Örvitinn

Jómfrúarmansal

Þrælahald nútímans

Mansal í heiminum er ótrúlega algengt og er það hreinn og klár barnaskapur að halda að það hafi ekki skotið einhverjum rótum hér á Íslandi þegar það þrífst jafn vel og það gerir í nágranna löndum okkar. Við vitum að þarna á sér stað þrælahald nútímans. Í ljósi bágra aðstæðna eru konur blekktar og seldar eins og hver annar varningur til hæstbjóðanda. Þessar konur selja líkama sinn gegn eigin vilja og réttlætiskennd. Þær lifa í ótta við kúgara sína og við eigin sektarkennd vegna gjörða sinna. Við eigum að standa vörð um þennan einstakling. Varpa ábyrgðinni yfir á þann sem kaupir sér aðgang að líkama annarrar manneskju. Við getum sett þetta í mjög svo einfalda og kaldranalega jöfnu: Kippum neytandanum úr umferð og hitt fellur um sjálft sig.

Þær raddir hafa heyrst að það séu nú ekki allir sem eru í vændi í þessum sporum. Nei, það getur vel verið að svo sé ekki. En það eitt að mansal sem þetta skuli finnast í heiminum er nóg til að réttlæta það fullkomlega að standa vörð um það fólk sem svona er komið fyrir. Það finnst flestum að minnsta kosti - eða hvað? (áherslubreyting mín M.Á.)

Þetta skrifar Elín Birna Skarphéðinsdóttir í jómfrúargrein sinni á pólitik. Ég fann því miður ekki beina vísun á greinina.

Það getur verið að flestum finnist þetta enda áróðurinn stöðugur en mér finnst þessi röksemdarfærsla vafasöm svo ekki sé meira sagt. Mér finnst eitthvað vanta.

"Kippum neytandanum úr umferð og hitt fellur um sjálft sig."
Trúir þessu einhver ?

feminismi
Athugasemdir

eva - 06/10/03 18:53 #

Af hverju heyrist aldrei sú skoðun að með því að gera neytandann að glæpamanni, sé líklegt að kúnnahópurinn breytist og raunverulegir glæpamenn verði öðrum líklegri til að kaupa þjónustu vændiskvenna? Er ekki líka sennilegt að verðið lækki þegar kúnninn er farinn að taka áhættu og þar með þurfi þessar konur að afgreiða mun fleiri menn en áður til að hala inn sömu tekjur? Af hverju í fjandanum dettur engum í hug að spyrja fólkið sem vinnur þessi störf, áður en farið er að setja lög því til "verndar"?

Már Örlygsson - 06/10/03 21:22 #

Þetta er margflókið málefni með engar augljósar/fullkomnar lausnir. Allar eru þær ýmist gagnslausar eða með hvimleiðum aukaverkunum eða bæði...

Það truflar mig óneitanlega við "sænsku aðferðina" að með henni er skrefið stigið til fulls í því að fórnarlambavæða með formlegum hætti heilan hóp fólks (vændisfólks) sem stundar þessa iðju á ólíkum forsendum.

Ég hef það sterklega á tilfinningunni að sama hvað fólk óskar þess heitt þá muni aldrei takast að uppræta vændi algjörlega. Hins vegar tel ég að það sé vel hægt að fækka (eða útrýma) þeim tilfellum þar sem vændi er stundað í skugga þrælahalds og ofbeldis, en því miður er mér ómögulegt að sjá hvernig sænska leiðin á að koma að gagni við það - því hún felst einmitt í því að fella alla kaupendur vændis og allt vændisfólk undir sama hattinn (glæpamenn annars vegar og fórnarlömb hins vegar).

Að mínu mati er þetta fyrst og fremst spurning um þverbrotna vinnulöggjöf og þrælahald sem þarf að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Vændisþrælarnir eru í raun í fullkomlega sambærilegri stöðu við Verkamannaþrælana sem Impreglio er að misnota á Kárahnjúkasvæðinu, og við ættum að geta barist gegn vændisþrælkuninni með sambærilegum ráðum. Eða hvað??

Eitt finnst mér þó ljóst, að við verðum að breyta lögunum þannig að vændisfólk sé ekki lengur skilgreint sem glæpamenn. Núverandi löggjöf er skammarleg forneskja.

Matti - 06/10/03 21:43 #

Eitt finnst mér þó ljóst, að við verðum að breyta lögunum þannig að vændisfólk sé ekki lengur skilgreint sem glæpamenn. Núverandi löggjöf er skammarleg forneskja.

Ég tek undir það, algjörlega glósulaust að refsa því fólki sem annaðhvort neyðist eða kýs að starfa við þetta.

birgir.com - 06/10/03 23:44 #

En er ekkert undarlegt að fólki sé gert kleift að starfa við iðju sem leiðir beinslínis af sér glæpaverk annarra. Það er ekki hægt að stunda þessi viðskipti nema einhver brjóti lög, hvort sem núverandi- eða sænska leiðin er farin.

Væri ekki nær að gera þetta bara alveg löglegt, á báða bóga?

Matti - 07/10/03 08:19 #

Væri ekki nær að gera þetta bara alveg löglegt, á báða bóga?

Það finnst mér.

Oskar - 07/10/03 15:05 #

Ef verð á dópi væri lægra minnkaði vændið. Öll þess boð og bönn auka á glæpaiðnaðinn og allt endar þetta í þeirri sjálfheldu sem við erum í. Því meiri refsingar á ólifnaðinn og ruglið, því hættulegri verða sukkararnir. Hærra verð á dópi leiðir af sér hættulegri glæpi, fleiri neyðast í vændið og þjófnað vegna þess enginn ræður dópista í venjulega vinnu. Það er engin töfralausn til, en eitt veit ég að boð og bönn er ekki lausnin. ... Hvor af þessari fyrirsögnum munu birtast í DV

Fyrrverandi vændiskonur brutust inn í bíla og stálu hljómtækjum fyrir nokkur hundruð þúsund.

eða

Fyrrverandi vændiskonur opnuðu blómabúð á Laugarveginum og þökk sé nýrri löggjöf.

Már Örlygsson - 07/10/03 19:31 #

Birgir spyr:

En er ekkert undarlegt að fólki sé gert kleift að starfa við iðju sem leiðir beinslínis af sér glæpaverk annarra.

Rök þeirra sem vilja gera kaup á vændi að glæp, er sú að allar vændiskonur (eða yfirgnæfandi meirihluti þeirra) séu ósjálfráðar gerðasinna. Þær séu þvingaðar með líkamlegu eða andlegu ofbeldi, eða drifnar áfram af sjúklegri fíkn í eiturlyf, og því sé ekki hægt að líta á vændi í neinum tilfellum sem lögmæt viðskipti heldur misnotkun kaupandans á eymd vændiskonunnar og þar að leiðandi hreinræktuð nauðgun.

Sé litið á málið í þessu ljósi, þá getur það virst mjög rökrétt að gera vændiskaupinn refsiverð rétt eins og um hverja aðra nauðgun sé að ræða.

Það sem fólk greinir aðallega á um er helst þrennt: a) eru engar (eða næstum engar) vændiskonur sjálfráðar gjörða sinna, b) mun það skila tilætluðum árangri að gera kaup á vændi refsiverð og c) hvert er raunverulegt markmið svona aðgerða.

Eva - 07/10/03 22:33 #

Mér finnst nú reyndar fullyrðingin um vændi sem "greidda nauðgun", benda til þess að þeir sem fundu fyrirbærinu það nafn hafi aldrei gengið í gegnum nauðgun og hafi ekki hundsvit á því hvernig fólk upplifir ofbeldi.

Ég er sannfærð um að Íslandi eru til konur sem stunda vændi af frjálsum vilja (án þess að ég sé á nokkurn hátt að draga úr alvarleik þess þegar fólk er kúgað til þess) og ég trúi því einfaldlega ekki að nokkur kona kjósi að láta nauðga sér, sama hve há greiðsla er í boði. Mér finnst mjög ámælisvert að gengisfella orð sem notuð eru um ofbeldisverk, með því að nota þau um þjónustu sem innt er af hendi af frjálsum vilja. Hvort sú iðja telst siðleg eða ósiðleg er svo allt önnur Ella.