Örvitinn

Kristnum þá sem geta ekki barist á móti

Kristín Þórunn er nýr annálaritari og er nokkuð dugleg við að senda frá sér pistla þessa dagana. Í nýlegum pistli um stefnumótun og sérþjónustu Þjóðkirkjunnar er eftirfarandi klausa:

Á sjúkrastofnunum starfa prestar og djáknar með þeim sem tímabundið eru hindruð í kirkjugöngu heilsu sinnar vegna. Og með þeim sem hefðu kannski aldrei leitt hugann að spurningunni um Guð ef heilsan hefði ekki skaðast. (skáletrun mín MÁ)

Ég get ekki að því gert, heilinn í mér er bara þannig víraður, en mér þykir þessi klausa hroðaleg.
Þjóðkirkjufólk er stolt af því að stunda trúboð á fólki sem hefur orðið fyrir áfalli, misst heilsuna og er vafalítið í ákaflega viðkvæmu andlegu ástandi. Mér þykir þetta hreint út sagt viðbjóðsleg hegðun.

Þetta þjóðkirkjuhyski kann ekki að skammast sín.

kristni
Athugasemdir

Óli Jói - 17/10/03 09:40 #

Ef einhver þarf hjálp að halda, þá er það sá sem hefur orðið fyrir áfalli. Þú getur ekki sagt að Þjóðkirkjan þröngvi trúnni upp á einn né neinn, en hins vegar er hún boðandi, biðjandi og þjónandi. Þjóðkirkjan (fólkið innan hennar) hjálpar þeim sem eiga í erfiðleikum sama hverjir þeir erfiðleikar eru.

Frábært framtak þjóðkirkjunnar að hafa prest fatlaðra, innflytjenda, fanga auk þessara starfsmanna á sjúkrastofnunum. Til þeirra er leitað og þess vegna er það skylda Kirkjunnar að sinna þessum sjúklingum, veita þeim styrk.

Hins vegar ef maður er þannig skapi farinn, má snúa út úr öllum, misskilja allt og finna svartan blett á hverju sem er og það virðist sem ákveðin köllun hjá þér að hakka í þig Þjóðkirkjuna, sama hvort þú hafir eitthvað fyrir þér í því eða ekki.

Matti Á. - 17/10/03 09:46 #

Ef einhver þarf hjálp að halda, þá er það sá sem hefur orðið fyrir áfalli.
Ef einhver liggur vel við höggi er það sá sem hefur orðið fyrir áfalli. Taktu eftir því Ólafur að ég skáletra sérstaklega þann hluta þar sem rætt er um að þetta sé fólk sem hefði ekki farið að spá í trúmálum ef það hefði ekki orðið fyrir áfalli. Þetta fólk þarf að ræða við sálfræðing, ekki prest sem ýtir undir fantasíur og óskhyggju.

Ég samþykki það ekki að ég snúi hér út úr nokkrum hlut, en ég hef (eins og í leikskólaprestamálum) aðra sýn á þessa hluti en Þjóðkirkjuliðið. Ólíkt þjóðkirkjuliðinu get ég séð hina hliðina á málinu. Það virðist þið vera ófær um.

Ég stend við það sem ég segi, það að troða trú ofan í fólk sem hefur orðið fyrir áfalli er skammarlegt. Verst þið kunnið ekki að skammast ykkar.

Óli Jói - 17/10/03 09:57 #

Það sem oft virðist gleymast í umræðunni er að þrátt fyrir allt þá eru 95% allra landsmanna skráð í kristin trúfélög - það skiptir miklu máli í þessari umræðu. Vel gæti ég skilið þennan málflutning hjá þér ef 50-60 væru í kristnum samfélögum, staðreyndin er bara önnur. Og þó við viljið kannski meina að kristin trú sé firra, þá er mikill meirihluti landsmanna ekki sammála ykkur, því miður fyrir ykkur.

Ég ítreka fyrri ummæli mín að þjónar kirkjunnar á sjúkrastofnunum eru ekki að troða kristinni trú upp á einn né neinn. Kirkjunnar þjónar eru umburðarlyndir og hugsa um hag náungans. Ég hef sjálfur séð djákna að störfum á sjúkrahúsi og tek ofan fyrir þeim.

Matti Á. - 17/10/03 10:00 #

Þú virðist ekki gera þér grein fyrir því að þó 95% landsmanna séu skráð í kristin trúfélög er lang stærstur hluti skráður við fæðingu og hefur ekki nokkurn áhuga á trúmálum.

Könnum sem var gerð á trúarviðhorfum íslendinga fyrir nokkrum árum sýndi að stærstur hluti íslendinga trúir alls ekki á flestar kennisetningar íslensku þjóðkirkjunnar.

Það er enginn að segja að ekki eigi að veita fólki sem hefur orðið fyrir áfalli sálgæslu. En það starf á að vera í höndum fagaðila (les: sálfræðinga) ekki fúskara (les: presta og djákna).

Óli Jói - 17/10/03 10:10 #

Ég verð að segja að mér finnst þú ekki sérlega málefnalegur eða þú hafir einfaldlega ekki vit á málefninu. Prestar og djáknar eru fagaðilar í sálgæslufræðum. Í guðfræðideild er sálgæslufræði kennd í talsverðum mæli. Það að þú segir þá vera fúskara segir kannski meira um þig en nokkuð annað. Hvernig getur sá verið fúsakri sem hefur lagt á sig margar vikur til að læra þessi fræði?

Auk þess verð ég að benda þá á þá staðreynd að almenna reglan varðandi trúfélagsskráningu er sú að börn fylgja móður. Þau eru skráð í það trúfélag sem hún er í. Ef fólki er alveg sama um trúna sína, hvers vegna: Eru um eða yfir 90% barna borin til skírnar Fermast langstærsti hluti (85-95%) 14 ára unglinga í kirkju - þó að Siðmennt bjóði upp á annars konar "fermingu". Fer mikill meirihlut brúðkaupa fram í Kirkju, þegar vel er hægt að láta pússa sig saman hjá sýslumanni?

Mér þætti gaman að fá að heyra meira af þessari könnun sem þú slærð hér fram, hvenær var hún gerð, hver gerði hana, hversu stórt var úrtakið. Hvernig var hlutfall milli landsbyggðar og borgar og hvaða kennisetningar Kirkjunnar er þarna um að ræða?

Matti Á. - 17/10/03 10:15 #

Ég hef einfaldlega ekki tíma til að standa í þessu stappi við þig núna þar sem ég er í vinnu.

Ástæðan fyrir skírnar, fermingar og brúðkaupssiðum íslendinga er hefð og ekkert annað. Það láta næstum engin íslensk hjón gefa sig saman í Kirkju útaf trúarástæðum, það vita allir sem vilja.

Sálfræðimenntun íslenskra Guðfræðing og djákna er svipuð og stærðfræðimenntun tölvunarfræðinga, ekki nema brot af því sem stærðfræðingar/sálfræðingar stúdera.

Ég skal grafa könnunina upp fyrir þig síðar.

Óli Jói - 17/10/03 10:25 #

Þú ert snillingur! Það segir sig sjálft að meiri sálfræði er kennd í sálfræði en guðfræði. En hins vegar verður að gera grein fyrir því að töluvert er kennt af sálGÆSLU í guðfræðideildinni. Sálgæslan er einkum ætluð til þess að styðja þá sem hafa lent í andlegum áföllum. Sálfræðin er hins vegar meira í öðru, þeir geta greint einstaklinga og séð t.d. hvar börn standi í þroska og alls kyns sálfræðilega kvilla. Prestar eru ekki í þessum geira - þeir læra sálgæslu.

Matti Á. - 17/10/03 10:28 #

Ólafur, ekki vera tregur.

Ég hef lokað á aðgang þinn að athugasemdum, opna aftur fyrir það í kvöld þegar ég er búinn í vinnunni.

En það er aftur á móti hárrétt að ég er snillingur. Þakka þér fyrir.

birgir.com - 17/10/03 11:12 #

"Hvernig getur sá verið fúskari sem hefur lagt á sig margar vikur til að læra þessi fræði?"

Óli Jói minn, nokkrar vikur í sálgæslu eru dropi í hafið hjá því námi sem þeir sem mennta sig í klínískri sálfræði fá. Klínískir sálfræðingar beita þar að auki aðferðum sem byggðar eru á niðurstöðum fræðilegra rannsókna og tilrauna, en ganga má út frá því að prestar og djáknar miði sálgæslu sína út frá náð og hjálpræði Krists, aflausn synda og eilífu lífi (les: hindurvitunum).

Matti, er ekki ljótt að loka svona á manngreyið?

Matti Á. - 17/10/03 11:40 #

Jú Birgir, það er ljótt og ég tek það hérmeð til baka, hef opnað fyrir aðganginn á ný.

En ég gerir þá kröfu að aðrir ( þú ;-) ) sjáið um þrasið næstu klukkutímana - ég er að reyna að einbeita mér í vinnunni :-)