Örvitinn

Þungt yfir mér

myrkur

Það kemur fyrir að mér leiðist alveg óskaplega, finnst tilveran grá og úldin. Engu máli skiptir þó ýmislegt áhugavert sé að gerast í kringum mig, ég hafi margt að hlakka til og ætti að vera fullur eftirvæntingar.

Ég veit ekki hvort þetta tengist skammdeginu, hugsanlega er svefnleysi um að kenna. Vel getur verið að áfengisdrykkja hafi sitt að segja, jafnvel þó þar sé bara um að ræða hefðbundið helgarskrall get ég verið þokkalegan tíma að jafna mig. Ég drekk áfengi satt að segja ekki oft.

Ég hugga mig við það núna, þar sem ég ligg í sófanum og finn mér ekkert merkilegra að gera en að hanga á netinu, að í kvöld er æfing í boltanum. Skiptir ekki máli hvernig skapi maður er í þegar maður mætir í boltann, yfirleitt líður manni betur á eftir - a.m.k. meðan varir.

Á svona stundum væri til bóta að geta fengið sér gleðipillu, valið rauðu eða bláu pilluna og skipt um skap - ekki breyta heiminum heldur sjálfum sér. Mér er óskaplega mikið sama um flest, skil ekki af hverju maður ætti að kippa sér upp við allan andskotann, stressa sig á því sem maður getur ekkert gert við hvort sem er. Veit ég hvað ég vill - já og nei, maður vill það sem maður getur ekki fengið og ekki sleppa því sem maður hefur.

Hvað er til bóta? Ekki neitt, þetta lagast - maður aðlagast. Þangað til ætla ég að láta mér leiðast, merkilegt þegar ég hugsa til þess hvað það er margt sem mér leiðist, margt sem ég læt fara í taugarnar á mér. Þunglyndi? Nei, ég held ekki - sjálfsvorkun og aumingjaskapur.

Æi þetta er aumkunarvert væl - hvað kom þér þetta við? Family Guy ætti að létta skapið.

prívat