Örvitinn

Fólki sárnar

Lítill fugl hvíslaði því að mér að prestur sem hér fær reglulega fyrir ferðina sé sár. Honum sárnar skítkastið og ég skil hann vel, því þó ég ati gjarnan aur hef ég sjálfur þunnan skráp og verð af og til sár.

Mér sárnar það þegar prestur kemur í leikskóla barna minna til að boða kristna trú. Mér sárnar að ég þurfi að draga börnin mín úr hefðbundnu starfi og valda því að þau eru öðruvísi. Mér sárnar að ég hef í raun ekki möguleika á að taka þessa ákvörðun til baka, því ef ég gerði það væri bara einn drengur eftir sem ekki tæki þátt, það væri illa gert gagnvart honum. Mér sárnar að ég skuli vera farinn að velta því fyrir mér að taka þessa ákvörðun til baka. Mér sárnar það að þessi prestur og flestir trúmenn hafa engan skilning á þessu, finnst að ég eigi bara að taka þessu þegjandi. Þeir hafa að þeirra mati ekki bara rétt heldur skyldu til að troða trú upp á leikskólabörn að þeirra mati. Mér sárnar það.

Á sama hátt sárnar mér þegar ég er kallaður skjaldsveinn í samræðu. Mér sárnar að vera kallaður siðlaus á opinberum vettvangi af heilögum manni.

Fólki getur sárnað þó það sé ekki uppnefnt. Sumir trúmenn mættu reyna að skilja það.

efahyggja
Athugasemdir

Fjóla - 16/12/03 00:31 #

Við stöndum í svipuðum sporum þessa dagana -nefninlega þeim að þurfa að ákveða hvort Emil eigi að fara með restinni af leikskólanum í kirkjuferð núna á miðvikudaginn. Það gerir mér óskaplega gramt í geði að þurfa að taka þessa ákvörðun, að þurfa að velja milli þess að barnið mitt sé það eina á deildinni sem ekki fer í kirkjuna, hafa hann heima þann daginn, eða senda hann með hinum börnunum, vitandi að þar verða honum sagðar tvöþúsund ára gamlar skáldsögur, matreiddar sem hinn eini og heilagi sannleikur. En það val!!

Reyndar má leikskólinn eiga það að þetta er í fyrsta sinn á þeim 16 mánuðum sem Emil hefur verið þar, að prestum er blandað inní starfið á hans deild. Í fyrra þóttu hann og jafnaldrarnir ekki nógu þroskuð fyrir jólakirkjuferðina og fóru því í Húsdýragarðinn í staðinn.

Ég á eftir að spyrja deildarstjórann út í það hvort einhverjir foreldrar hafi spurt e-ð út í þetta eða vilja ekki að börnin sín fari með. Ég efast um það, þegar þetta fer rætt lítillega á foreldrafundi í haust virtist almenn ánægja ríkja yfir þessu skemmtilega framtaki... Hver veit, kannski voru fleiri en ég sem þögðu bara og gnístu tönnum?

Matti Á. - 16/12/03 00:44 #

Það virðist ríkja almenn ánægja með þetta hjá foreldrum barna á okkar leikskóla, eins og ég minntist á hér voru 90% foreldra ánægð með þetta framtak :-|

En þetta er að sjálfsögðu aldrei rætt á foreldrafundum og raddir okkar sem eitthvað höfum á móti þessu heyrast ekki, maður þorir ekki að segja neitt þar heldur, þannig að það er kannski ekki skrítið að fáir foreldrar sjái eitthvað athugavert við þetta. Fæstir hafa nokkurn tíman spáð í trúmálum og halda að það sé samasemmerki á milli trúarítroðslu og siðfræðikennslu, það sé verið að kenna krökkunum góða siði, meðan sannleikurinn er sá að það er verið að kenna þeim að biðja bænir og syngja Jesú er besti vinur barnanna.