Örvitinn

Biskup og Bush

Trúarnöttarar eru eins hvort sem þeir starfa í Kirkjuhúsinu eða Hvíta húsinu. Báðir hata þeir syndina en elska syndarann. Ég held það væri til bóta ef báðir þessir menn töluðu hreint út svo fólk vissi hvar þeir standa í þessu máli - við vitum það náttúrulega, hvorki Biskup né Bush styðja hjónaband samkynhneigðra, báðir líta þeir á samkynhneigð sem synd, úrkynjun. Það væri að mínu mati miklu heiðarlegra ef þeir segðu það hreint út í stað þess að þykjast umburðarlyndari en þeir eru.

Staðfest samvist er skráð sambúð, en ekki hjónaband. /. . ./ Hjónavígsla er annað og meira en staðfesting á ást og sambúð einstaklinga. Það á sér forsendu í gagnkvæmni kynjanna. Karl Sigurbjörnsson Biskup
Hjónabandið er heilagt og það á sér stað milli karls og konu, ... Við verðum að gera það sem er lagalega nauðsynlegt til að verja heilagleika hjónabandsins Georg W. Bush
kristni
Athugasemdir

Árni Þór - 05/02/04 14:04 #

Ég sé nú ekki af þessum tilvitnunum að biskup sé mótfallin hjónavígslu samkynheigðra vegna þess að hann líti á það sem " synd, úrkynjun".

Hann virðist hafa málefnaleg rök fyrir þeirri afstöðu sinni: "Hjónavígsla er annað og meira en staðfesting á ást og sambúð einstaklinga. Það á sér forsendu í gagnkvæmni kynjanna".

Það að gangast við þeirri forsendu að hjónabandið sé grundvallað á gagnkvæmni kynjanna er fullkomlega rökréttur grundvöllur fyrir að leggjast gegn hjónavígslu samkynhneigðra. Þú þarft ekki að vera sammála þeirri forsendu, en hún heldur þó samt. Athugaðu að þarna er biskupinn að tala um hjónavígslu. Ég veit ekki til þess að hann hafi lagst gegn lögleiðingu sambúðar samkynhneigðra með þeim hætti sem George Bush gerir.

Hefur biskup beitt sér á sama hátt og George Bush til að koma í veg fyrir lög sem leyfa staðfesta sambúð samkynhneigðra?

Matti Á. - 05/02/04 14:17 #

Biskup lítur á samkynhneigð sem synd - það hefur hann sagt sjálfur.

Það að gangast við þeirri forsendu að hjónabandið sé grundvallað á gagnkvæmni kynjanna er fullkomlega rökréttur grundvöllur fyrir að leggjast gegn hjónavígslu samkynhneigðra. Þú þarft ekki að vera sammála þeirri forsendu, en hún heldur þó samt.

Þessi forsenda er einmitt kjarni málsins og hún er afskaplega vafasöm. Hjónaband var grundvallað á gagnkvæmni kynjanna en nú eru breyttir tímar Árni. Við vitum alveg að Kirkjan mun fylgja í kjölfarið - væntanlega verður hún svona 50-100 árum á eftir þjóðfélaginu eins og í flestum framfaramálum ;-)

Hefur biskup beitt sér á sama hátt og George Bush til að koma í veg fyrir lög sem leyfa staðfesta sambúð samkynhneigðra?

Nei, en hann hefur kæft viðleitni til aukins frjálsræðis gangvart samkynhneigðum og þjónustu við þann hóp innan Þjóðkirkjunnar, Halldór kemur inn á þetta í athugasemd sinni hér.

Halldór E. - 05/02/04 21:46 #

Blessaðir, eins og ég bendi á í færslunni sem Matti vísar til, þá var það EKKI biskup sem kæfði málið hjá kirkjunni. Þó vissulega sé það rétt að málið var þæft eða kæft á formlegum vettvangi.
Fjölmargir kirkjunnar menn vinna náið með Samtökunum 78, FAS og fleirum til að finna leiðir til þess að kirkjan geti með sanni sagt að hún sé farvegur kærleikans til allra manna. Þar get ég t.d. nefnt Ragnheiði Sverrisdóttur á þjónustusviði Biskupsstofu, sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur héraðsprest, sr. Ólaf Odd og sr. Auði Eir sérfræðing á Biskupsstofu.

E.s. Að gera Karl biskup ábyrgan fyrir öllu því sem er sagt eða gert á vetvangi íslensku þjóðkirkjunnar er mikill misskilningur á uppbyggingu og starfsháttum lútherskrar kirkju.

Matti Á. - 05/02/04 21:53 #

Ekki halda því fram að Karl biskup sé ekki íhaldsamari en gengur og gerist innan þjóðkirkjunnar. Við vitum betur. Hvað ætlið þið að segja mér næst, að hann hafi ekki haldið því fram að samkynhneigð sé synd? Svartstakkar séu mýta!

Fjölmargir kirkjunnar menn vinna náið með Samtökunum 78, FAS og fleirum til að finna leiðir til þess að kirkjan geti með sanni sagt að hún sé farvegur kærleikans til allra manna.

Án þess þó ganga það skrefið að fullu og blessa samkynhneigð pör í kirkju. Hvað hefur kristur á móti samkynhneigðum?

Nei Halldór, vel getur verið að Biskup hafi ekki staðið á bak við það persónulega að stoppa umræðu um frjálslynd viðhorf gagnvart samkynhneigðum en hann hefur heldur ekkert gert til að opna þá umræðu.