Örvitinn

Sagan af Pí

Af bókarkápu:

Flutningaskip sekkur með hörmulegum afleiðingum. Nokkrir komast af og um borð í björgunarbát; fótbrotinn sebrahestur, hýena, órangútangapi, 450 punda Bengaltígur og Pí sem er 16 ára indverskur strákur. Þetta er sögusvið rómaðrar Booker verðlaunabókar Kanadamannsins Yanns Martel.

Þetta er saga sem fær mann til að trúa á Guð.

Fín bók, ég er samt ennþá trúlaus!

Sagan fjallar semsagt um strákinn Pí sem er afskaplega trúaður, allt í senn; kristinn, múslimi og hindúi. Sagan hefst í nútímanum þar sem við kynnumst Pí sem fullorðnum manni, hann segir okkur svo sögu sína.

Í stuttu máli lendir Pí í björgunarbát með sebrahesti, górillu, hýenu og tígrisdýrinu Richard Parker. Áður en langt er um liðið eru bara Pí og tígrisdýrið eftir og Pí þarf að beita mikilli hugsjónarsemi til að halda sér og Richard Parker á lífi.

Bókin er ansi áhugaverð, ég las síðari hluta bókarinnar í einum rykk í gærkvöldi, las til 01:40. Hún fær mig ekki til að trúa á Gvuð og það kæmi mér á óvart ef hún fengi nokkurn mann til að trúa á Gvuð! En þeir sem þegar trúa munu eflaust tína sitthvað úr henni til að styrkja trú sína.

Við vitum allan tímann að strákurinn mun bjargast, enda kynnumst við honum sem fullorðnum manni í upphafi bókarinn. Spennan snýst því ekki um það hvort hann mun bjargast heldur hvernig.

Ansi magnaðir fordómar og vanþekking á trúleysi/efahyggju er í bókinni en það stuðaði mig ekki mjög mikið. Ég fyrirgaf Pí þetta þó því ég vissi að skapari hans (höfundur bókarinnar) væri þarna að tala beint í gegnum hann.

Kafli 22

Ég get vel ímyndað mér andlátsorð guðleysingja: "Hvítt, hvítt! Á-á-ást! Guð minn!" - og á dánarstundinni tekur hann skrefið og trúir. Efahyggjumaður aftur á móti, sé hann trúr sínu rökvísa sjálfi, ef hann sér ekki annað en þurrar, gerlausar staðreyndir, þá gæti hann reynt að útskýra hlýja birtuna sem baðar hann með því að segja: "Hugsanlega þ-þ-þverrandi súrefni til he-he-heilans," - og þannig, fyrir skort á ímyndunarafli allt til hinstu stundar, misst af betri sögunni.

Bókin er vel skrifuð og heldur manni við efnið. Ég skimaði þó stundum yfir nokkrar línur þegar verið var að lýsa umhverfinu í enn eitt skiptið. Mæli með þessari bók, en ekki búast við að finna Gvuð í henni.

Hér fyrir neðan fjalla ég um lokahluta bókarinnar, ekki halda áfram ef þú átt eftir að lesa bókina.

Í lok bókarinnar er sagt frá því þegar tveir Japanskir fulltrúar skipafélagsins hitta Pí skömmu eftir að hann bjargast og ræða við hann um slysið. Hann segir þeim söguna sem við erum nýbúin að lesa. Þeir eiga skiljanlega erfitt með að trúa henni og spyrja Pí nánar út í atburðina. Pí segir þeim að lokum allt aðra sögu.
Í þeirri sögu endar Pí ekki með dýrunum í björgunarbátnum, heldur móður sinni, kokkinum og háseta. Kokkurinn er hýenan, móðirin górillan og hásetinn er sebrahesturinn. Pí er pí og tígrisdýrið. Kokkurinn myrðir hásetann og móður Pí en þyrmir Pí sem myrðir að lokum kokkinn.
Síðari sagan er óhugnaleg og ljóst að Pí hefur gengið í gengum óhugnalegar raunir ef hún er sönn.
Þegar hér er komið við sögu er Japanarnir að huga til heimferðar.

"Verði ykkur að góðu. En áður en þið farið langar mig að spyrja ykkur að svolitlu."
"Já, gjörðu svo vel."
"Tsimtsum fórst 2. júlí, 1977."
"Já." "Og ég kom að strönd Mexíkó 14. febrúar, 1978."
"Það er rétt."
"Ég sagði ykkur tvær sögur sem gera grein fyrir þeim 227 dögum sem liðu þarna á milli."
"Það er rétt."
"Þið getið ekki sannað hvor sagan er sönn. Þið verði að taka mín orð fyrir því?"
"Ég býst við því."
"Í báðum sögunum ferst skipið, ég missi fjölskyldu mína og þjáist mikið."
"Já, það er rétt."
"Segið mér þá, fyrst það kemur ekkert inn á þær staðreyndir sem skipta ykkur máli, og þið getið hvoruga söguna sannað, hvora söguna kunnið þið betur við? Hvor sagan er betri, sagan með dýrunum eða sagan með engum dýrum?"
Herra Okamoto: "Það er athyglisverð spurning."
Herra Chiba: "Sagan með dýrunum."
Herra Okamoto: "Já sagan með dýrunum er betri sagan."
Pí Patel: "Þakka ykkur fyrir. Þannig er það líka með Guð.
Þetta held ég að sé kjarni sögunnar, boðskapur höfundar og tengist tilvitnunni um dauðstunda efahyggjumannsins hér fyrir ofan. Það er betra að trúa mati höfundar, það sagði hann í viðtali sem ég sá í sjónvarpinu um daginn. Líf trúmannsins er að hans mati innihaldsríkara og meira líf.

Regla Occams segir okkur að seinni sagan er líklega rétt, en höfundur vill að við hunsum það sem líklegra er og veljum það sem okkur hugnast betur. Við eigum að trúa vegna þess að það er þægilegra, raunveruleikinn er kaldur og leiðinlegur.

Ég er ósammála en ætla ekki að ræða það sérstaklega hér :-)

bækur
Athugasemdir

Eggert - 03/12/03 13:11 #

Mér fannst bókin ágæt. Þrátt fyrir að hún hafi ekki sannfært mig á nokkurn hátt um tilvist guðs, skil ég betur, eftir að hafa lesið hana, af hverju fólk vill trúa á guð.
Þetta var í rauninni afbökun á rakvélarblaði Occams, þ.e.a.s. tvær mismunandi frásagnir, en í staðinn fyrir að velja einfaldari útgáfuna (sem, skv. rakvélarblaði Occams, er sú sanna), er sú 'fallegri' valin. Ég hugsa að þetta sé raunverulega ástæðan fyrir trú margra trúmanna, þ.e.a.s. að þeir þurfi 'fallega' útgáfu af lífinu til þess að gera það bærilegt.