vegna þess að við vitum að Þjóðkirkjuprestar stunda trúarbrögð(skv. fyrri skilgreiningum) en þarna notum við síðustu skilgreininguna. Ég sé ekki betur en að trúmenn rugli þessu oft saman þegar það hlakkar í þeim þegar þeir heyra þessu kastað fram.

Semsagt, það má segja að trúleysi sem stundað er af áköfum áhuga sé "ekkert annað en trúarbrögð í sjálfu sér" en þá er verið að nota hugtakið trúarbrögð í annarri merkingu en þegar það er notað til að skilgreina hugtakið trúleysi. Í Gvuðanna bænum, það hlýtur að vera hægt að nota orðið trúleysi áfram, ég nenni ekki að fara að kalla mig atheista, en neyðist kannski til þess að gera það til að losna undan þessum orðaleikjum.

efahyggja
Athugasemdir

eva hauksdottir - 18/08/03 23:33 #

Málið er að trúað fólk er mjög viðkvæmt fyrir því að vera álitið öfgafullt. Við tengjum öfgar við neikvæða eiginleika svo sem þröngsýni og einstrengingshátt, jafnvel heimsku. Öfgar leiða einnig af sér yfirgang og undirokun og aðra hegðun sem þykir ekki par fínt að vera bendlaður við. Þegar trúað fólk er sakað um (eða telur sig vera sakað um) öfgakennd viðhorf, fer það eðlilega í vörn. Eitt vinsælasta varnarbragðið er "þú ert nú bara sjálfur að ráðast á mig fyrir að vera þér ósammála. Þú ert nú bara alveg eins mikill öfgamaður og ég. Mætti halda að þetta væru trúarbrögð hjá þér, nana-nana-nana og ligga-ligga-lá". Sennilega er hægt að komast hjá svona leiðindum með því að ganga alltaf út frá því að viðmælandinn sé eins langt frá því að vera öfgasinnaður og trúaður maður getur á annað borð orðið. Trú er nefnilega svo mikið tilfinningamál og svo stór hluti af sjálfsmyndinni að það er varla hægt að ræða trúmál án þess að fólk taki því sem persónulegri árás.

Mér finnst það í sjálfu sér vera þversögn að flokka trúleysi sem trú og þótt til séu trúleysingjar sem virðast telja sig standa í einhverskonar heilögu stríði gegn trú og trúarbrögðum, eru þeir í miklum minnihluta. Eins og þú bendir réttilega á nota sumir orðin trú og trúarbrögð yfir hvers kyns lífsskoðanir sem eru mönnum mjög heilagar og þeir predika af ástríðu. Ég er ekkert hrifin af því að nota orðið trúarbrögð í því sambandi. Orðið öfgar dugar alveg ágætlega til að lýsa fyrirbærinu. Það er ekkert því til fyrirstöðu að greina hægri sinnað fólk frá öfga sinnuðum hægri mönnum, trúleysingja frá öfgasinnuðum trúleysingjum o.s.frv.

Sverrir Guðmundsson - 19/08/03 00:36 #

Þetta var mjög góð færsla. Ekki ósjaldan sem maður hefur þurft að standa í svona orðaleikjum.

Halldór - 19/08/03 18:44 #

Blessaður enn einu sinni, ég þakka þér fyrir að velta upp þessum hugtökum. Vandi minn gagnvart ykkur trúleysingjunum er að ég vil gera greinarmun á trúleysi og guðleysi. Þannig er eðlileg þýðing hugtaksins atheisti -> guðleysingi. En ég veit að sumir trúleysingjarnir eru ósammála mér svo ég hyggst nota trúleysingjahugtakið framvegis, alla vega í samtölum við ykkur.

Eins geri ég skýran greinarmun á trú annars vegar og trúarbrögðum hins vegar. Þar sem trú er grundvallarafstaða einstaklings meðan hugtakið trúarbrögð á við um skilgreint kenningakerfi sem fólk aðhyllist. Á þessu tvennu getur verið mikill munur. Á ensku er þetta munurinn á FAITH (trú) og Religion (átrúnaður, trúarbrögð).

Ég er hins vegar ósammála því að hér sé um orðaleiki að ræða, því sameiginlegur skilningur hugtaka er forsenda samtalsins.