Örvitinn

Sparnaður Landhelgisgæslunnar vegna olíukaupa

Spara átta til tíu milljónir

Varðskip Landhelgisgæslunnar hafa fjórum sinnum farið til Færeyja á þessu ári til að sækja olíu. Hafsteinn Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar, segir ástæðuna vera þá að olían sé mun ódýrari í Færeyjum en á Íslandi. Það muni um tíu krónum á lítrann og að sparnaðurinn nemi um átta til tíu milljónum króna á þessu ári.

Samkvæmt frétt um þetta mál í laugardagsmogganum er olíuverð sérstaklega lágt í Færeyjum og munar þar fyrst og fremst um opinber gjöld.

Er ekki eitthvað undarlegt að stofnun sem er rekin fyrir skattfé sigli til Færeyja til að kaupa olíu vegna þess að þá spara þeir skatta! Auðvitað er Landhelgisgæslan með ákveðna fjármuni sem þeir ráðstafa en hún er líka hluti af stærri heild, ríkisapparatinu. Peningarnir sem gæslan sparar hefðu að langstærstum hluta runnið aftur til ríkisins! Gæslan sparar átta til tíu milljónir en ríkissjóður sparar varla nokkuð. Ef Gæslan væri ekki rekið af ríkinu sæi ég ekkert athugavert við þetta fyrirkomulag.

Jújú, vissulega er í tísku að finnast olíufélögin vond og ég sé ekkert eftir því að þau missi spón úr aski sínum, en þetta þykir mér samt skondið.

pólitík