Örvitinn

Galbi - kóreskur grillstaður

Fórum út að borða í kvöld með stelpurnar. Áróra var reyndar hjá pabba sínum en við hin fórum. Ákváðum þetta frekar seint, þannig að við vorum að velja veitingastað eftir að við fórum að heiman.

Okkur rámaði í að það væri veitingastaður í Smárahverfi sem okkur langaði að prófa, rúntuðum þangað og fundum staðinn sem heitir Galbi í Hlíðarsmára, rétt hjá Nings.

Þetta er semsagt kóreskur grill veitingastaður. Á hverju borði er grill og maturinn er borinn fram hrár, maður sér sjálfur um að grilla. Réttirnir eru marineraðir, bæði kjöt og fiskur, og margir ansi sterkir. Kjötið og fiskinn grillar maður, dýfir í sósu, leggur í kálblað ásamt meðlæti og borðar svo með höndunum.

Við pöntuðum okkur bragðaref (2680kr á mann) og kjúklinganúðlur handa stelpunum (790kr á mann). Bragðarefur er sýnishorn af matseðli, 6 réttir. Lamb, naut, svínalund, skötuselur, steinbítur og svo chili kjúklingur sem þjónninn mælti með að við borðuðum síðast. Kjúklingurinn var forsteiktur. Með þessu voru sveppir, gulrótarsalat, agúrkur, kimchi, hoi sin sósa, ostrusósa og hrísgrjón. Við fengum okkur flösku af hvítvíni hússins (1990kr) og vorum ánægð með það.

Þetta var afskaplega bragðgott, sérstaklega þótti mér svínakjötið gott. Gyða var hrifnust af skötuselnum. Chili kjúklingurinn var svo ansi magnaður, mæli með því að þeir sem eru hrifnir af sterkum mat skelli sér í þann rétt.

Þjónustan var mjög góð, stelpurnar voru ansi þægar til að byrja með en urðu svo frekar órólegar þegar leið á, þjónninn sinnti þeim vel og tók því aðeins af okkur stressið. Þess má þó geta að við vorum einu viðskiptavinir staðarins í kvöld.

Ég mæli hiklaust með þessum stað, góður matur á ágætu verði. Skemmtileg upplifun að prófa eitthvað nýtt. Ég veit ekki hvernig gengur hjá þeim, varla mjög vel fyrst við vorum einu kúnnanir í kvöld (milli 19:00 og 20:30), hugsanlega fer hver að verða síðastur. Drífið ykkur því að prófa þetta, mana ykkur í að prófa chilibombuna.

Reikningur kvöldsins var 9.430.- kr

veitingahús