Smart metsölumatreiðslubók
Mamma keypti nýju Hagkaups matreiðslubókina Grænn Kostur Hagkaupa og ég var að fletta henni í kvöld. Ég hef afskaplega gaman af því að lesa matreiðslubækur.
Mér finnst bókin ekkert sérstaklega spennandi, sá a.m.k. fátt merkilegt. Fullt af drykkjum og súpum sem mér þykir ekki spennandi. Samt er ég afskaplega hrifinn af veitingastaðnum.
Merkilegt annars með hugtakið metsölubók, í sjónvarpsauglýsingum lýsir Sólveig Eiríksdóttir höfundur bókarinnar henni sem metsölubók. Þessar auglýsingar voru að birtast daginn sem bókin fór í sölu og ég efast um að hún hafi haft sölutölur í höndunum þegar hún lýsti þessu yfir.
Það er reyndar gefið að matreiðslubækur Hagkaupa seljast vel.
Eitt pirraði mig við lestur bókarinnar. Sólveg notar orðið smart afskaplega mikið. Smart væri að gera hitt og smart að gera þetta. Meira að segja er smartast að gera eitthvað sem ég man ekki hvað er. Mér finnst það ekki smart.