Örvitinn

Fasistar í Páfagarði - hugsanalestur í sjónvarpi

Það er ekki hægt annað, eftir að hafa horft á sjónvarpsþátt um MediciniMedici fjölskylduna í kvöld, en að velta fyrir sér hverslags fasistar Kirkjunnar þjónar hafa verið í gegnum tíðina. Ég sá fjórða og síðasta þátt seríunnar í kvöld, missti af öllum hinum.

Svo eigna trúmenn Kirkjunni framfarir og þróun í vestur Evrópu, þegar allir sem horfa á heiminn með augun opin sjá að það er þrátt fyrir Kristni en ekki vegna hennar, sem Evrópa blómstraði. Nasistar fundu svo sannarlega ekki upp bókabrennurnar, frekar en Gyðingaofsóknirnar.

Mögnuð dagskrá fyrir efahyggjumenn í sjónvarpinu í kvöld, þáttur Derren Brown, Mind Control er snilld, frábært að sjá hvernig maðurinn fer að því að leika sér að fólki, lesa úr hegðun þess og fá það til að framkvæma það sem honum dettur í hug. Margt af því sem hann gerir virkar ósköp einfalt, annað er óskiljanlegt. Íslensku miðlarnir eins og Þórhallur loddari líta út eins og viðvaningarnir sem þeir eru borið saman við Derren Brown. Mæli með þessum þætti en það eru tveir eftir í þessari seríu.

efahyggja
Athugasemdir

Nóri - 27/01/04 00:16 #

Medici.. ekki Medicini

Skúli - 27/01/04 08:50 #

"Svo eigna trúmenn Kirkjunni framfarir og þróun í vestur Evrópu, þegar allir sem horfa á heiminn með augun opin sjá að það er þrátt fyrir Kristni en ekki vegna hennar, sem Evrópa blómstraði."

Galíleó, Bruno og hinir snillingarnir sem rannsóknarrétturinn ofsótti (var nokkuð boðið upp á rannsóknarrétti á Galíleó?) töldu sig nú ekki vera að steypa kristninni af stóli með kenningum sínum, eins og reyndar kom fram í þættinum.

Ofsóknirnar voru dæmigerð kreppueinkenni stofnunar sem komin var á heljarþröm en Rómarkirkjan vakti viðbjóð hjá hugsandi kristnum mönnum á þessum tíma. Bæði var kirkjan um þetta leyti margklofin sökum ofríkis páfagarðs og svo fór rómverska kirkjan sjálf í gegnum hreinsunareld innri siðbótar.

Hitt er annað mál að vísindabyltingar hljóta að vera samspil margra þátta. Kristninni einni verður ekki eignað þetta enda hafa aðrir heimshlutar átt sín blómaskeið.

Samt... þekkingin varðveittist í klaustrunum (Bruno var t.d. munkur) og líflegar umræður fóru fram innan veggja háskólanna, sem störfuðu í nánum tengslum við klaustrin. Hugmyndin að Guð væri skaparinn gat af sér þá afstöðu að einhver skikkan væri þarna á bak við - lögmál sem hægt væri að rýna í osfrv.

Kirkjan er ekki bara kirkjuyfirstjórnin.

Matti Á. - 27/01/04 12:05 #

(var nokkuð boðið upp á rannsóknarrétti á Galíleó?)
Þeir ættu kannski að láta mann leggjast á gólfið fyrir framan kokkinn og grátbiðja um matinn um leið og maður afneitar öllum öðrum veitingastöðum :-)

Vissulega áttu sér framfarir stað innan klaustra og annarra stofnana Kirkjunnar, en er það skrítið, kom Kirkjan ekki í veg fyrir að þær gætu átt sér stað annars staðar? M.ö.o., einokaði Kirkjan ekki þennan bransa og hrósar sér svo síðar af miklum árangri, þegar beinast liggur við að framfarir hefðu orðið mun meiri ef Kirkjan hefði ekki verið til staðar. Þ.e.a.s. þetta gerðist þrátt fyrir en ekki vegna Kirkjunnar.

Vissulega eru fleiri fletir á þessu og samspil Kirkjunnar og veraldlegs valds í Evrópu fyrr á öldum hafði mikil áhrif á þróun lýðræðis, en það er önnur og flóknari saga!

Skúli - 27/01/04 12:44 #

Blessaður, jú, þeir einokuðu þetta lengst af og fóru hörmulega með hómópatana, hugsjónamennina, vísindamennina og aðra þá sem þeir tengdu við trúvillu, galdur og kukl.

Er að lesa um sagnfræðinginn Carlo Ginzburg sem fékk að gramsa í skjalasöfnum Vatíkansins. Þar fann hann fundargerðir af yfirheyrslum ítalska rannsóknarréttarins fyrrnefnda frá smáþorpi í Ölpunum. Ekki ber á öðru en að karlpeningur bæjarins hafi allur sem einn farið í leiðslu við jafndægur að vori og flogið til móts við forynjur... á ekki orð yfir þessu.

Höf. heldur því fram að ekki hafi verið beitt fantabrögðum til að fá þetta upp úr blessuðum þorpsbúum (sem áttu sér einskis ills von) en rannsakendur munu ekki hafa reynt að fela þau meðöl í dómskjölum ef þeim á annað borð var beitt. Fleiri heimildir munu vera til um samskonar hópsefjun og -flug frá 16. og fram á 18. öld.

Á Norðurlöndum 17. og 18. öld var t.a.m. ekki óalgengt að venjulegt fólk yrði fyrir vitrun, sæi t.d. engil, og í kjölfarið tók það að boða fólki Guðs ótta og betri siði. Þetta fór mjög í taugarnar á kirkjuyfirvöldum sem vildu gjarnan sitja ein að slíkum verkum.

Jæja, ég ætla ekki að skrifa ritgerðina mína hérna... en bæti því samt við að breytingar innan kirkjunnar komu bæði fyrir ytri og innri áhrif.

Það væri annars sniðug hugmynd og síðbúin hefnd ef menn gætu pantað sér rannsóknarrétt, rjúkandi heitan (flamberaðan?) á Galíleó.

Birgir Baldursson - 28/01/04 15:55 #

Skúli, ég mæli með því að bókin "Blekking og þekking" eftir Níels Dungal fari á listann yfir heimildir ritgerðar þinnar.

Skúli - 28/01/04 23:57 #

Hana hef ég ekki lesið en ætla samt að drífa í því einhvern tímann. Ætli hún sé til á Þjóðarbókhlöðunni?

Matti Á. - 29/01/04 00:04 #

Já, bókin er þar. Ég tók hana einmitt að láni í Bókhlöðunni fyrir mörgum árum. -- bah, linkurinn virkar ekki, þú finnur bókina í gegni.