Örvitinn

Sporthúsið - World Class

Ég er núna búinn að æfa í Sporthúsinu í tvær vikur og kann ágætlega við mig. Keypti árskort á góðu verði og staðsetningin hentar mér mjög vel. Ég fer ekki í neina tíma í sal, er bara að lyfta og hlaupa á hlaupabretti.

Í kaffi hjá foreldum mínum á Sunnudaginn var ég að segja Ásmundi og Hörpu að ég væri sáttur við nýja staðinn en það væru nokkur atriði sem pirra mig. Þegar ég byrjaði upptalninguna fattaði ég að það eru fleiri atriði en ég hélt sem mér finnst megi bæti hjá þeim miðað við World Class. Þess má geta að ég hef aldrei farið á nýja staðinn í Laugardalnum en æfði reglulega í Fellsmúlanum síðustu tvö ár.

Smá viðbót kl. 21:40

Fyrsta atriðið sem ég tók eftir þegar ég byrjaði í Sporthúsinu er að þar eru engin handklæði til að hafa í sal. Þetta er gott dæmi um að maður tekur ekki eftir ýmsu fyrr en það vantar. Í World Class tekur maður lítið handklæði í afgreiðslu og hefur með sér í salnum til að þurrka svitann af sér og tækjum. Ekki er boðið upp á þetta í Sporthúsinu, en í staðin eru pappírsstandar á vegg. Ég er farinn að taka með mér eigin handklæði en á það þó til að gleyma því.

Annað sem ég tók eftir eru fataskáparnir. Í skápunum í World Class voru a.m.k. tveir snagar en í Sporthúsinu er einungis stöng og herðatré. Ég er ekki ennþá búinn að ná tökum á því að setja öll fötin mín á eitt herðatré, yfirleitt endar megnið af þeim ofan á töskunni. Ekki stórmál, en telur. Læsingin er líka asnaleg og litli lásinn minn rétt passar.

Ég hef bara séð einn vatnskrana í Sporthúsinu hjá vaskinum frammi við búningsklefa. Engir vatnstútar eru inni við salinn sjálfan sem getur verið bagalegt ef maður gleymir brúsanum heima. Í World Class Fellsmúla voru kranarnir í salnum og einn var hægt að drekka af stút, reyndar voru þeir stútar ansi reglulega bilaðir.

Í World Class eru starfsmenn á sífelldum þeytingi að þrífa sturtuklefa og líkamsræktaraðstöðu. Ég hef ekki ennþá orðið var við slíkt í Sporthúsinu, þar með er ekki sagt að það eigi sér ekki stað, gerist kannski á öðrum tímum en þegar ég er þarna. En gólfið í karlasturtunni hefur undantekningarlaust verið frekar sóðalegt. Það var oft sóðalegt í World Class á álagstímum, en yfirleitt var það snyrtilegt.

orbitrek tæki

Hlaupabrettin í Sporthúsinu eru ekki í sama gæðaflokki og stóru brettin í World Class. Í Fellsmúlanum voru ekki mjög mörg stór bretti en mér skilst að í Laugum séu þau fleiri. Það munar að mínu mati mjög miklu hversu góð brettin eru, miklu meiri hætta á að maður togni á lélegu eða biluðu bretti. Orbitrek tækin (sjá mynd) í Sporthúsinu virðast líka vera óttalegt drasl miðað við tækin í World Class, ekki næstum því eins stöðug og massíf. Eitt smáatriði sem pirraði mig í gærkvöldi, staðsetningin á tengjum fyrir heyrnartól er kjánaleg, of langt til hliðar, sem gerir það að verkum að ég var sífellt að reka höndina í snúruna og taka heyrnartólin úr sambandi meðan ég gekk upp ímyndaða brekku og skoðaði stelpurnar, kannski er snúran á þessum heyrnatólum bara of stutt. Sjónvarpstækin eru frekar lítil en það er ekki stórmál, ég sé ágætlega!

Í sal sakna ég nokkurra tækja en það gerir ekki mikið til. Ég ætla að fara meira út í basic æfingar með frjálsum lóðum og það er ágætis aðstaða í innri salnum.

Húsnæðið virðist ekki vera neitt sérstaklega vel einangrað og eitt kvöldið í síðustu viku var mér beinlínis drullukalt. Hef síðan farið í auka treyju. Lenti aldrei í þessu í World Class.

Bílastæðið er algjörlega óupplýst drullusvað í brekku. Það er meiriháttar leikfimi að mæta á staðinn í myrki. Kosturinn er að svæðið er stórt og undantekningarlaust hef ég fengið stæði, en maður er í stórhættu þegar maður röltir að húsinu í hálku. Bílastæðamál í Fellsmúlanum voru reyndar ekki til fyrirmyndar, þar voru alltof fá stæði og ekkert þýddi að mæta þar á álagstíma. Einnig skilst mér að bílastæðið á nýja staðnum sé ekki tilbúið en fjandakornið, Sporthúsið er búið að vera þarna í nokkurn tíma.

Ég var dálítið hissa að sjá að innskráningarkerfið í Sporthúsinu byggist á því að slá inn kennitölu. Hélt að allir staðir væru hættir með slíkt enda fáránlega auðvelt að svindla á því. Þetta skiptir mig reyndar engu máli þjónustulega, en það er augljóslega flottara að láta skanna á sér augun þegar maður mætir í ræktina :-P

Ég er, þrátt fyrir þessa upptalningu, sáttur í Sporthúsinu og ætla að vera duglegur að mæta næsta árið. Miðað við staðsetningu á vinnustað hentar það mér vel að æfa þarna og ég borgaði fáránlega lítið fyrir árskortið. En þeir þurfa að bæta ýmislegt, að mínu mati, til að standast samanburð við World Class.

21:40
Fór á æfingu áðan, rétt rúmlega sex og þá varð ég var við strák sem var að þrífa í karlaklefanum. Gólfið var líka þokkalega snyrtilegt þegar ég fór í sturtu hálf átta. Ætli þeir séu ekki duglegri að þrífa á álagstímum.

Ég ætlaði að lyfta létt í kvöld, taka hendur og axlir, en þegar ég var að hita upp á hlaupabretti kom að mér náungi og spurði hvort ég væri til í að spila fótbolta, þá vantaði áttunda mann. Ég sló til og spilaði fótbolta í 50 mínútur, var alveg búinn á. Það er ágætis gervigrasfótboltavöllur í Sporthúsinu, ansi mjúkt undirlag, mun mýkra en það sem ég hef áður kynnst á gervigrasvöllum, en þokkalegt.

heilsa
Athugasemdir

sirry - 20/01/04 13:25 #

Þú ættir kannski að senda þeim þennan pistil þinn og gá hvort þeir taki þetta ekki til athugunar.