Örvitinn

Tónleikarnir í kvöld

Jæja, ég mætti fyrir framan höllina klukkan hálf sjö, Þórhallur bróðir hans Davíðs var með mér þennan hálftíma og við náðum ágætum sætum, þó drullufyrirtækið Skífan væri búin að taka öll bestu sætin frá. Hvað er málið með það?

Át tvær pizzusneiðar og skolaði niður með dýrasta sódavatni í heimi. Andaði að mér sígaretturreyk fólksins í kringum mig sem hafði furðulega þörf fyrir að geyma sígarettuna rétt við andlitið á mér í stað þess að reykja hana, megi þau öll fá drullu. Ég þarf að henda fötunum sem ég var í í þvottavél.

En nóg af kvabbi :-)
Mínus hitaði upp, og voru ágætir, mér finnst þeir virka betur á disknum heldur en á sviði, a.m.k. í kvöld. Þetta rann dáldið saman í eitt fannst mér, var samt þokkalega þétt. Eflaust líða þeir eitthvað fyrir að hljóðkerfið er tjúnað fyrir aðalbandið.

Muse mættu svo og keyrðu þetta í gegn með látum. Hver slagarinn á fætur öðrum, í raun magnað hvað þeir eiga mörg frábær lög. Matthew Bellamy aðalspíra Muse er ekkert annað en snillingur, ótrúlegt að sjá hann syngja eins og hann gerir á sama tíma og hann spilar eins og andskotinn sjálfur á gítar.

Davíð benti mér á að þeir spila töluvert af bandi, en það er víst nokkuð algengt í dag. Það er ekki eins og þeir séu að mæma þetta, heldur eru strengir, píanó og auka gítarar af bandi í sumum lögum. Mér fannst þeir helvíti þéttir og eiginlega bestir þegar þetta var einfalt, bara þeir þrír að djamma.

Showið var flott hjá þeim, tónlistin frábær. Þeir hefðu mátt rabba eitthvað við tónleikagesti. Þetta var gargandi snilld.

tónlist