Örvitinn

Morgunrútínan

Lífið er rútína, sérstaklega á morgnana þegar allir þurfa að komast á sinn stað; leikskólann, skólann eða vinnuna. Ég veit ekki af hverju, en mig langaði að skrifa um morgunrútínuna, ég efast um að nokkrum þyki þetta áhugavert.

Klukkan sjö á morgnana vakna Gyða og Áróra, Gyða tekur strætó í vinnuna hálf átta og Áróra leggur af stað í skólann klukkan átta.

Á sama tíma og Áróra býr sig til að fara skríðum við hin á fætur. Inga María vaknar oftast fyrst, röltir niður og hittir Áróru í örfáar mínútur - ég drattast á lappir, pissa, stíg á vigtina, bursta tennurnar og vek Kollu.

Til að stelpurnar geti borðað morgunmat í leikskólanum þurfa þær helst að vera mættar í síðasta lagi korteri fyrir níu. Því þarf á hverjum morgni að vega og meta hvort eigi að drífa stelpurnar í föt og af stað í leikskólann eða gefa þeim morgunmat heima. Oftast gef ég þeim að borða heima, það tekur mig nefnilega ótrúlega langan tíma að koma þeim í föt og út úr húsi.

Þannig að flesta morgna sitjum við þrjú við eldhúsborðið, þær borða ceerios eða corn flex, ég fæ mér ristað brauð og les fréttablaðið ef það hefur borist. Þetta er notaleg stund, við kjöftum eitthvað og stelpurnar fíflast. Tíu mínútum síðar er maður orðinn stressaður að reyna að finna föt á stelpurnar ef Gyða hefur gleymt að taka þau til.

Já, þið lásuð rétt. Gyða tekur yfirleitt til föt á stelpurnar og hefur tilbúin. Ég á nefnilega óskaplega erfitt með að finna eitthvað sem a) passar á þær og b) passar saman. Ég benti Gyðu á það um daginn að henni væri ekki stætt á því að gagnrýna bæði fatavalið hjá mér og um leið að skamma mig fyrir að vilja að hún tæki til föt á stelpurnar. Niðurstaðan var því sú að hún finnur fötin.

Þegar við erum komin niður í anddyri hefst lokaleikurinn. Stelpurnar sækja skóna og jakkana, ég sit í sófanum og klæði þær. Yfirleitt gengur þetta þokkalega, stundum er Kolla samt föst í einhverjum leik og á erfitt með að sleppa hlutverkinu. Faðir hennar berst þá við pirringin og reynir að endurtaka; "Nú vil ég að þú farir og sækir skóna þína". Þetta getur tekið smá tíma, en klárast að lokum.

Við röltum út í bíl, ég opna hurðina fyrir Kollu og hún kemur sér sjálf fyrir í stólnum sínum meðan ég festi Ingu Maríu. Leiðin í leikskólann er ósköp stutt og við erum ekki nema um fimm mínútur á leiðinni. Þegar þangað er komið förum við fyrst á bangsadeild með Ingu Maríu, kyssum hana bless bæði ég og Kolla áður en við röltum yfir á Kisudeild. Koss og knús frá Kollu er svo það síðasta sem ég sé af stelpunum þann morguninn. Stundum horfir Inga María á eftir mér þegar ég rölti út í bíl, það gerist sjaldan þessa dagana. Ég er mættur í vinnuna rétt rúmlega níu.

Það er furðulegt fólk sem hefur lesið þetta til enda :-)

fjölskyldan
Athugasemdir

Eggert - 09/12/03 21:36 #

Mætti ég frekar lesa meira um þvagblöðrur konunga!

Matti Á. - 09/12/03 21:55 #

Ég veit ekki af hverju ég setti þessa færslu inn, ég var mjög meðvitaður um að þetta væri sérstaklega óáhugavert lesefni. Ég hafði bara einhverja undarlega þörf fyrir að koma þessu frá mér :-|

Ég skrifa þessa dagbók líka aðallega fyrir sjálfan mig, ekki lesendur :-P

Már Örlygsson - 10/12/03 02:17 #

Mér fannst þetta bara ekki vitund óáhugaverð. :-) Alltaf gaman að skyggnast aðeins inn í líf annars fólks. Takk.

sirry - 10/12/03 22:44 #

Þetta var skemmtilegra en allar trúar umræður sem hér hafa farið fram og las ég þetta til enda ánægð með að sjá að rútínan á þessu heimili er ekki einsdæmi :C) Allir í sama barslinu á morgnana.

Fjóla - 11/12/03 02:49 #

Ég hef gaman af svona færslum, e.t.v. vegna þess að mínar eigin eru flestar í þessum dúr. Ég get svo upplýst þig um að þetta með fatavalið er ekkert einsdæmi hjá ykkur -Nonni hefur einstakt lag á því að velja úr skápnum þau af fötum Emils sem mér hugnast síst. Ég sé því venjulega um að finna þau til á kvöldin.

Matti Á. - 11/12/03 23:27 #

Jæja, ég mun þá halda áfram að setja inn svona dagbókarfærslur af og til :-)

Hunsa bara svona neikvæða krítík :-P