Örvitinn

"Besti pabbi í heimi"

Um daginn gladdi Kolla mitt litla hjarta þegar hún lýsti því yfir einn morguninn að ég væri besti pabbi í heimi. Þetta fékk ég að heyra með knúsum og kossum og var náttúrulega alsæll með.

Í morgun vildi Kolla fá að taka bókina um Hringjarann í Notre Dame með í leikskólann. Þar sem við fórum gangandi í þetta skiptið ákvað ég að leyfa henni það ekki. Kolla hafði svar á reiðum höndum.

Ef þú leyfir mér ekki að taka bókina með, þá ertu ekki lengur besti pabbi í heimi!
Þetta var þá hluti af einhverju plotti hjá henni. Ætli þau ræði ekki svona hluti á leikskólanum krakkarnir, sitji úti í horni og spökuleri í því hvernig maður nær kverkataki á foreldrum sínum. "Segðu honum að hann sé besti pabbi í heim og þá hefurðu hann í rassvasanum"

Bókin fór ekki með, vonandi held ég samt titlinum. Hef ekki þorað að horfast í augu við Kollu síðan ég kom heim úr vinnunni :-P

fjölskyldan