Örvitinn

Oprah og dauðarefsingar

Horfði á (nákvæmlega) tíu mínútur af Oprah þætti á hlaupabretti í ræktinni í morgun. Gestur þáttarins var Georg Ryan fyrrum ríkisstjóri Illinois sem lét breyta dómi allra fanga á dauðadeild yfir í lífstíðarfangelsi skömmu áður en hann lét af embætti.

Þessar tíu mínútur sem ég sá af þættinum voru afskaplega sérkennilegar. Þær fólust í því að segja frá hrottalegum morðum sem framið höfðu verið af einhverjum þeirra glæpamanna sem Ryan "náðaði". Svo var rætt við aðstandendur þeirra sem kröfðust réttlætis. Ég gat ekki að því gert en mér fannst þau vilja hefnd, ekki réttlæti.

Helsta gagnrýnin á Ryan var sú að hann hefði ekki metið hvert mál fyrir sig heldur breytt dómi allra fanga á dauðadeild. Ryan vildi meina að þar sem svo oft hefði komið í ljós að saklausir einstaklingar væru á dauðdeild eða hefðu verið teknir af lífi væri ekki annað hægt en að hætta að taka fólk af lífi.

Krafan um að hann ætti að skoða hvert mál fyrir sig heldur ekki vatni ef maður tekur mið af því að búið er að skoða hvert mál á mörgum dómstigum þegar komið er að því að taka menn af lífi. Ekkert útilokar enn ein mistökin þegar ríkisstjóri skoðar málið sérstaklega einu sinni enn.

Einn áhugaverður punktur sem Ryan benti á er að morð er morð! Fólk er svo upptekið af því hversu hrottaleg (en ekki snyrtileg!) sum morð eru og vill fá mun meiri refsingu í þeim tilvikum. Auðvitað getur það sagt okkur eitthvað um glæpamanninn hversu ógeðfelldur glæpurinn er, en þó hlýtur mesti glæpurinn að felast í því að taka líf annars manns. Aðferðin er svo næstum því aukaatriði.

pólitík
Athugasemdir

Arnaldur - 25/09/03 00:53 #

Arg! Aukaatriði? Nú fer ég að verða smeykur við þig.