Örvitinn

Byrjaður í ræktinni

Skellti mér í Sporthúsið í kvöld og fjárfesti í árskorti. Er búinn að æfa í World Class síðustu tvö ár en ákvað að breyta til. Fyrst og fremst er það vegna þess að staðsetningin hentar mér betur, það var fínt að vera í Lágmúlanum þegar ég var að vinna niðrí bæ en núna hef ég ekkert þangað að sækja, hvað þá eftir að World Class flutti í Laugardalinn og lokaði í Lágmúlanum. Ég hef ekki mætt í World Class síðan í nóvember en kortið mitt rann út mánaðarmótin nóvember-desember. Það er stutt að fara í Sporthúsið og ég stefni á að mæta fyrir vinnu einhverja daga og hugsanlega stundum í hádeginu.

Ég fékk árskortið á tilboði sem gildir til hálf tólf í kvöld, tuttugu þúsund krónur. Tók stutta æfingu, skokkaði í tíu mínútur og lyfti örlítið. Tók bekkpressu, tvíhöfða, þríhöfða, axlir og fætur. Var ekki að taka neinar þyngdir heldur bara rétt að koma mér í gang og læra á staðinn.

Það eru nokkur smáatriði sem ég sakna í Sporthúsinu. T.d. er ég vanur úr World Class að fá hreint handklæði til að hafa í salnum til að þurrka svitann af sjálfum mér og tækjunum en ekkert slíkt er þarna, ætla að reyna að taka með mér lítið aukahandklæði. Eini vatnskraninn er frammi, enginn inni við salinn og svo eru þessi sjónvarpstæki fyrir framan hlaupabrettin frekar lítil en maður er svosem ekki mættur til að horfa á sjónvarpið! Annars lýst mér ágætlega á þetta, fínt úrval af tækjum og þokkalega þrifalegt þarna.

Hvað um það, átakið er semsagt byrjað og nú verður þetta tekið með trompi. Meira um það síðar!

heilsa