Örvitinn

Beðið á bráðavaktinni

Áróra rann í hálkunni á leiðinni í skólann í morgun og meiddi sig í hendinni. Skólahjúkrunarfræðingurinn hélt þetta væri ekki alvarlegt en vildi láta mynda hendina til að útiloka beinbrot. Því var það svo að ég og Áróra eyddum þremur klukkustundum milli hálf eitt og hálf fjögur á slysadeild LSH í Fossvogi til að fá það staðfest að hún væri ekki brotin.

Börn hafa misjafnan sársaukaþröskuld, því miður. Þetta gerir það að verkum að foreldrar kippa sér lítið upp þegar eitt barnið öskrar en stökkva til þegar annað kveinkar sér. Þannig er þetta á mínu heimili. Áróra Ósk má ekki reka sig í án þess að stórslasa sig á sama tíma og Kolla grætur ekki nema hún meiði sig töluvert. Áróra lippast niður við að reka tána í þröskuld en Kolla segir "á" og heldur áfram því sem hún var að gera. Inga María er einhversstaðar á milli þeirra. Ég var nokkuð viss um að það væri ekkert alvarlegt að Áróru þar sem hún var ennþá með meðvitund en maður getur ekki gert annað en látið kíkja á þetta, til að vera viss. Ég er ekki að segja að hún sé að gera sér upp sársauka, ég held hún finni bara meira til en annað fólk.

Tímaritakostur spítalans er ágætur, mun betri en hjá flestum öðrum biðstofum. Ég gluggaði í helgarmoggann og las bráðfyndna grein um lokaritgerð guðfræðinema um snemm ómskoðun, grein í Veru um mansal og umfjöllun um Jón Gerald Sullenberger þar sem allt kom fram nema það sem maður vildi vita! Var rétt byrjaður á vaxtaræktartímariti þegar læknirinn kom, hefði hann komið fimm mínútum síðar væri ég með það á hreinu hvernig ég á að fara að því að fá hrikalegar axlir.

fjölskyldan