Örvitinn

Skriffinnska

Skaust í Útlendingastofnun áðan og sótti um vegabréf. Þurfti að sjálfsögðu að fylla út umsóknareyðublað. Hvaða upplýsingar var ég að gefa þeim?

Jú, ég þurfti að skrifa nafn, kennitölu, heimilisfang, póstnúmer,sveitarfélag símanúmer, fæðingarstað og hæð. Allt upplýsingar sem eru aðgengilegar nema hugsanlega hæðin. Í stað þess að láta viðskiptavininn krota á blað hefði dugað að biðja um skilríki, sem reyndar gert gert að lokum, slá inn kennitölu í tölvukerfi og fletta upplýsingunum upp sjálfkrafa. Svo væri hægt að fá staðfestingu á breytilegum upplýsingunum. Í staðin er þetta slegið handvirkt inn í tölvu (hugsanlega skannað, en það þarf þá að lagfæra villur í höndunum). Þannig er þetta t.d. gert á slysó, þar gefur maður upp kennitölu og staðfestir heimilisfang og símanúmer.

Þegar ég sótti nýtt skattkort í gær skrifaði ég nákvæmlega sömu upplýsingar á eyðublað fyrir utan hæðina, skattinum er nokk sama hvað ég er stuttur. Það eina sem starfsmaðurinn gerði við upplýsingarnar var að slá kennitöluna inn í tölvukerfið og prenta út nýtt skattkort!

Einu rökin sem ég sé fyrir þessu skrifræði er að þá er til rekjanleg pappírsslóð. Bankarnir eru meira og minna komnir með rafrænar undirskriftir í dag, þ.e.a.s. maður kvittar á skynjara og undirskriftin fer í tölvukerfið. Kannski þarf að koma þessu í gang hjá ríkisstofnunum líka.

Mér þykir allavega ljóst af þessum tveimur heimsóknum til ríkisstofnana, sem gengur vel í alla staði, að það er heilmikið hægt að laga vinnuferla og viðmót gagnvart kúnnum. Með því að gera það væri eflaust líka hægt að spara töluvert í rekstri. Við erum ekki að tala um nein geimvísindi hérna, heldur hefðbundna notkun á upplýsingakerfum.

Þegar ég sæki vegabréfið þarf ég svo að taka með mér gamla vegabréfið, sem er útrunnið og kvittun sem ég fékk í dag. Til hvers á ég að geyma einhverja kvittun? Ég meina, vegabréfið verður með mynd af mér og varla fer á milli mála að ég er búinn að borga! Hvernig stendur svo á því að það tekur tvær vikur að afgreiða vegabréf nema maður borgi sérstakt gjald?

Annars gekk þetta hratt og vel fyrir sig, ég hef ekki undan neinu að kvarta :-)

kvabb
Athugasemdir

Skúli - 20/02/04 13:36 #

Skemmtilegt orð, skriffinnska: finnsk réttritun?

Matti Á. - 20/02/04 13:51 #

Þetta er frekar skrítið. Ég notaðist einmitt bæði við google og vefpúkann til að sannreyna að þetta væri rétt stafsett þegar ég skrifaði færsluna :-)

Skúli - 20/02/04 14:42 #

Vissi ekki af þessum vefpúka, þvílík snilld. :0)

Hef þegar fundið villu í síðustu færslunni hjá mér. :I

Birgir Baldursson - 21/02/04 19:43 #

Presturinn kominn með púkana í þjónustu sína, rétt eins og Sæmi fróði ;)

Skúli - 22/02/04 01:10 #

Hehe! Það síðasta sem þeir sögðu, áður en þeir gáfu sig mér á vald, var: "If you can't beat them join them"! ;)