Örvitinn

Skúringarvændi

Það er til skammar að hér á landi sé að finna konur sem neyðast til að skúra híbýli annarra sér til framfærslu. Það er alveg ljóst að enginn velur sér þetta starf óneyddur, hamingjusama skúringarkonan er ekki til. Að minnsta kosti hef ég aldrei hitt hana.

Það þarf að setja lög á hina raunverulegu glæpamenn, þá sem kaupa þjónustu skúringarkvenna, einungis þannig færum við ábyrgðina á hina raunverulegu glæpamenn.

Svo eru þessir durgar jafnvel að kaupa þjónustu án þess að borga skatt. Að sjálfsögðu eiga dónarnir að greiða skúringarkonunum (sem þeir eiga n.b. ekki að kaupa) og sjá svo um að skila inn skattinum fyrir þær líka.

Auðvitað hef ég ekkert á móti skúringum, ég tel bara að skúringar séu eitthvað sem fólk á að gera heima hjá sér með maka sínum. Ekki úti í bæ með hverjum sem er eða fyrir peninga. Engu máli skiptir hvort við erum að tala um heildarskúringar, með klósettþrifum og alls eða létt uppvask. Þetta eru allt saman skúringar þannig talað.

Glórulaust?

feminismi