Örvitinn

Helförin hin síðari

Þessa grein skrifaði ég á vantrú, skelli henni inn hér líka. Slekk þó á athugasemdum, ef þið hafið athugasemdir setjið þær þá við greinina á vantrú. Upphaflega var greinin send inn í annarri mynd sem spurning á trúmálaþræði strik.is, fátt var um merkileg svör trúmanna í þeim þræði.

Hvaða skoðanir sem menn hafa á trúmálum hljóta allir að fordæma Þriðja ríki Hitlers. Menn geta deilt um hvort Hitler hafi verið kristinn, en trúaður var hann, um það er óþarfi að deila. En ég ætla ekki að spá í því hér.

Það er eitt sem ég hef stundum velt fyrir mér. Hitler hafði margt slæmt á samviskunni og verst var vafalítið tilraun hans til að útrýma Gyðingum. Talið er að sex milljón Gyðingar hafi verið drepnir í Evrópu á árum síðari heimsstyrjaldar.

Allir eru væntanlega sammmála um að þetta var hrikalegur glæpur. Það þarf væntanlega ekkert að fara í miklar siðferðispælingar til að komast að þeirri niðurstöðu.

En....

Hvað gerði Jesú við þessa Gyðinga, hvernig tók hann á móti þeim? Hvað gerir Jesú við alla Gyðinga?

Komast þeir til himna eða eru þeir dæmdir til eilífðardvalar í eldslogum helvítis þar sem þeir trúa ekki á Jesú?

Hvernig tók Jesú á móti þeim sex milljón Gyðingum sem voru myrtir í valdatíð Hitlers? Hvernig tóku feðgarnir á móti ungabörnum sem létu lífið í gasklefum Þriðja ríkisins?

Í Biblíunni er skrifað að Jesú hafi sagt: Jh3.3 "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju" ...Jh3.18 "Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina."

Er ekki borðleggjandi að eftir helförina fyrri sem Hitler stóð fyrir tók við helförin síðari í boði feðganna Guðs og Jesú? Helför sem enn stendur yfir og beininst gegn öllum þeim sem gerast svo ósvífnir að trúa ekki á þennan fíflaskap.

kristni