Örvitinn

Kristniboðsdagurinn

Ég sendi þessa grein inn á vantrú, vinsamlegast setjið athugasemdir við greinina þar ef þið hafið einhverja skoðun á efni hennar.

Hvernig getur nokkur sett sig upp á móti því göfuga starfi sem íslenskir kristniboðar stunda víða um heim?

Kristniboðsdagurinn er á sunnudaginn
Á þessum árum hafa orðið miklar framfarir meðal þeirra þjóðflokka sem Kristniboðssambandið hefur beint starfi sínu að. Barna- og unglingafræðslu hefur verið komið á og tugir barnaskóla byggðir þar sem engir skólar voru fyrir. Nú er í vaxandi mæli verið að sinna menntun á framhaldsskólastigi. Hjúkrunarfólk hefur verið sent á staði þar sem engin heilbrigðisþjónusta var og sjúkrastöðvar hafa verið reistar. Ýmsum framfara og þróunarverkefnum hefur verið hrint í framkvæmd að frumkvæði og í samstarfi við heimafólk.

Ég segi fyrir mig, ég er þakklátur því fólki sem sinnir þessu starfi. Ég tel það jákvætt að einhverjir séu tilbúnir að fara út í heim og hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi.

En....

"Auk alls þessa hefur fagnaðarerindið verið boðað og kristnir söfnuðir stofnaðir."
"...og boðun Guðs orðs við erfiðar aðstæður."
"...og starfsaðstöðu fyrir safnaðarstarf....Fyrstu innlendu prestarnir tóku þar til stafa á þessu ári og þegar hafa myndast nokkrir söfnuðir."
"Söfnuðir í Konsó eru nú 93 víðsvegar um héraðið. Rúm 35 þúsund manna eru í kirkjunni á svæðinu"
"Prédikarar og prestar kirkjunnar eru stöðugt að ná til nýs fólks með fagnaðarerindið. Viðbrögðin eru framar öllum vonum. Á þeim 25 árum sem kristniboðið hefur verið að störfum í Pókot í Kenýju hafa myndast þar 150 söfnuðir og á fjölmörgum nýjum stöðum er verið að undirbúa stofnun safnaða."
"Auk starfsins í Kenýju og Eþíópíu tekur Kristniboðssambandið þátt í útvarpskristniboði til Kína og sjónvarpskristniboði til Mið-Austurlanda og Norður-Afríku."

Þetta snýst þá eftir allt ekki um að hjálpa fólki heldur að ná í ný lömb. Trúir einhver að kristniboðar væru að standa í þessu ef það væri ekki fyrir trúboðið? Það er aukaatriði að hjálpa fólki, aðalatriði að kristna það.

Ég neita því ekki að ýmsar hugmyndir fólks á þessum svæðum eru verulega vafasamar. Það þarf að fræða fólkið en það er algjör vitleysa að troða í það öðrum hindurvitnum, jafnvel þó okkur þyki þau skárri. Vandamálið er að trúmenn kunna engin önnur siðferðileg rök. Þeir vita ekki um betri ástæðu fyrir því af hverju það er rang að drepa mann en að "Jesú sagði það". Er virkilega ekki hægt að boða dýpri speki?

Tólin sem kristniboðarnir nota til að fá heimamenn á sitt band eru fengin að láni, þau eru alls ekki kristin. Nútímatækni er notuð til að dæla vatni, lækna sjúka og bæta aðbúnað. Þessi tækni kemur kristni ekkert við en er samt sem áður það sem heimamenn falla fyrir. Það er í mínum huga siðlaust að nýta sér tækifærið og troða trú upp á fólk. Troðið tækni, heimspeki, siðfræði en í gvuðanna bænum, ekki trú.

Ég vona að trúmenn haldi áfram að hjálpa fólki, ég styð alla í því, sama hversu kjánaleg trú þeirra er. En það er að mínu mati ekki réttlætanlegt að nota tækifærið til að fjölga Lútherskum Kirkjum í heiminum. Á sama tíma keppast önnur kristin trúfélög við að snúa fólki til sinnar útgáfu af kristni. Þetta snýst nefnilega þegar allt kemur til alls um hvaða kirkja er best!

Að sjálfsögðu mun ekki nokkur trúmaður hlusta á þetta röfl. Þeir telja nefnilega flestir að hlutleysi í trúmálum, það að boða enga trú, sé það sama og að boða trúleysi. Þetta er náttúrulega glórulaus vitleysa, en það þýðir lítið að benda þessu fólki á það.

Ef þið hafið eitthvað við þessa grein að athuga, vinsamlegast setjið athugasemdir við hana á vantrú.

kristni
Athugasemdir

birgir.com - 09/11/03 00:05 #

Inn á Vantrú með þessa strax! :)

Matti Á. - 09/11/03 00:07 #

Jamm, ég setti hana inn á Vantrú um leið og ég var búinn að setja hana hér inn ;-) Loka fyrir athugasemdir hér.