Örvitinn

Stofnfjáreigendur SPRON

spron lógó

Í fréttum er það helst að Kaupþing-Búnaðarbanki er að kaupa SPRON. Ég hef svosem enga sérstaka skoðun á því máli, finnst allt í lagi að bankastofnanir sameinist og hagræðing verði í greininni, hver veit - kannski skilar þetta sér til neytenda í framtíðinni :-P

Nokkuð hefur verið einblínt á hag stofnfjáreigenda og samkvæmt fréttum fá þeir mun meira fyrir stofnfé sitt nú en miðað við tilboð fimmmenninganna í fyrra. Gott og blessað, hugsum um hag stofnfjáreigenda - litla mannsins. Ég hef ekki mikið fylgst með þessu máli og hef lítið orðið var við samanburð á þeim upphæðum sem fara í almannamál en það ku vera töluverðir fjármunir. Samkvæmt einhverjum fréttum sem ég sá fara svo þrír milljarðar til rétt rúmlega þúsund stofnfjáreigenda eða um þrjár milljónir á hvern.

En bíðið við, hverjir eru þessir stofnfjáreigendur? Hvernig varð maður stofnfjáreigandi? Málið er nefnilega að ekki þýðir fyrir Jón litla mann að ganga inn af götunni og reyna að kaupa stofnfé í Sparisjóði. Stofnfjáreigendur eru klíka sem einungis útvaldir komast í. Einhverjir tengjast þeim sem stofnuðu sparisjóðinn og sveitarfélög eiga yfirleitt stóran hlut. Stjórnin ákveður svo hverjir fá að kaupa stofnfé og í sumum Sparisjóðum voru það fyrst og fremst ættingjar og vinir stofnfjáreigenda sem fengu að kaupa sig inn. SPRON voru duglegir við að bjóða áhrifamönnum og góðum viðskiptamönnum að koma í klíkuna og þetta er fólkið sem nú uppsker.

Í einhverjum Sparisjóðum gerði starfsfólk athugasemdir við þetta fyrirkomulag og fékk eftir smá múður að kaupa stofnfé. Það fólk er vel að þessu komið, en klíkan - fjandakornið. Hún á ekki skilið að fá einhvern rosa hagnað fyrir að hafa þekkt mann sem þekkti mann á sínum tíma. Það þurfti ekkert að vernda hag stofnfjáreigenda, það átti bara að greiða þeim sinn hlut ásamt sanngjörnum vöxtum.

pólitík