Örvitinn

Gvuði sé lof, straumbreytirinn er í lagi

Eftir ræktina í morgun kíkti ég á verkstæðið hjá ATV til að gá hvort þau ættu til notaðan straumbreyti fyrir ferðavélina mína, en eins og ég sagði frá í gærkvöldi, þá stóðu eldglæringar út úr straumbreytinum.
Á meðan afgreiðsludaman var inni á verkstæði að tékka á málinu, stóð ég frammi í afgreiðslu með rafmagnssnúruna í hendi og skoðaði í hugsunarleysi. Tók þá eftir því að hún var komin hálf í sundur þar sem hún tengdist við straumbreytinn.
Afgreiðsludaman kom til baka og sagði mér að því miður væri ekki til annar straumbreytir, ég bað hana um að biðja verkstæðisliðið að athuga hvort það væri ekki bara í lagi með straumbreytinn sjálfan fyrst snúran var greinilega ónýt. Svo reyndist vera og ég labbaði út með nýja snúru sem kostaði fimm hundruð krónur. Eldglæringarnar komu því ekki frá straumbreytinum sjálfum, heldur rafmagnssnúrunni. Mér þykir ansi líklegt að þetta hafi ollið því að rafmagnið var sífellt að detta út, nú er bara að sjá hvort það gerist sjaldnar á næstunni.

Ég tek gleði mína á ný.

græjur
Athugasemdir

Eggert - 17/09/03 15:20 #

Getur verið að snúran hafi verið skemmd af mönnum í opinberum stöðum sem tengjast sakamáli sem þú vísar óbeint í, sem tilraun til að þagga niður í málsvara minnihlutahópa?

Matti - 17/09/03 21:46 #

Ég held þetta tengist því frekar að ég var alltaf að rúlla stólnum yfir snúruna niðrí CCP.

En auðvitað er eitthvað samsæri í gangi gegn mér líka :-) Séra Kalli og svartstakkar eru pottþétt að vakta mig :-P