Örvitinn

Umferðarteppa

Þegar ég og Inga María ókum í Domus Medica áðan til að fá lækni til að kíkja í eyrun á henni lentum við í umferðarteppu. Alltaf er það jafn gaman.

Ég hélt að þar sem við vorum á ferð um miðjan dag væri fljótlegra að fara Miklubrautina heldur en Bústaðaveginn. Ég hafði ekki alveg rétt fyrir mér, við vorum ekki fyrr komin upp á Miklubraut en við lentum í röð sem náði að gatnamótunum við Grensásveg. Ég var á miðakrein fyrir aftan vörubíl allan tímann og sá því ekki hvað olli teppunni fyrr en vörubíllinn skipti um akrein rétt við gatnamótin. Fremst á miðakreinni stóð flutningabifreið sem hafði bilað. Fyrir aftan var lögregubíll með blikkandi ljós, löggurnar tvær stóðu og horfðu á bílstjórann reyna að gera við bílinn.

Við náðum á leiðarenda tímanlega, vorum mætt á mínútunni tvö. Biðum svo í tíu mínútur eftir lækninum.

Lexía dagsins er að það tekur því ekki að stressa sig þó maður sitji fastur í umferðarteppu á leiðinni til læknis, maður þarf hvort sem er að bíða eftir lækninum.

Við erum að fara að sækja Kollu og Gyðu. Ég ætla Bústaðaveginn í þetta skipti.

Ýmislegt