Örvitinn

Annar dagur í aðlögun

Jæja, við mættum hálf tíu í morgun. Byrjuðum á því að púsla áður en alstundin hófst. Þá setjast krakkarnir í sófann og það er sungið. Ég sat á gólfinu við hlið Ingu Maríu, hún var dáldið spennt en söng ekkert.

Eftir það fengu krakkarnir að velja hvað þau ætluðu að gera, Inga María vildi ekki fara út, hélt bara áfram að púsla. Eftir smá stund fór ég fram á kaffistofu og skyldi Ingu Maríu eftir. Hún var ekkert að stressa sig á því og þetta gekk vonum framar.

Ég sat á kaffistofunni með öðrum foreldrum. Tveim konum og tveim körlum, við vorum semsagt í meirihluta karlarnir. Þegar önnur konan fór fram að sinna barninu sínu (og hin grúfði ofan í bók sem hún tók með sér) fór umræðan fljótlega að snúast um knattspyrnu. Það var svosem ágætt að hafa eitthvað til að ræða um, ég var eiginlega búinn að gleyma því að það væri landsleikur við Færeyjar í beinni útsendingu í kvöld!
Eftir þrjú kortér kom Vilborg deildarstjóri og sagði okkur að ég mætti alveg fara að sækja Ingu Maríu, hún var ennþá hress og kát en það var betra að sækja hana áður en hún yrði eitthvað óróleg. Þegar ég kom inn að sækja hana sat hún við borð og var að teikna, kippti sér ekkert mjög mikið upp við það að sjá mig, en alltaf þegar ég sótti hana til dagmömmu fór hún að væla, jafnvel þó hún hefði verið kát að leika sér áður en ég kom.

Í fyrramálið eigum við að mæta í morgunmatinn og svo fer ég og skil hana eftir á leikskólanum :-O, það verður stórt skref. Ég kvíði samt aðallega fyrir því að þurfa að koma þeim systrum út úr húsi klukkan hálf átta.

Inga María er að taka blundinn sinn núna, ég er að spá í að fara að leggja mig. Ætla samt að reka Áróru út að leika sér fyrst, ég á að vera eini innipúkinn á þessu heimili :-P

Fyrsti dagurinn í leikskóla
fjölskyldan prívat