Örvitinn

Níels var sannspár

Þessari bók verður vafalaust illa tekið af þeim sem fastgrónir eru í sinni "barnatrú", sem þeir telja heilaga og er hjá sumum svo viðkvæm, að hún þolir enga snertingu. Aðrir munu segja, að það sé óðs manns æði af lækni, að skrifa um guðfræðileg efni, sem hann hafi ekkert vit á. Gegn slíkum mótbárum vil ég minna á þá staðreynd, að ýmsir óprestlærðir menn hafa skrifað bækur til að vegsama trúna, þar sem engar heimildir hafa verið notaðar aðrar en tilfinningar þeirra sjálfra og biblían, og minnist ég þess ekki að við slíkum ritum hafi verið amast af kirkjunnar mönnum.

Níels Dungal - Blekking og þekking, inngangur

Níels Dungal vissi hvað hann var að segja. Reyndar var sú gagnrýni sem hann fékk eftir að bókin kom út öll á þessum nótum og þaðan af verri.

Gaman að því hvað hægt er að mistúlka vináttuhugtakið í neyð. Jesú var ekki vinur lærisveina sinna, þeir litu upp til hans, hann var þeim æðri. Hann talaði, þeir hlustuðu. Slíkt samband er ekki vináttusamband, jafnvel þó það geti verið vinalegt. Vinir eru jafnir, það á svo sannarlega ekki við um samband Jesú og lærisveinanna.

Auðvitað geta menn tínt til einhvern tittlingaskít, en þessi gagnrýni er að mínu mati smásmuguleg og kemur hvergi nærri kjarna bókarinnar.

kristni
Athugasemdir

Óli Gneisti - 16/02/04 00:32 #

Níels kom aðeins fram í kvöldfréttum Sjónvarps, það var verið að tala um lífsýnasafn sem hann átti frumkvæði af því að skipuleggja á sínum tíma.

Skúli - 16/02/04 07:02 #

Aha! Þú tengir gagnrýni mína þessum spádómsorðum Dúngals. Er það ekki rétt skilið? A.m.k. ertu með tvær vísanir á greinina mína þarna.

Skoðum þetta nánar:

  1. Dúngal spáir því að bókinni verði tekið illa af þeim sem svo "fastgrónir eru í sinni "barnatrú", sem þeir telja heilaga og er hjá sumum svo viðkvæm, að hún þolir enga snertingu."

Enn og enn og enn og aftur: ég er ekki á móti rökræðum um trú. Hvers vegna er alltaf slegið á þessa strengi hér?

  1. "Aðrir munu segja, að það sé óðs manns æði af lækni, að skrifa um guðfræðileg efni, sem hann hafi ekkert vit á." Mér er hjartanlega sama við hvað maðurinn starfaði. Einbeitti mér bara að textanum.

Þú ættir nú að passa þig sjálfur betur á þeim rökvillu - púkum sem þú ert stöðugt að finna í skrifum annarra?

Skúli - 16/02/04 07:47 #

"Auðvitað geta menn tínt til einhvern tittlingaskít, en þessi gagnrýni er að mínu mati smásmuguleg og kemur hvergi nærri kjarna bókarinnar."

Þetta er nú aðeins meira en tittlingaskítur. Ég tíunda þessi atriði úr bókinni þar sem hann segir að:

  1. Vináttan sé hvergi nefnd
  2. Vinnan sé einskis metin
  3. Dygðir séu lítils virtar
  4. Og svo náttúrulega að blessuð tæknin eigi eftir bræði klaka og snjó! ;)

Hverju gleymi ég sem er svona mikilvægt? Og ef þessi kafli sem ég vitna í (sjálf lokaorðin: niðurstaðan) er svona ómerkilegur - hvers vegna birtið þið hann þá á vantrúnni?

Heldurðu að það sé mánudagur í manni? ;)

Matti Á. - 16/02/04 10:07 #

Vinátta milli tveggja manna, eins og Níels Dungal er augljóslega að ræða um, kemur hvergi til tals í NT. Dæmi þín snúast ekki um vináttu.

Dæmið þar sem vinnusemi er tengd við kristni er klassísk post hoc ergo procter hoc rökvilla. Þ.e.a.s. einhverjir eru vinnusamir, þeir eru kristnir, ergo: kristni leggur áherslu á vinnusemi. Segðu mér hvar í NT lögð er áhersla á vinnusemi.

Dygðir eru lítils virtar - kristin siðfræði snýst að mestu leyti um að forðast syndir.

Fjórða atriði er hlægilegt Skúli, klassísk tæknibölvunarsemi - það er einmitt tæknin sem er forsenda þess að við forðumst gróðurhúsaáhrif. En þú gerir þér að sjálfsögðu grein fyrir því að helsti valdur gróðurhúsaáhrifa er náttúran - ekki tæknin. Mennirnir eru nefnilega, þegar allt kemur til alls, ósköp máttlitlir við hlið móður náttúru. Hver er veigamesta gróðurhúsalofttegundin Skúli?

Þetta er tittlingaskítur, því þú tekur eina málsgrein úr lokaorðum (niðurstöðu) bókarinnar og snýrð út úr þeim. Sakar Níels Dungal um að hafa rangt fyrir sér, þegar það er alveg ljóst að þetta snýst um orðhengilshátt. Þú ert t.d. farinn að túlka vináttu á ýmsan máta, sbr. Jesús og lærisveinana, sem augljóslega er ekki vináttusamband og Jesús og Maríu, sem ennþá frekar er ekki vináttusamband.

Skúli - 16/02/04 10:50 #

Vinátta milli tveggja manna?

Dungal segir: "Í öllu Nýja testamentinu er hvergi minnst á vináttu, frekar en hún væri ekki til milli manna."

Ég held þú sért nú farinn að slá mér við í ritskýringunni. ;>)

Dungal segir líka að í öllum KRISTINDÓMNUM sé vinnan lítils virði. Þetta er rakalaust bull - Auðvitað mætti fremur gagnrýna kristindóminn fyrir að hampa vinnunni um of á kostnað rólegheita og þæginda.

Skýrasta og einfaldasta dæmið um vinnuáróður eru rit Lúthers s.s. Fræðin minni og Til hins kristna aðals m.m. þar sem því er haldið fram að t.d. skósmiðurinn með VINNU sinni geri Guði jafn mikið gagn og presturinn, biskupinn og aðrir prelátarnir. Innan klaustranna vera beðið og unnið jöfnum höndum og svo má bæta við óbeinum áhrifum (í anda Webers) þar sem er fyrirhugunarkenning Kalvíns.

Annars mætti tína til dæmisögur Krists um talenturnar, t.d. nú eða síendurtekin brot hans á hvíldardagalöggjöfinni er hann VANN þegar allir áttu að sitja auðum höndum.

Í rómv.kaþólskri kristni eru dygðir gríðarlega mikils metnar og yfirtóku þeir dygðasiðfræði Aristótelesar og bættu við það hinum kristnu dygðum, trú, von og kærleika.

En hér nægir að skoða boðorðin og benda á þá manngerð sem þar er mælt með: heiðarleg, elur önn fyrir lífinu, er sannsögul, samgleðst náunganum, osfrv.

Þá vek ég athygli þína á innganginum að Siðfræði lífs og dauða eftir Vilhjálm Árnason þar sem því er haldið fram að kærleikurinn og réttlætið (sem eru tveir ásar sem hann metur síðan hin einstöku dæmi út frá) séu komin inn í menningu okkar frá kristindómnum.

Ég skal játa það að fjórða dæmið sé hlægilegt. Þó fremur grátbroslegt og lýsir þeim skefjalausa framfaraanda sem var við lýði á þeim tíma sem ritið er skrifað. Sigurbjörn Einarsson talar um það í öðru samhengi er ameríski herinn var sagður hafa dælt DDT í Sogið og þ.m. losað fólk við mývarginn. Þessu fögnuðu menn þá sem sigri tækni á náttúrutengdum erfiðleikum. Framfaraspá ND. virðist af sömu rótum sprottin.

  • En að hverju ertu annars að ýja þarna? Ertu á sömu nótum og "BUSI"? Skiptir svosem engu í þessu samhengi. Hann hefði eins getað talað um "tækniframfarir" á öðrum sviðum, s.s. framræslu mýra.

Ég "sný ekki út úr meiru" að sinni og lofa því að láta hér við sitja þar til ég sé meira af bókinni.

Nema að þú viljir spyrja mig einhvers.

Matti Á. - 16/02/04 12:31 #

- En að hverju ertu annars að ýja þarna? Ertu á sömu nótum og "BUSI"? Skiptir svosem engu í þessu samhengi.

Við skulum orða það þannig að ég trúi ekki öllu sem ég heyri og sé ekki bölsýnismaður að upplagi. Heimurinn er ekki að fara til andskotans, hvorki í siðferðislegum né umhverfislegum.

Er ég á sömu nótum og "BUSI", einkennileg framsetning. Er nú hægt að kenna alla þá sem ekki trúa á gróðurhúsabölsýnina við Busa

Skúli - 16/02/04 14:45 #

"Er ég á sömu nótum og "BUSI", einkennileg framsetning. Er nú hægt að kenna alla þá sem ekki trúa á gróðurhúsabölsýnina við Busa"

Nei ertu frá þér?

Matti Á. - 16/02/04 14:47 #

Nei ertu frá þér?

Um það eru skiptar skoðanir ;-)

Skúli - 16/02/04 14:50 #

Já, segjum tveir ;>)

Fín annars myndin af þér og "mágunum"!