Örvitinn

Stúka eða stæði á rokktónleikum

Við strákarnir vorum á besta stað í stúku á Foo Fighters tónleikunum í gærkvöldi og skemmtum okkur vel. Það var þó ekki laust við að ég saknaði þess stundum að vera ekki hoppandi um eins og bavíani á gólfi Laugardalshallar. En ég tek stúkusætið framyfir troðninginn.

Þegar við fórum á Rammstein tónleikana um árið fengum við ekki stúkumiða og þurftum því að hýrast á gólfinu. Það var svosem ágætt þannig talað, hoppuðum með Rammstein sem rokkuðu feitt og ég fór eina ævintýraferð upp að sviði, ferð sem stóð stutt þar sem troðningurinn var gríðarlegur þannig að ég sneri við og fór aftur aftast í salinn.
Stóra vandamálið frá mínum bæjardyrum séð við að standa aftast á tónleikum í höllinni er að ég sé ekki rassgat á sviðið. Ég er frekar stuttur í annan endann, næ ekki nema 175cm upp í loftið þegar ég er illa greiddur og þó ég hefði verið meðalmaður á hæð á Íslandi í upphafi tuttugustu aldar verð ég að sætta mig við að vera hálfgerður meðalstubbur í dag.
Á Rammstein tónleikunum sá ég semsagt ekkert á sviðið nema með því að beita ákveðinni tækni. Þegar keyrslan var sem þéttust og salurinn skoppaði í takt, tók ég mig til og skoppaði úr takt við salinn. Þannig tókst mér að sjá rokkgoðin á sviðinu, jafnvel held ég að ég hafi náð að líta berbrjósta dömuna augum einu sinni en það er kannski óskhyggja. Þeir sem urðu vitni að þessum gjörning hafa vafalítið verið hissa á taktleysi þessa litla manns sem gat ekki einu sinni hoppað samtímis fólkinu í kringum hann.

Ég þurfti því að sætta mig við að slá taktinn í gærkvöldi en sé ekkert eftir því. Ég nefnilega Foo Fighters og þeir voru drulluflottir. Ef ég vil hoppa í mannþröng skelli ég mér bara á dansgólf á einhverjum pöbb og bíð eftir að plötusnúðurinn setji rokklag í gang. Þá er alltaf við hæfi að hoppa, sérstaklega á Cirkus vegna þess að þar getur maður hoppað og náð upp í loft, gleymt því í andartak að maður er stubbalingur.

Eini alvarlegi gallinn við að sitja í gærkvöldi er að ég var að drepast í hægra hnénu í lok tónleikanna, hnéð á mér er eitthvað gallað og mig verkjar agalega í því ef ég þarf að sitja í vissum sætum í langan tíma. Man að ég var alltaf að drepast í lok kennslustunda í Háskólabíó, sætin í stúku Laugardalshallar henta mér greinilega ekki sérlega vel þar sem ég var líka að drepast í lok síðustu Coldplay tónleika.
En það gerði lítið til í gærkvöldi, sársauki og rokk eiga vel saman!

tónlist