Örvitinn

Dude, where's my country?

Fékk þessa bók lánaða hjá Eggert en ég gaf honum hana einmitt í afmælisgjöf fyrir skömmu.

Það þekkja flestir Michael Moore og óþarfi að fjalla sérstaklega um hann. Ég las Stupid White Men og var ekkert alltof hrifinn, þótti hún slöpp þrátt fyrir að ýmislegt væri áhugavert í henni. Ég var hrifinn af mynd hans, Bowling for Columbine en þótti hann beita ódýrum brellum og fölsunum.

dude where's my country

Mér finnst Dude.. aðeins betri bók, Moore fer um víðan völl og skýtur föstum skotum að Bush og öðrum hægrisinnuðum íhaldsmönnum. Stundum finnst mér hann frekar slappur í gagnrýni sinni á Bush. Ekki að gagnrýnin sé ekki réttmæt heldur finnst mér hann grípa til ódýrra bragða sem draga úr áhrifunum. Ef maður rekst á eitthvað sem er kjaftæði, er þá restin ekki hugsanlega kjaftæði líka?

Í fyrri hluta bókarinnar er töluvert fjallað um tengsl Bush fjölskyldunnar við áhrifamenn í Saudi Arabíu, þar með talið fjölskyldu Bin Laden. Nokkuð er fjalla um stríðið gegn hryðjuverkum og hvernig það tengist baráttunni um síðustu olíudropana.

Mér finnst seinni hluti bókarinnar þar sem hann fjallar um auðhringi og skandala tengda þeim betri. Margt af því sem hann skrifar um stærstu fyrirtækin Bandaríkjanna og stjórnarmenn þeirra er ótrúlegt en eflaust satt. Sjöundi kafli, Horation Alger Must Die er skemmtileg ádeila á Ameríska drauminn, þá mítu að allir Bandaríkjamenn eigi möguleika á að verða milljónamæringar. Gagnrýni Moore á skattalækkanir Bush sem fyrst og fremst gagnast tekjuháu fólki verður einnig beitt þegar hann getur tekið dæmi af sjálfum sér, Moore græðir nefnilega helling á þessum skattabreytingum og lofar því að allur skattahagnaður hans verði nýttur í að koma Bush frá völdum.

Níundi kafli, A Liberal Paradise fannst mér áhugaverður en þar dregur Moore fram ýmis gögn sem benda til þess að Bandaríkjamenn séu mun frjálslyndari upp til hópa en þau öfl sem þar ráða flestu. Það kom mér t.d. á óvart hversu stórt hlutfall Bandaríkjamanna vill stjórna byssueign meira en nú er gert, styður frjálsar fóstureyðingar, réttindisamkynhneigðra og fleira í þessum dúr. Miðað við þau öfl sem nú stjórna landi hinna frjálsu hefði maður haldið að þetta væri á annan veg.

Kaflinn How To Talk to Your Conservitive Brother-in-Law er nokkuð góður, sérstaklega sjötti hlutinn, admit that the left has made mistakes. Í lokakaflanum plottar hann svo hvernig hægt sé að losna við Bush, leggur meðal annars til að Oprah bjóði sig fram en ef hún klikki leggur hann til að hershöfðinginn Wesley Clark bjóði sig fram, síðar hvatti hann Clark opinberlega að fara í framboð.

Bókin er semsagt ágæt, að mínu mati töluvert betri en Stupid White Men. Dálítið um þreytandi klysjur og samsæriskenningar. Ég held að Moore hefði t.d. alveg mátt sleppa því að nefna það tvisvar í bókinni að Clinton hafi látið myrða einhvern tug manna. Kaflinn þar sem Gvuð talar finnst mér slappur.

bækur