Örvitinn

Keane - sjálfsævisaga

kápumynd

Var að lesa sjálfsævisögu Roy Keane sem Regin lánaði mér.

Þetta er áhugaverð bók, gaman að lesa frásagnir Keane af Enska boltanum og hvernig hann hefur breyst frá því að Úrvaldsdeildin var stofnuð.
Drykkjumenningin var ótrúleg þegar Keane hóf feril sinn með Nottingham Forest og þegar hann kom til United. Menn duttu í það óhikað ef það voru 4 dagar í leik, æfðu svo bara eins og skepnur og héldu að þeir hefðu jafnað þetta út, spáðu lítið í mataræði og svoleiðis kjaftæði. Í dag er staðan allt önnur, liðin hafa næringarfræðinga á sínum snærum og fæstum dettur í hug að detta í það nokkrum dögum fyrir leik.

Ansi stór hluti bókarinnar gengur út á að lýsa aðbúnaðinum í kringum Írska landsliðið og Jack Charlton, sem almennt er álitin hetja í Írlandi, fær heldur betur fyrir ferðina hjá Keane. Mick McCarthy sem stjórnaði Írska liðinu í síðustu HM fær einnig útreið enda er brottför Keane fyrir síðustu HM lykilatriði bókarinnar. Eftir lesturinn skil ég sjónarmið Keane vel, en þetta er náttúrulega hans hlið á málinu.

Keana komst frekar seint inn í atvinnumennskuna, var nítján ára þegar hann komst á samning hjá Nottingham Forest. Það virðist hafa verið gæfa fyrir hann því margir þeirra sem höfðu verið á samning frá því þeir voru smáguttar höfðu að mati Keane kolrangt viðhorf til fótboltans og lífsins, töldu sig hafa rétt á öllu og voru síkvartandi í stað þess að vera þakklátir fyrir að vinna við það sem flesta gutta dreymir um.

þó ég fyrirlíti Manchester United er áhugavert að lesa þessa bók um einn besta miðjumann heims í dag. Það er alveg ljóst að hann hefur komist þangað sem hann er í dag á ákveðninni og skapinu, spurning hversu góður hann væri ef hann hefði meiri aga í frítíma sínum, drykkjuskapurinn var slíkur á tímabili.

Bókin er frekar illa skrifuð, mikið um endurtekningar sem maður hefði haldið að þokkalegir ritstjórar hefðu geta lagað, en ætli áherslan hafi ekki verið á að koma bókinni út.

bækur