Örvitinn

Risotto

risotto

Eldaði risotto í fyrsta sinn í kvöld. Hef þó eldað svipaða rétti áður en með venjulegum hrísgrjónum, ekki risotto grjónum, það munar nokkru. Þetta er afskaplega einföld matreiðsla en krefst þess þó að maður standi yfir pottunum í rúman hálftíma.

Maður þarf að vera með soð mallandi í potti og djúpa pönnu. Á pönnunni steikir maður lauk og hvítlauk upp úr olíu og smjöri, skellir grjónunum út í og hrærir vel saman við laukinn, bætir soðinu út í einni ausu í einu og lætur grjónin drekka í sig vökvann áður en maður bætir meira soði. Þetta gerir maður stöðugt í svona hálftíma, grjónin eru tilbúnin þegar þau er al dente, ekki of mikið eða of lítið soðin. Saman við þetta er svo hægt að blanda allskonar gumsi, ég var með papriku, skinku og rækjur í kvöld, kryddaði með salti, pipar og basiliku. Í flestum uppskriftum sem ég hef kíkt á er mælt með að maður noti vandað soð en ég notaði nú bara knorr teninga í kvöld, verð kannski flottari á því næst!

Það er tilvalið að nýta afganga í risotto rétti og svona matur þarf því ekki að kosta mikið. Borðuðum salat og ristað brauð með í kvöld. Ég ætla að prófa mig áfram með risotto á næstunni, gera mismunandi útgáfur.

Kolla og Inga María borðuðu vel í kvöld. Kolla var reyndar í fýlu til að byrja með vegna þess að hún vildi pasta, en þegar hún settist loks við borðið tók hún vel til matar síns og kláraði tvisvar af disknum. Þetta er með öðrum orðum barnavænt og verður því reglulega á matsetlinum á þessu heimili.

matur