Örvitinn

Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga?

Heyrði örstutt brot af viðtali á Rás2 klukkan u.þ.b. 16:20 í dag þar sem rætt var við kvikmyndargerðafólk sem var að gera mynd um dulvitleg fyrirbæri (held ég, ég heyrði bara örstutt brot)

Kvikmyndagerðamennirnir voru afskaplega uppteknir af því að eitthvað dulvitlegt hlyti að vera til vegna þess að þeir voru búnir að tala við svo mikið af fólki sem hafði svo markt merkilegt að segja. Lokarök þeirra voru: Af hverju ætti allt þetta fólk að ljúga?

Á ensku segja menn stundum the plural of anecdote is not data sem mætti snúa yfir í margar reynslusögur eru engin sönnun

Það heldur því enginn fram að "allt þetta fólk" ljúgi þegar það segir frá draugum, fljúgandi furðuhlutum, álfum eða englum. Ég held því fram að fólkið hafi ekki rétt fyrir sér, hafi látið glepjast. Ég tel einfaldlega líklegra að algengt sé að fólk taki feil, geri mistök eða muni vitlaust heldur en að náttúrulögmál hætti að virka.

Vandamálið við vitnarökin er að til að sannfæra þá sem halda þeim fram þarf að hrekja allar helvítis sögurnar. Ekki er nóg að sýna fram á hugsanlegar skýringar, alltaf er hægt að finna nýja sögu sem stangast hugsanlega á við mögulega skýringu. Enda er það náttúrulega ekki hlutverk þeirra sem efast um yfirnáttúru að afsanna öll möguleg hindurvitni, heldur er það hlutverk þeirra sem trúa að sanna þau. Og þá dugir ekki til að tína til ótal vitni að ótal mismunandi atburðum með ótal mismunandi sögur. Því margar reynslusögur eru ekki sönnun.

efahyggja
Athugasemdir

birgir.com - 01/10/03 19:17 #

Í íslensku 203 í menntaskóla, sennilega árið 1980 eða '81 skrifaði ég heimildarritgerð sem ég kallaði "Að loknu lífi". Þar komst ég að sömu niðurtstöðu og þessir kvikmyndagerðarmenn, að það sem haldið var fram um líf eftir dauðann hlyti að vera sannleikur, því af hverju ætti allt þetta fólk að vera að ljúga?

Sá það svo skömmu síðar hvað þetta voru fáránlega léleg rök. Ætli fögin sálfræði og líffræði hafi ekki hjálpað mér til einhvers þroska þarna.

Matti, þessa grein mættirðu alveg koppípeista inn á Vantrúna. Og hvað með spurninguna stóru "Hvað gerði Jesús við alla gyðingana sem Hitler sendi í ofnana?", mætti ekki kokka upp úr henni ágæta vantrúargrein?

Matti Á. - 01/10/03 19:50 #

Já, mér þótti þessi færsla ekki nógu merkileg fyrir vantrú :-) Er búinn að setja hana inn núna en sé hana reyndar hvergi á síðunni - er eitthvað trix að setja inn færslur?

birgir.com - 01/10/03 20:10 #

Jú, hún á fullt erindi.

Það á ekki að vera neitt trix, en Netfirms heldur greinilega úti hálf krappí server. Ég ríbuildaði vefinn og þá datt færslan inn.