Örvitinn

Borg Guðs

Kíktum á myndina Borg Guðs á DVD í kvöld. Helvíti fín mynd sem fjallar um átök glæpahópa í fátækrahverfi Ríó De Janero. Aðalpersónan leiðir okkur í gegnum söguna og segir frá því hvernig líf og örlög fólksins spinnast saman.
aðalpersóna myndarinnar mundar myndavél
Hörkumynd sem byggir á sannsögulegum atburðum. Makalaust hvernig raunveruleikinn (eða því sem næst) getur verið merkilegri en nokkur skáldskapur, það væri áhugavert að komast að því hversu raunsönn myndin er. Mæli hiklaust með henni. Gyðu þótti myndin langdregin á köflum en ég er ekki sammála. Borg Guðs er tilnefnd til fjögurra óskarsverðlauna, fyrir leikstjórn, handrit, kvikmyndatöku og klippingu. Ég tók reyndar eftir því að klipping myndarinnar var helvíti flott, geri samt ekki ráð fyrir að hún fái styttu.

Þetta er íslenskur DVD diskur þannig að ekkert aukaefni er á honum, hljóðið er í stereó og myndin er ekki í breiðtjaldsútgáfu. Dáldið ódýrt að mínu mati en skárra en vídeó. Ég hefði haft mikinn áhuga á mögulegu aukaefni þessara myndar, t.d. umfjöllun um umhverfið sem myndin er sprottin úr, viðtöl við persónurnar sem myndin fjallar um og eitthvað í þá áttina.

kvikmyndir