Örvitinn

Má Ríkið draga úr einhverjum útgjöldum?

Ætli gárungarnir sem gera grín að niðurskurðartillögum ungra íhaldsgeldinga geti bent á eitthvað sem ríkið má spara?
Tillögur heimdellinga eru öfgakenndar og sumt af því sem þeir leggja til er glórulaust, en tilgangurinn er væntanlega sá að benda á að ríkið eyðir gríðarlegu fé og austurinn eykst ár frá ári.

Vafalaust er hægt að réttlæta öll útgjöld ríkisins með einhverjum hætti. Svo virðist sem öll verkefni íslenskra hugvísindamanna séu stórmerkileg og það væri mikil ógæfa fyrir þjóðina að skera þau niður. Íslenskir fræðimenn skulu fá greitt fyrir að gera það sem þeir vilja. Allt annað er svívirða.

Þeir sem vilja auka útgjöld til félagslegra mála á Íslandi hljóta að samþykkja að dregið sé úr útgjöldum til einhverra annarra mál. Það gengur varla að eyða sífellt meira fé í allt sem fólki dettur í hug en ætla sér um leið að hafa heilbrigðis og félagskerfi sem sómi er að.

Spurning mín er því þessi, hvað má spara? Jújú, hlæjum að heimdellingum, það er svo smart. En ekki láta eins og að hugmyndin um aðhald í ríkisrekstri sé hlægileg. Hún er það ekki.

Það er aftur á móti broslegt þegar hugvísindamenn missa stjórn á skapi sínu þegar gefið er í skyn að sum verkefni séu óþörf. Ýmis verkefni þeirra eru það nefnilega örugglega.

pólitík