Örvitinn

Sóun á doktorsgráðum

Var að kíkja í afskaplega veglegan auglýsingarbækling frá KB Banka. Ég nenni ekki að lesa þetta mjög ítarlega en stoppaði þó við starfslýsinguna hans Frosta sem var með mér í bekk í Verzló.

Ein greinin vakti samt áhuga minn, en þar var verið að ræða við doktorana sex sem starfa við rannsóknir eða áhættugreiningu hjá bankanum. KB banki stærir sig skiljanlega af þessum bráðgáfuðu mönnum en ég get ekki annað en hugsa með sjálfum mér, hvílík sóun. Hvað eru þessir snillingar að þvælast í banka, af hverju eru þeir ekki að gera eitthvað merkilegt, þróa vörur sem bæta heiminn á einhvern hátt? Jújú, þeir eru að gera eitthvað flókið, hanna reiknirit og finna út aðferðir til að græða meira, minnka áhættu bankans og þess háttar, en fjandakornið - þetta er bara peningabrask þegar allt kemur til alls.

Mér finnst þetta sóun, eflaust borgar bankinn vel en þessir doktorar hefðu örugglega fengið góðan pening sama hvað þeir hefðu tekið sér fyrir hendur, gátu þeir ekki valið eitthvað annað?

Í markaðshagkerfi keppa menn um hæfasta fólkið og þarna hafa bankarnir ákveðið forskot. Á sama tíma eru fyrirtækin sem vöxtur bankanna hlýtur að einhverju leiti að byggja á að missa af þessu hæfileikafólki.

Gyðu finnst ég vera að gera lítið úr bönkunum, en af hverju ætti ég að gera það, ég vinn í banka :-) Ég er bara að gera mikið úr snillingum.

kvabb
Athugasemdir

dmd - 23/01/04 22:51 #

Hvað finnst þér um sjónvarpsauglýsinguna frá KB banka?

Matti Á. - 23/01/04 23:03 #

Ég man ekki eftir henni í augnablikinu, hef samt séð hana. Reyni að taka eftir næst.

23:30 Sá hana núna, er þetta ekki bara ágæt auglýsing?

Erna - 23/01/04 23:33 #

Æji, sko maður þarf ekkert að vera neinn snillingur til þess að klára doktorinn. Doktorsmenntað fólk er bara venjulegt fólk sem hefur ákveðið að verja tíma sínum í mikla sérhæfingu og grúsk. Þeir sem eru mestu snillingarnir þurfa oftast ekkert doktorspróf til þess að láta aðra njóta snilligáfu sinnar.

Það er ekki hægt að krefjast þess af öllu doktorsmenntuðu fólki að það vinni bara af hugsjón, þó að margir geri það náttúrulega.

Erna - 23/01/04 23:37 #

... og það er líka mikill misskilningur ef að þú ert að gefa í skyn að maður fái góð laun "by default" ef að maður er með svosem eins og eina Ph.D í rassvasanum....

Matti Á. - 23/01/04 23:41 #

Ég er náttúrulega ekki að krefjast neins, bara að svekkjast yfir því að doktorarnir hjá KB séu að gera eitthvað annað en að smíða vélmenni :-)

Ég ætla ekki heldur að gefa í skyn að maður fái sjálfkrafa góð laun við að hafa doktorsgráðu. Ég er samt viss um að þessir sex gaurar hjá KB hefðu getað fengið góð laun við eitthvað annað, þó kannski ekki jafn góð og hjá bankanum.

Egill - 27/01/04 22:00 #

Bíddu, hvað er að því að fólk velji sér þann starfsvettfang sem því sýnist?

Þú virðist gefa þér það að viðkomandi einstaklingar séu ekki starfandi hjá bankanum af fúsum og frjálsum vilja, og af því að þeir hafi áhuga á því.

Lestu nú greinina eins og maður, þótt þú vinnir hjá Landsbankanum þá þarftu ekki að vera með svona rosalega stórt prik í rassgatinu á þér.

Matti Á. - 27/01/04 22:14 #

Einkennileg athugasemd, svo ég segi ekkert meira.

Bíddu, hvað er að því að fólk velji sér þann starfsvettfang sem því sýnist?

Ekki neitt, hvað er að því að mér finnist að doktorar í verkfræði, eðlisfræði eða stærðfræði ættu í ideal heimi að gera eitthvað merkilegra?

Þú virðist gefa þér það að viðkomandi einstaklingar séu ekki starfandi hjá bankanum af fúsum og frjálsum vilja, og af því að þeir hafi áhuga á því.

Þú virðist tregur, ég gef mér ekki neitt heldur set fram þá skoðun mína að það sé sóun að fólk með þessa menntun sé ekki að gera eitthvað merkilegra. Þetta eru ósköp saklausar vangaveltur hjá mér og óþarfi hjá þér (og reyndar Ernu líka) að gera meira úr þeim en efni standa til. Þessi ályktun þín styðst ekki við neitt í texta mínum, ég er að fjalla um ákvörðun þeirra.

þá þarftu ekki að vera með svona rosalega stórt prik í rassgatinu á þér.

Er það, að ég hafi skoðun á einhverju, í þessu tilviki þeirri staðreynd hversu margt fólk með framhaldsmenntun fer að starfa í fjármálageiranum, dæmi um að ég sé með "stórt prik í rassgatinu á mér"? Hvað í skrifum mínum réttlætir svona skítkast?

Egill - 27/01/04 23:08 #

Ætlaði reyndar ekki að seilast svo langt að tala um prik í rassi, biðst velvirðingar á því.

En samt sem áður, ekki gera lítið úr bankageiranum, doktorunum eða þeirra vali. Í mínum bókum teljast þessi skrif þín til hroka, og er að ég fæ best séð litað af menntahroka og því að þú starfar/starfaðir hjá Landsbankanum.

Matti Á. - 27/01/04 23:26 #

Í mínum bókum teljast þessi skrif þín til hroka, og er að ég fæ best séð litað af menntahroka og því að þú starfar/starfaðir hjá Landsbankanum.

Vissulega er ég hrokafullur að eðlisfari en seint verð ég sakaður um menntahroka enda ekki einu sinni með BS gráðu, hvað þá meira. Það mætti frekar tala um þetta sem mennta-undirlægjuhátt, ég sé að gera of mikið úr menntafólki, en ég tilheyri þeim hópi svo sannarlega ekki.

Þetta er á engan hátt litað af því að ég vinn hjá Landsbankanum, enda talaði ég um almennt um banka. Útgáfa þessa myndarlega auglýsingabæklings KB Banka var hvatinn að þessum litla pistli, en ég hef oft verið að velta þessu fyrir mér almennt.

Mér þykir það ævintýraleg túlkun að segja að ég geri lítið úr doktorunum, það liggur beinast við að saka mig um að gera of mikið úr þeim, ef fólk hefur mikla þörf fyrir að saka mig um eitthvað.

Þú og Erna lesið bæði alltof mikið út úr þessu, ekki veit ég af hverju. Ég skil reyndar Ernu betur, enda er hún í doktorsnámi og finnst kannski á einhvern hátt að sér vegið, þó ég eigi reyndar erfitt með að sjá hvernig hægt væri að lesa slíkt út úr þessu - nema hún sé að stefna á að vinna hjá fjármálastofnun þegar hún kemur heim úr námi :-) Þú virðist aftur á móti frekar vera í einhverri óþarfa vörn fyrir vinnuveitanda þinn, held þú ættir að slaka aðeins á og lesa úr þessum skrifum á sanngjarnan hátt í stað þess að rembast við að gera mér upp skoðanir.

Flestar skoðanir sem ég læt uppi í þessu bloggi eru settar fram á þann hátt að engin þörf er að lesa á milli línanna.