Örvitinn

Gott að bora í nefið

Ein barnabók sem er í miklu uppáhaldi hjá mér heitir Gott að bora í nefið. Ein ástæðan fyrir því að mér þykir bókin góð er að hún er hæfilega stutt, hentar einkar vel þegar þarf að lesa fyrir svefninn.

Í stuttu máli er söguþráður bókarinnar sá að þrír vinir - músin, froskurinn og fíllinn fá þau skilaboð frá foreldrum sínum að ekki megi bora í nefið. Músapabbi segir að nefborslan valdi nefbroddsnasaholusýkingu, froskamamma segir að puttinn geti setið fastur í nefinu og fílamamma segir að hætta sé á að raninn brotni.

Við þessar fréttir hætta vinirnar að bora í nefið, þykir það þó öllum ansi súrt. Þau ákveða því að kíkja til ömmu og afa og leita ráða. En viti menn, amma og afi bora líka í nefið, mamma og pabbi sögu ekki satt.
Við þetta taka músin, fíllinn og froskurinn gleði sína á ný og bora í nefið af lífs og sálarkröftum.

Ég get ekki að því gert að stundum hefur mér dottið í hug að bókin snúist í raun um eitthvað annað en að bora í nefið. Einu sinni fór ég meira að segja að spá í því hvort höfundurinn væri reykingarmanneskja. Mórall bókarinnar virðist nefnilega vera sá að gera lítið úr varnarorðum foreldra.

Raunveruleikinn er líka sá að foreldrar eru stundum dáldið duglegir við að gera mikið úr hlutunum. Maður er sífellt að stoppa börnin þó þau geri ekki neitt. Þetta fullorðna fólk er svo skrítið.

En það er gott að bora í nefið.

Ýmislegt
Athugasemdir

birgir.com - 10/10/03 22:17 #

Ætli höfundurinn, sem sennilega hefur fengið hákristilegt uppeldi, sé ekki bara duglegur að stunda sjálfsfróun.

Matti Á. - 10/10/03 22:19 #

Áhugaverður vinkill sem fór alveg framhjá mér :-)

Börkur - 11/10/03 09:35 #

tja, dettur í fljóti bragði í hug að höfundur sé einfaldlega að benda okkur á að við bönnum (og okkur var bannað) margt til þess eins að banna. Að bora í nefið er ekki 'fallegt' í vestrænum heimi (veit reyndar ekki um neitt menningarsamfélag það sem slík borun er í hávegum höfð), en kínverjar margi hverjir smjatta t.d. af mikilli sanfæringu við matarborðið. Það stendur kannski í í einhverju testamenti að nefborun sé ávísun á helvíti? Ég þangað.

Allar fullyrðingar eru rangar.

eva - 15/10/03 22:28 #

Munurinn á nefborun og reykingum er sá að reykingar eru altso hættulegar. Rökin sem foreldrarnir í bókinni tefla fram gegn nautninni af því að bora í nefið eru hins vegar upplogin og eina raunverulega ástæðan fyrir því að börnin mega ekki gera það er sú að samfélagið hefur ákveðið að það sé ósmekklegt. Eins og svo margt annað sem við gerum í einrúmi.

Matti - 15/10/03 22:36 #

Sjálfsfróunarlíking Birgis passar mun betur en reykingarkenning mín. Reyndar er fáum jafn illa við reykingar og mér - ætli ég hafi ekki fengið hugmyndina útaf því.