Örvitinn

Heilsuátak 2004

magavöðvar

Þá er ég byrjaður í heilsuátaki ársins. Jólin fóru ekkert alltof vel í mig og ég bætti á mig tveimur kílóum eins og sést á þyngdartölunum. Það hjálpaði ekki að ég mætti ekkert í ræktina frá miðjum nóvember mánuði. Ég þarf afskaplega lítið að hafa fyrir því að þyngjast og því er nauðsynlegt fyrir mig að fylgjast vel með vigtinni.

Ég er byrjaður að æfa í Sporthúsinu, spila fótbolta þrisvar í viku og er að taka mataræðið í gegn. Markmiðið er einfalt, ég ætla að fara í 80kg og stefni á að gera það á tveimur mánuðum, sjáum svo til hvort það er vit í að fara neðar.

Maður grennist ekki með því að æfa eingöngu, það er einfaldlega of erfitt að brenna nógu miklu til að það skili einhverjum verulegum árangri. Marga hef ég séð hreyfa sig endalaust án þess að léttast nokkuð af viti þar með talið sjálfan mig. Til að léttast þarf maður að breyta mataræðinu. Ég er semsagt byrjaður á því og til að veita mér aðhald skellti ég matardagbók á vefinn og vísa á hana frá forsíðu. Ég geri ekki ráð fyrir að margir skoði matardagbókina, veit þó að Regin fylgist spenntur með ;-). Þegar ég fór í ræktina fyrir rúmum tveimur árum og fór úr 110kg niður i 100kg á þremur mánuðum hélt ég matardagbók og sýndi einkaþjálfa hana reglulega. Það skilaði sér ótrúlega vel vegna þess að þegar maður temur sér að skrifa niður það sem maður treður ofan í sig fer maður um leið að hugsa betur um það. Þegar maður veit svo að aðrir fara yfir þetta hugsar maður sig um tvisvar áður en maður étur einhvern viðbjóð. Þar sem ég hef engan einkaþjálfara í þetta skiptið ákvað ég að hafa þetta aðgengilegt fyrir alla.

Það er ekki flókið að breyta mataræðinu, aðal galdurinn er að borða oftar og minna í hvert skipti. Auðvitað sleppir maður óhollu skyndibitafæði og lætur sælgæti og sykrað gos alveg eiga sig. Nokkur önnur atriði er gott að hafa í huga, t.d. er góð regla að drekka ekki neinar hitaeiningar. Ekki drekka ávaxtasafa, fáið ykkur frekar ávöxt. (vissuð þið að það er álíka margar hitaeiningar í appelsínusafa og kók?) Drekkið vatn eða sykurlausa gosdrykki. Ég held mig við vatn og sódavatn. Á bannlista er pizza með pepporoni, kfc, franskar og ýmislegt fleira. Grillaðir hamborgarar eru í finu lagi svo lengi sem þeir eru ekki með majonessósu og svo er til fullt af hollum skyndibita.

Eins og ég sagði þá æfir maður ekki til að léttast. Maður æfir til að styrkja sig, komast í betra form og stækka vöðvana. Stærri vöðvar brenna meiru í hvíld og það skilar sér í meiri brennslu fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna sem hentar mér einkar vel. Auðvitað léttist maður eitthvað ef maður hreyfir sig meira án þess að breyta mataræði, en það þarf svo lítið til að vinna upp á móti hreyfingunni. Maður getur hlaupið í klukkutíma og endurheimt hitaeiningarnar með einu litlu súkkulaðistykki.

Ég vigta mig á hverjum degi og skrái þyngdina samviskusamlega. Ástæðan er sú að ég vill fylgjast vel með því sem er að gerast. Flestir mæla með því að fólk vigti sig vikulega en því geta fylgt gallar. Þyngd sveiflast mjög mikið og fólk getur því lent í því að sjá engan árangur á vikulegum mælingum þó það sé að léttast. Slíkt getur dregið kjark úr fólki og latt það til verka. Með því að mæla þynginda daglega og teikna trendið upp í graf sér maður nákvæmleg hvað er að gerast.

Flest af því sem hér kemur fram las ég fyrst í The Hacker's Diet. Margir góðir punktar þar.

heilsa
Athugasemdir

Einar Örn - 08/01/04 23:05 #

Ok, ég veit að það er alveg fáránlegt að kommenta á þetta. Eeeeeen, er ekki alltof langt á milli morgunmats og hádegismats? Það er, vantar ekki máltíð þarna á milli.

By the way, þá mæli ég með Weetabix í morgunmat. Það hefur breytt ótrúlega miklu fyrir mig, en reyndar átti ég við það vandamál að ég varð alltaf strax svangur eftir morgunmat, en þú þjáist greinilega ekki af því sama. En það allavegana gefur mannu mun meiri orku, sérstaklega ef maður er að æfa fyrripart dags. Mun betra en brauð!

Ok, ég vinn fyrir fyrirtækið sem selur Weetabix, en ég mæli þó með því af heilum hug :-)

Matti Á. - 08/01/04 23:09 #

Hárrétt athugað, ég þarf að koma þessu í betri farveg - fá mér ávöxt eða skyr þarna mitt á milli. Það er nefnilega ótrúlega erfitt í raun að temja sér að éta nógu oft - það virkar eitthvað svo öfugsnúið!

Weetabix er fínt, ég borðaði það rosalega oft í gamla daga. Besti morgunmatur í heimi er samt hafragrautur, sérstaklega með eggjahvítum og smá AB mjólk.

Fínt að fá komment á matardagbókina, kíktu sem oftast og láttu heyra í þér ef þetta er komið út í einhverja vitleysu :-)