Örvitinn

Sýnum þessum fíflum virðingu

Stundum er hneykslast á mér fyrir að sýna skoðunum trúmanna ekki næga virðingu. Þessu hefur gjarnan verið svarað með því að vitna í Pál Skúlanson sem sagði víst einu sinni að maður sýni fólki einmitt virðingu með því að gagnrýna skoðanir þess.

En ég er að velta virðinu fyrir mér. Á maður að sýna hverjum sem er virðingu? Er virðing eitthvað sem allir eiga skilið að njóta?

Ég held ekki, en það sem meira er, ég held að fólk sem heldur því fram að það beri virðingu fyrir öllum sé að blekkja sjálft sig. Maður ber ekki virðingu fyrir einhverjum sem hefur skoðanir sem maður fyrirlítur. Það er hræsni að halda því fram. Það er ekki þarmeð sagt að maður geti ekki varið rétt manna til að hafa fyrirlitlegar skoðanir, það er allt annað mál. Ég t.d. tel að fólk hafi fullan rétt á því að vera rasistar. En það er ekki þarmeð sagt að ég ætli ekki að fyrirlíta það fyrir fáránlegar skoðanir þeirra.

Ég ber semsagt ekki virðingu fyrir öllum. Það er ekki þarmeð sagt að ég fyrirlíti allt og alla. Öðru nær. Ég tel að flest fólk sé virðingarvert, jafnvel þó það sé ósammála mér í einhverjum atriðum. Ég mynda mér að sjálfsögðu ekki skoðanir á flestum, er bara satt að segja alveg sama um flest fólk, svona þannig talað.
Það þarf ekki að þýða að ég geti ekki fundið til samkenndar. Auðvitað get ég fundið til með fólki sem á bágt eða lendir í einhverjum raunum. Ég get það, geri það stundum en satt að segja fletti ég yfirleitt áfram án þess að staldra við.

Ég ber virðingu fyrir fullt af trúmönnum. Fjandakornið, ég ber virðingu fyrir flestum trúmönnum. En það breytir því ekki að ég tel suma þeirra vera bölvaða asna. Er einhverjum greiði gerður með því að játa það ekki?
Af hverju tel ég einhverja trúmenn asna? Yfirleitt vegna þess að þeir hafa sýnt fram á það að þeir hafa ekki nokkurn áhuga á að ræða hlutina en þeim mun meiri áhuga á að drepa umræðuna með ýmsum aðferðum.

Af hverju ætti ég ekki að kalla Biskupinn eða Séra Bolla Pétur fífl? Biskupinn hefur, þrátt fyrir að skósveinar hans reyni að halda öðru fram, lagt að jöfnu trúleysi og siðleysi. Séra Bolli Pétur predikar trú í leikskólum og er stoltur af því. Hefur með því ýtt mér út í að taka ákvarðanir fyrir börnin mín sem ég sé ekki að ég eigi að þurfa svona snemma.

Auðvitað gæti ég sagt það í löngu máli að ég væri ekki sammála þessum mönnum, teldi þá siðlausa, framkomu þeirra fyrir neðan allar hellur og eitthvað í þá áttina. En er einhverjum greiði gerðum með slíku? Er ekki bara einfaldara og heiðarlegra að koma hreint fram og segja skoðun sína.

Það er stundum áhugavert að fylgjast með hópi trúmanna í rökræðum. Þeir geta dundað sér við að ata trúleysingja auri á smekklegan hátt en um leið og þeir fá skítinn til baka á sjómannamáli fara þeir að væla. Ég trúi því reyndar sjálfur að þeir nýti tækifærið til að kúpla sig út úr umræðunni. Þarna fá þeir kjörna afsökun til að hætta án þess að játa á sig málefnafátæktina og skortinn á rökum. Geta meira að segja spilað sig sem fórnarlömb.

Jæja, er þetta ekki ágætt í bili? Ég þurfti bara að fá smá útrás.

ps. Ég vissi það ekki þegar ég skrifaði pistilinn, en Séra Bolli mætti á leikskólann í dag. Kolla og Alek fóru í heimsókn á bangsadeild þar sem þau léku sér með Ingu Maríu. Meira um það mál hér: [1 2 3]
kvabb