Örvitinn

Fíflið

Fíflið mætti á leikskólann í dag. Kolla fór í heimsókn til Ingu Maríu og þær léku sér tvær meðan allir hinir krakkarnir voru í sal með fíflinu.

Er ljótt að kalla hann fífl? Ekki meðan hann mætir í leikskólann og stundar þar trúboð. Þetta er réttnefni, ég færi rök fyrir þessari nafngift og get staðið við hana.

Hvað með það þó honum sárni, það skiptir hann og kollega hans akkúrat engu máli þó þeir vaði yfir annað fólk. Siðblinda þessa fólks er svo mikil að það sér ekkert athugavert við gjörðir sínar, er ófært um að sjá það. Meirihlutinn er ánægður segja þeir, eins og það geti talist rök í málinu. Meirihlutinn hefur ekki rétt á að vaða yfir mannréttindi minnihlutans nema í algjörum undantekningartilvikum. Leikskólatrúboð er ekki slíkt tilvik.

Ég hef ekki sagt það nógu oft, Séra Bolli Pétur Bollason er fífl og það verður hann þar til hann hættir trúboði í opinberum leikskólum.

leikskólaprestur
Athugasemdir

Gummi Jóh - 27/02/04 20:13 #

Og hvað segja starfsmenn leikskólans? Virða þeir þetta eða eru með vesen?

Ég væri alveg týpan til að gera þetta þegar ég eignast börn, á ekki að troða hlutum uppá fólk sama á hvaða aldri það er.

Matti Á. - 27/02/04 20:24 #

Starfsmenn leikskólans segja ekki neitt. Höfðu þó fyrir því að senda út skoðanakönnun meðal foreldra í stað þess að samþykkja þetta strax líkt og aðrir leikskólar á svæðinu.

Ég ásaka leikskólann og starfsfólkið ekki, þau vita ekki betur - hafa ekkert pælt í þessu. En presturinn veit betur, honum er bara alveg sama eins og flestum kollegum hans.

Eggert - 27/02/04 20:58 #

Ég stóð mig, trúleysingjann, að syngja Jesú bróður besta fyrir dóttur mína um daginn, í veikri von um að það myndi vekja hjá henni þörf til að sofna. Þegar hún fór að inna mig nánar um Jesú, sagði ég að hann byggi á himnum og passaði hana (ég lít svo á að 'ósýnileg vera uppi á himnum sem passar mann meðan maður sefur' sé ásættanlegur átrúnaður fyrir 3ja ára börn). Hún kvað nær öruggt að hann væri fugl.

Eggert - 27/02/04 21:01 #

Pínu ásláttarvilla hjá mér í síðustu athugasemd, þú mátt leiðrétta færsluna mína. Annars - af hverju finnst þér hann vera fífl? Er hann ekki bara að reyna að tryggja sitt lifibrauð? Reyndar er, samkvæmt siðareglum SÍA bannað að höfða til barna.

Matti Á. - 27/02/04 22:36 #

Æi, ég kalla hann bara fífl til að leggja áherslu á að hve ósáttur ég er við leikskólatrúboðið og hversu ómögulegt Séra Bolli og kollegar hans eiga með að skilja það sjónarmið. Ég gæti aldrei sannfært hann (eða kollega hans) um að það er siðlaust að stunda trúboð í leikskólum. Því finnst mér eiginlega alveg jafn gott að kalla hann bara fífl - sparar mér vinnu, öllum öðrum tíma!

Skúli - 28/02/04 09:48 #

Já, þetta var nú diplómatísk sýntesa hjá þér Matti, þótt það sé nú ekki fallegt að kalla nokkurn mann fífl.

Nú langar mig að spyrja þig:

  1. Að svo miklu leyti sem þetta fellur undir hugtakið trúboð - hvaða áhrif eru það sem þú óttast að dóttir þín verði fyrir?

  2. Ég er sammála þér í því að meirihlutinn megi ekki kúga hina fáu. En ef um er að ræða afar takmarkað "tjón" og ákaflega veigalítið rask (söngur, skemmtilegar sögur, sprell og notaleg siðfræði sem leikskólabörn geta samþykkt og skilið) og fáar heimsóknir (ein í mánuði?) - er þá ekki forsvaranlegt að láta undan vilja 9 af hverjum 10 foreldranna?

  3. Þá verður ekki framhjá því litið að boðskapurinn er æði tengdur menningunni almennt. Það er ekki eins og um sé að ræða eitthvað sem stangast á við allt það sem börnunum er kennt frá degi til dags.

  4. Hefurðu að lokum velt því fyrir þér hvort sá varnagli sé yfirhöfuð sleginn í leikskólastarfi, barnabókum, barnaefni í sjónvarpi, barnaleikritum eða hverju því sem börnum er boðið upp á - að frásögnin sé ekki nákvæmlega sannleikanum samkvæm?

Óli Gneisti - 28/02/04 10:40 #

Ég ætlaði að segja eitthvað málefnalegt hérna en satt best að segja gerir þetta mál mig svo reiðan að ég ætla einfaldlega að segja að presturinn er fífl og þar að auki allir sem styðja þetta rugl.

Það er fyrir neðan allar hellur að ætla að reyna að hafa áhrif á leikskólabörn enda eru þau svo laus við að geta tekið því sem þeim er sagt með gagnrýnu hugarfari. Þetta minnir mig einfaldlega á þegar tóbaksfyrirtæki eru að ná til unglinga og barna.

En þetta er bara eðli trúarbragða og þar af leiðandi mun ég halda áfram að gagnrýna þau.

Hr. Svavar - 28/02/04 12:37 #

Ég er sjálfur alls ekki hrifinn af trúboði á leikskólum. Það er ekki af því að ég vantreysti prestum sérstaklega, heldur vil ég ekki að ókunnugt fólk sé að predika trú sína ofan í barnið mitt. Eða vildu menn að Ásatrúarmenn, gyðingar, Hindúar, Shíkar eða Múslímar ættu einkaaðgang að börnunum okkar með sína fræðslu? Nei! Trúarfræðsla er eitthvað sem foreldrar velja fyrir barnið þar til það er orðið nógu gamalt til að velja það sjálft. Dóttir mín lærir sjálf um Jesú vegna hópþrýstings í kringum hana, hún vill ekki vera útundan og frík í hópnum þegar boðið er upp á svona, enda ekki við öðru að búast, hún er bara sex ára. Ekki neyða börnin okkar til að velja milli þess að vera heilaþvegin eða vera frík.

Matti Á. - 28/02/04 21:22 #

Hér koma svör við spurningum Skúla. Þessar spurningar hans koma mér ekki í opna skjöldu, þvert á móti var ég að velta því fyrir mér að setja þær fram og svara í upphaflegu greininni en ákvað að bíða eftir því að einhver setti þær fram. Já, við erum fyrirsjáanlegir ;-)

  1. Eins og þú el ég börn mín upp við þær lífsskoðanir sem ég aðhyllist. Ég er ekki viss um að þú eða kollegar þínir yrðu sáttir ef ég og skoðanabræður mínir tækjum að okkur að heimsækja börnin ykkar og ræða við þau á forsendum trúleysis og gera lítið úr trú ykkar. Það er samt nákvæmlega það sem hér er um að ræða. Presturinn er að innræta börnum skoðanir sem ég aðhyllist ekki.

  2. Ég vísa í fyrra svar, hér er ekki um takmarkað tjón eða veigalítið rask að ræða. Þetta er spurning um grundvallaratriði og trúboð í opinberum leikskólum er alls ekki réttlætanlegt, ekki frekar en hægt er að réttlæta að ákveðnum pólitískum skoðunum (sem skiptar skoðanir eru um hér á landi) sé troðið inn í leikskólabörn.

  3. Akkúrat, siðferðisboðskapurinn er nátengdur menningu okkar. Af hverju þarf þá prestur að koma inn í leikskólann og taka fram fyrir hendurnar á sérmenntuðu fagfólki í uppeldi barna. Ef þetta er svona samofið menningu okkar hlýtur þetta að komast á framfæri sjálfkrafa í kringum hefðbundið starf leikskólanna án þess að Biblíutilvísanir og prestar komi þar nokkuð nærri. Ég sé ekki að það þurfi prest, sem hefur hagsmuni af því að innræta börnum trú, til að koma þessum almenna siðaboðskap á framfæri. Menningarrökin eru því léttvæg að mínu mati.

  4. Auðvitað er það gert Skúli. Þegar ég eða einhver annar les ævintýri fyrir börnin mín segjum við þeim ekki að þau séu raunveruleg. Þvert á móti, "svona gerist bara í ævintýrum" er mikið notaður frasi á mínu heimili og væntanlega flestum öðrum. Eina dæmið sem hægt er að líkja þessu við er jólasveinninn, en munurinn er þó sá að þegar börnin eru kominn á þann aldur að þau læra að efast höldum við ekki áfram að telja þeim trú um að jólasveinninn sé til. Ég stórefa að það sama gildi um Jesú á heimilum trúmanna hér á landi.

Skúli - 29/02/04 18:13 #

Já, hér er mikið lagt undir því stór orð hafa verið látiðn falla. Því er eðlilegt að lesandinn geri kröfur um góðan rökstuðning!

Mér sýnist nú á öllu sem þessi svör þín standi undir öðru en léttum pirringsglósum ef því. Orð eins og "fífl", "kúgun" ofl. sýnast mér ekki studd með þessu.

Siðferðisboðskapurinn er ákkúrat tengdur þessu - af hverju ÞARF þá prest? Enginn er að segja að það ÞURFI prest spurningin er hvort það sé rétt að LEYFA presti að koma þarna inn. Þarna ertu sumsé að svara spurningu sem enginn hefur spurt!

Þá ýtir þú frá þér spurningunni um tjón eða usla. Þetta snýst um prinsíppatriði, segirðu, og get ég svosem kyngt því. En þá er eitt veigamikið prinsíppatriði sem vegur þarna á móti. Sá mikli meirihluti sem vill þetta ætti skv. prinsíppinu að fá að hafa sínu framgengt. Ef tjónið er ekkert og uslinn þá þykir mér sjálfsagt að meirihlutinn fái að ráða í þessu tilviki. Sú regla að meirihlutinn víki á aðeins við ef minnihlutinn verður fyrir einhverju tjóni.

Þá kaupi ég ekki þennan fyrirvara þinn með sannleikskröfuna. Hann stenst enga skoðun þegar um barnaefni og -sögur er að ræða.

Þar með er enginn að gera lítið úr þínum skoðunum og þótt þarna sé um að ræða frávik frá því sem þú boðar börnum þínum.

Matti Á. - 29/02/04 19:13 #

Þetta er það ódýrasta sem ég hef séð frá Skúla síðan netsamskipti okkar hófust. Ég er satt að segja steinhissa á þessu svari. Veit ekki hvort það tekur því að svara þessu - ætla að minnsta kosti að bíða aðeins með það.

Óli Gneisti - 29/02/04 22:37 #

Skúli, staðreyndin er sú að þó þið hafið fengið að stunda trúboð í skólum þá hafið þið ekki fengið nema minnihluta þjóðarinnar (samkvæmt bókinni Trúarlíf Íslendinga telur einungis þriðjungur þjóðarinnar Jesú vera frelsara sinn) til að aðhyllast kristni þó stór meirihluti nenni ekki að taka beina afstöðu. Það er augljóslega of erfitt að fá fullorðið fólk og grunnskólabörn til að trúa þessu bulli þannig að nú ætlið þið að reyna að komast í leikskólana til þess að ná til barnanna áður en þau fá vott af gagnrýnni hugsun. Þetta ber vott um svo lágt siðferðisstig hjá ykkur að orð fá ekki lýst.

Meirihlutarökin þín eru engin rök af því þetta er týpískt dæmi um að meirihluta"skoðunin" er að mestu afstöðuleysi, þeir sem raunverulega hafa myndað sér skoðun eru í minnihluta.

Skúli - 01/03/04 11:34 #

Við Matti erum nú slíkir stólpa-pennavinir að mér finnst ég skulda honum betri útskýringu á afstöðu minni.

Að mínu mati réttlætir þrennt heimsóknir prests í leikskóla:

  1. 90% stuðningur foreldra
  2. Ekki er sýnt fram á að heimsóknin valdi tjóni
  3. Siðferðisboðunin stangast ekki á við það sem jafnan er talið börnum hollt að heyra og vita.

Setjum sem svo að rabbíni, búddamunkur, imani, fulltrúi annarra trúarbragða - nú eða réttur og sléttur vantrúarpostuli - tæki upp á þessu sama. Hann myndi boða komu sína í leikskóla sonar míns og fær til þess yfirgnæfandi stuðning foreldra barnanna.

Hvað myndi ég gera?

Ég myndi, eins og Matti, reita hár mitt, bölva hástöfum og argaþrasast yfir þessu vikum og mánuðum saman. Ég myndi annað hvort draga börnin mín út úr þessu starfi, reyna að mæta sjálfur meðan á fundum stæði og fylgjast með eða þá leyfa þeim með semingi að taka þátt og reyna svo að kanna hvað þeim hafi verið sagt. Fyrst og fremst hefði ég áhyggjur af því hvað sagt hefði verið um mína trúarsannfæringu - en t.a.m vantrúaðir og múslímar fetta gjarnan fingur út í hana.

Ég myndi hins vegar ekki undir neinum kringumstæðum kalla þann mann FÍFL sem mætti á staðinn í krafti slíkrar velvildar. Þvert á móti tæki ég að ofan fyrir framtaksseminni sem viðkomandi sýndi, þeirri tillitssemi að spyrja áður en hann mætir og þeirri frammistöðu sem hann greinilega sýnir fyrst hann fær að koma aftur og aftur.

Ef ég sé svo fram á það að enginn hlýtur tjón af þessu þá gæti ég ekki annað en beygt mig undir meirihlutavaldið.

Ef mig grunar að ákvarðanir meirihlutans séu grundvallaðar á fáfræði, leti eða einhverjum öðrum löstum þá gæti ég reynt að kanna forsendur ákvörðunarinnar með því að hringja í fólk eða senda tölvupóst.

Í leiðinni myndi ég auðvitað útskýra fyrir fólkinu mín sjónarmið í málinu. Ef það dugar ekki til - nú þá verð ég bara að kyngja þeirri grundvallarreglu að meirihlutinn fær sínu framgengt svo fremi að ekki bendi veigamikil og skýr rök til annars.

Óli Gneisti - 01/03/04 17:37 #

Skúli, hvað er það sem presturinn getur kennt börnunum sem leikskólakennarar geta ekki kennt?

Skúli - 01/03/04 18:57 #

Það skiptir ekki máli í þessu sambandi.

Óli Gneisti - 01/03/04 20:39 #

Hvaða gagn gera þá þessar heimsóknir?

Óli Gneisti - 01/03/04 20:43 #

Getur presturinn kannski kennt börnunum Passíusálmana og hinn fallega boðskap trúarinnar sem þar er að finna?

Skúli - 01/03/04 21:33 #

Að ég skuli vera að svara þessu Óli!

Umræðan er ekki um hugsanlega gagnsemi þessara heimsókna heldur um það hvort þær eigi að leyfa.

Matti Á. - 01/03/04 21:50 #

Nei, umræðan er ekki lengur um hvort það eigi að leyfa heimsóknirnar Skúli. Þér hefur á merkilegan hátt tekist að snúa henni við, þannig að nú snýst hún um það hvort réttlætanlegt sé að banna þær.

Þetta er náttúrulega dálítið trúmannslegt, svipar nokkuð til þess þegar trúleysingjar eru krafðir um afsönnun á tilveru Gvuðs.

Ég hef séð ýmis rök sett fram til að réttlæta leikskólatrúboð. Þar fara fremst menningar og siðferðisrökin, kristin trú sé svo samofin menningu okkar og að kenna þurfi krökkum góða siði. Þessi rök hef ég hrakið, því í raun felast þau ekki í neinu öðru en yfirgengilegum fordómum gagnvart leikskólakennurum. Lýðræðisrökin/meirihlutarökin, það að þetta sé allt í lagi vegna þess að meirihlutinn hafi samþykkt það, eru svo léttvæg að mínu mati að það tekur því varla að ræða þau. Bendi þó á að hér þarf að færa sterk rök fyrir því að trúboðið sé í lagi. Engin umræða fór fram áður en þetta mál var samþykkt og leikskóli barna minni er eini leikskólinn í hverfinu þar sem foreldrar voru spurðir álits. Til þess að eitthvað sé að marka lýðræðisrökin hefði þurft að eiga sér stað umræða, þar sem andstæðum skoðunum hefði verið komið á framfæri. T.d. hefði ég bent foreldum á að sunnudagsskólinn er opinn alla sunnudaga og þangað geta þau farið ef þau vilja að börnin njóti trúboðs.

Það sem ég hjó hvað mest eftir, er að þú hunsar í raun fyrsta atriðið í svari mínu. Skaðinn er mikill að mínu mati, þó ég hafi ekki sagt það beint og það mættir þú sjá ef þú settir þig í mín spor, t.d. með því að ímynda þér að trúleysingjar byrjuðu að innræta börnum þínum efahyggju og Gvuðleysi í skólum þeirra.

Hér á ekki að þurfa að sanna að kristinboð í leikskólum sé óeðlilegt, heldur er það ykkar trúmanna að sanna að það sé nauðsynlegt. Það hafið þið ekki gert og þau rök sem þið hafið sett fram hafa, að mínu mati, verið hrakin. Andsvörin sem þú hefur sett hér fram eru, að mínu mati, einstaklega ódýr - svo ódýr að ég var alveg gáttaður. Hugsanlega erum við ekki að ræða hlutina á sömu forsendum, en þó vitum við báðir að við erum að ræða um trúboð, við erum að ræða um opinbera leikskóla og við erum að ræða um land þar sem stjórnsýsla og trú eiga að heita aðskilin og meira að segja Biskup heldur því fram að svo sé nema að nafninu til.

Þetta ætti því ekki að vera nokkur deila, þú ættir einfaldlega að taka undir málstað okkar, því hann er réttur. Það er alls ekki réttlætanlegt að stunda nokkuð trúboð í opinberum leikskólum. Fólk getur valið einkarekna leikskóla sem byggja á kristnum grunni, það hefur þann rétt og ég virði hann. Á sama hátt hef ég þann rétt að velja opinberan leikskóla fyrir börnin mín og heimtingu á því að trúmenn haldi sig frá þeim stað með áróður sinn.

Auðvitað er svo ekki hægt að réttlæta það með nokkru móti að kalla Séra Bolla Pétur ítrekað fífl. En ég geri það samt, enda skrifa ég þessa pistla þegar mér er heitt í hamsi eftir leikskólaheimsóknir, ítrekað. Auðvitað er ég meðvitaður um að með þessu er ég að færa trúmönnum vopnin í hendurnar, þeir geta afgreitt mig með því að ég ati menn auri, ég hef svosem fengið þá afgreiðslu nokkrum sinnum, stundum ómaklega - en það er ódýrt að hundsa þau rök sem sett eru fram.

Óli Gneisti - 01/03/04 22:21 #

Það er gott að hafa Skúla hérna til að vita um hvað má ræða.

Skúli - 02/03/04 00:21 #

Yfirlýsing: Ég held því fram að biblíusögur ættu að vera hluti af námskrá leikskólanna.

Nú svara ég:

" Það sem ég hjó hvað mest eftir, er að þú hunsar í raun fyrsta atriðið í svari mínu. Skaðinn er mikill að mínu mati, þó ég hafi ekki sagt það beint og það mættir þú sjá ef þú settir þig í mín spor, t.d. með því að ímynda þér að trúleysingjar byrjuðu að innræta börnum þínum efahyggju og Gvuðleysi í skólum þeirra."

  1. Ég bað þig beint og skýrt að nefna skaðann en það gerðirðu ekki. Skaðinn virðist fyrst og fremst vera á þér sjálfum og þínum prinsíppum. Ég sá a.m.k. ekki annað en prinsípprök gegn þessu - eins og þú gerir hér aftur. Gegn þeim tíundaði ég svo önnur prinsípprök, nefnilega meirihlutavaldið.

  2. Ég setti mig í þín spor. Lýsti því hreinskilnislega hvernig ég hefði sjálfur brugðist við og fann m.a.s. heiftina blossa upp, þ.e.a.s ef einhver hefði lítilsvirt mína trúarsannfæringu við börnin mín. Hefði h.v. beint reiði minni í aðra átt en þú gerðir.

  3. Þá sló ég varnagla. Ef meirihlutavaldinu væri ábótavant, t.d. vegna fávisku eða leti sagði ég að sjálfur myndi ég beita mér fyrir því að umræðu yrði komið á um málið.

Af hverju segirðu mig hunsa þessi atriði?

Meirihlutavaldið er þér einskis virði í þessu sambandi en þú telur menningar- og siðferðisrökin þó a.m.k. svaraverð: "kristin trú sé svo samofin menningu okkar og að kenna þurfi krökkum góða siði. Þessi rök hef ég hrakið, því í raun felast þau ekki í neinu öðru en yfirgengilegum fordómum gagnvart leikskólakennurum."

Hvernig felur þetta í sér fordóma gagnvart fóstrunum? Ef leikhópur kemur í leikskólann og flytur verk gegn einelti - er þá verið að gefa í skyn að fóstrurnar geti ekki sinnt því hlutverki? Er ekki málið frekar það að saman vinna hóparnir að ákveðnu uppeldismarki? Góðum siðum, góðum sögum og hollum fyrirmyndum er ekki miðlað í einni andrá. Það þarf stöðugt að hlúa að þessu og innræta.

Ég skildi ekki spurninguna hans Óla í þessu samhengi en held ég fatti hana núna: Ef fóstrurnar geta sagt krökkunum að vera góð hvert við annað af hverju þurfum við þá einhvern prest til þess líka?

Svarið við henni er á sömu leið: Gott uppeldi er langvarandi verkefni sem fjölmargir koma nærri. Presturinn flytur heilnæman boðskap með öðrum hætti og öðrum áherslum en aðrir.

”Hugsanlega erum við ekki að ræða hlutina á sömu forsendum, en þó vitum við báðir að við erum að ræða um trúboð, við erum að ræða um opinbera leikskóla og við erum að ræða um land þar sem stjórnsýsla og trú eiga að heita aðskilin og meira að segja Biskup heldur því fram að svo sé nema að nafninu til.”

Trúboð: Ég ítreka það að ég yrði mjög reiður ef fólk kæmi í leikskólann og hefði þau orð um kristna trú og -menningu sem t.d. þið gerið fyrir lesendur ykkar á Vantrú. Ég ímyndaði mér í svarinu áðan að ef önnur trú væri boðuð (ef hægt er að tala um boðun í þessu sambandi) eða kynnt á leikskóla sonar míns og sá fyrir mér að ég yrði óstyrkur í kjölfarið.

Ég hefði þó ekki þurft búa til einhverjar sögur þ.a.l. Þjóðtrúin lifir góðu lífi á leikskóla sonar míns. Þar fer fram heilmikil miðlun þjóðsagna og ýmissa furðufrásagna. Naustahvilftin sem blasir við úr glugganum er t.d. skessusæti og Pollurinn þar fyrir neðan fótabaðið sem hún hvíldi sig í, Álfa- og tröllasögur eru sagðar eins og verið sé að lesa upp úr dagblöðum. Þetta fengum við foreldrarnir að heyra á annars fjörlegum fundi nú í haust og vorum hvattir til þess að grafa upp þjóðsögur úr nágrenni skólans og segja fóstrunum svo þær gætu sagt þær börnunum. Ég rifja þetta satt að segja ekki upp fyrr en núna í þessum rituðu orðum. Þetta skiptir mig nákvæmlega engu máli. Ímyndunarafl barnanna er síhvikt og lifandi og enginn ber tjón af því þótt þjóðsögur séu sagðar sem sannleikur væri, hvorki börn né fullorðnir. Munurinn er vissulega sá að þetta er óopinber trú en ekki trúarhreyfing, og þó – eru Ásatrúarmenn ekki málsvarar þessa, jú og Sálarrannsóknarfélagið?

Rökin fyrir þessu eru auðvitað menningarleg. Fólk vill gjarnan halda þessari arfleifð lifandi og er það afar skiljanlegt. Sömu hlutlægu rökin má og færa fyrir miðlun biblíusagna í leikskólum.

Opinberir leikskólar: Gildir þá einu hvort leikskólarnir eru á einkavegum eða opinberir. Kristnir einkaskólar eru með kristna trú í öndvegi – opinberir skólar láta sér nægja að þiggja heimsókn prests mánaðarlega, eða svo.

Stjórnsýsla og trú: Menningarleg staða kristninnar er áréttuð bæði í grunnskólalögum og stjórnarskránni. Kristnin hefur sérstöðu sem byggir á þessum rökum þótt kirkjan sé að einhverju leyti rekin sem sjálfseignarstofnun. Trúarlegur bakgrunnur er engu minni á hinum Norðurlöndunum svo dæmi séu tekin. Þar hefur kristnin skýra sérstöðu. Þetta er því ekki í andstöðu við meginreglu laganna.

Auðvitað er maður viðkvæmur gagnvart börnum sínum, en eins og þú matreiðir þetta fyrir mér sýnist mér þetta f.o.f. vera spurning um ákveðin grundvallaratriði. Þú nefnir ekki að þau hafi í sjálfu sér neitt illt af því að heyra það sem sr. Bolli hefur fram að færa enda væri slíkt afar langsótt. Sjálfur held ég því fram að enginn ætti að alast upp í þessu menningarumhverfi án þess að hafa fengið kynni af frásögnum Biblíunnar.

Ég vona að þú sért ekki æpandi illur yfir þessum andmælum mínum. – Ég segi þetta ekki síst vegna þess að ég myndi sakna heimsókna þinna á annálinn! Ég er, held ég, í hverfandi minnihluta trúmanna sem hafa ánægju af því að spjalla við ykkur félagana á Vantrú og vona sannarlega að samræður okkar haldi áfram þótt ég hafi andmælt þessu hjartans máli þínu. Þú heldur nú uppi heilli síðu sem vegur að mínu hjartans máli.

Birgir Baldursson - 02/03/04 01:44 #

"Yfirlýsing: Ég held því fram að biblíusögur ættu að vera hluti af námskrá leikskólanna."

Og:

"Álfa- og tröllasögur eru sagðar eins og verið sé að lesa upp úr dagblöðum [...] Þetta skiptir mig nákvæmlega engu máli."

Þarna kristallast skoðanamunur trúaðra og trúleysingja, ef ég met þetta rétt. Trúmanninum finnst greinilega allt í lagi að augljós lygi sé reidd fram sem sannleikur, en við trúlausir aftökum allt slíkt.

Við erum meiri sannleikselskendur en svo.

Og þá má spyrja sig hvort þetta viðhorf trúmannsins nái ekki barasta yfir allt trúsvið hans. Hvað er upprista Krists, t.d. annað en lygasaga sem trúmönnum finnst í lagi að halda fram sem sannleik, þótt þeir viti betur?

Skúli, það er ekkert í sjálfu sér að því að kenna Biblíusögur í skólum, en það er ekki sama með hvaða hætti það er gert. Þær geta, rétt eins og þjóðsögurnar um skessurnar, haft alveg sama skemmtanagildi þótt tekið sé fram að þetta séu bara ævintýri og í þykjustunni.

Að kynna hindurvitni kristindómsins með þeim hætti í skólum væri miklu heiðarlegra en að halda þessu fram sem staðreyndum. En það þýðir væntanlega ekkert að benda þér á það enda hefur þú hér orðið uppvís að því að vilja leggja stund á kerfisbundnar lygar.

Óli Gneisti - 02/03/04 08:13 #

Skúli.

Treystirðu ekki kristnum foreldrum til að kenna börnum sínum grundvallaratriði kristinnar trúar?

Finnst þér í alvörunni ekki nóg að vera með trúboð í grunnskólum þó ekki sé líka farið inn á leikskólana? Var kannski greining mín á ástæðunum fyrir þessu rétt, það er að til þess að fá börn til að trúa þessu rugli þá sé best að ná til þeirra áður þau fá vott af gagnrýnni hugsun?

Þið eruð að reyna ná til barna foreldra sem skilja ekki að presturinn er ekki bara að segja fallegar sögur, þau skilja ekki að þetta er bara trúboð.

Ég skal endurtaka það sem ég sagði að ofan, þetta ber vitni um afar lágt siðferðisstig hjá ykkur.

Hver er skaðinn?

Börnin gætu farið að trúa þessum lygum og orðið einsog þú Skúli, laus við að þekkja svona augljóst bull.

Þau gætu líka byrjað að fara eftir boðskap Biblíunnar eða þjóðkirkjunnar (sem er reyndar oft afar ótengdur) og það er ekki fallegur boðskapur. Þetta höfum við margfarið yfir á Vantrú. Þið eruð svo siðlausir að þið lesið Passíusálmana þó í þeim sé boðskapur haturs og fyrirlitningar.

Þú vilt fá að kenna lygar, við viljum fá að kenna sannleikann. Hvernig litist þér á ef við myndum útbúa kennsluefni fyrir börn sem sýnir að það sé í raun ekkert sem bendir til þess að Jesú hafi verið til? Það kennsluefni yrði algerlega samkvæmt sannleikanum. Ef þú ert spenntur yfir því hvaða upplýsingar þetta eru þá skaltu lesa Vantrú vandlega á næstunni, ég fékk útdrátt úr fyrstu greininni um helgina og ég missti alla trú mína á hinn sögulega Jesú sem presturinn sem kenndi mér kristinfræði sagði mér að hefði án efa verið til. Þessu laug presturinn enda eru prestar ekki óvanir því að ljúga.

Skúli - 02/03/04 10:43 #

"Þarna kristallast skoðanamunur trúaðra og trúleysingja, ef ég met þetta rétt. Trúmanninum finnst greinilega allt í lagi að augljós lygi sé reidd fram sem sannleikur, en við trúlausir aftökum allt slíkt."

Þarna kristallast munurinn á ykkur og afgangnum af mannkyni. Eins og ég reyndi að benda Matta á hér í fyrsta svari er sannleiksfyrirvarinn fjarri því að vera virtur í flestu því barnaefni sem boðið er upp á. Ég man satt að segja ekki eftir því að hafa lesið bók, séð barnamynd eða nokkuð slíkt þar sem sérstaklega er tekið fram að viðburðirnir séu ekki sannleikanum samkvæmir. Munið þið eftir einhverju slíku?

"Og þá má spyrja sig hvort þetta viðhorf trúmannsins nái ekki barasta yfir allt trúsvið hans. Hvað er upprista Krists, t.d. annað en lygasaga sem trúmönnum finnst í lagi að halda fram sem sannleik, þótt þeir viti betur?"

Þegar maður svo reynir af öllum mætti að setja sig í spor ykkar vantrúaðra og ganga út frá einhverjum þeim forsendum sem þið gætuð samþykkt - er samstundis vegið að rótum minnar sannfæringar. Þetta nær ekki nokkurri átt.

"Skúli, það er ekkert í sjálfu sér að því að kenna Biblíusögur í skólum, en það er ekki sama með hvaða hætti það er gert. Þær geta, rétt eins og þjóðsögurnar um skessurnar, haft alveg sama skemmtanagildi þótt tekið sé fram að þetta séu bara ævintýri og í þykjustunni."

Ég vil ekki heldur gera trúboð úr kristnifræðiefninu. Þetta á að þjóna þeim tilgangi að skýra rætur menningar og siðferðis. Mörk fræðslu og boðunar eru h.v. óskýrari í leikskólum.

Jæja, loksins benti einhver mér á mögulegan skaða:

"Börnin gætu farið að trúa þessum lygum og orðið einsog þú Skúli, laus við að þekkja svona augljóst bull."

Þá er bara að benda fóstrum og foreldrum á þetta víti til varnaðar!

"Hvernig litist þér á ef við myndum útbúa kennsluefni fyrir börn sem sýnir að það sé í raun ekkert sem bendir til þess að Jesú hafi verið til?"

Hvað er að tölvunum ykkar drengir? Þetta var útgangspunkturinn í svarinu mínu áðan!

Matti Á. - 02/03/04 13:57 #

Skúli, þú verður að gera greinarmun á ævintýrum og þjóðsögum annars vegar og kristnum mítum hinsvegar. Munurinn er sá að enginn heldur því að börnum fram eftir öllum aldri að ævintýrin eða þjóðsögurnar séu sannar. Þvert á móti byggist uppeldi barna á því að stórum hluta að kenna þeim að greina muninn á réttu og röngu, fantasíum og raunveruleika.

Hins vegar höfum við milljarðaapparat sem hefur hundruði í vinnu við það að sannfæra fólk um að kristnu míturnar séu sannar.

Því er ekki hægt að skoða leikskólatrúboðið eitt og sér heldur er óhjákvæmilegt að líta á það sem upphaf ferils sem Kirkjan setur í gang til að smala til sín sóknarbörnum.

Mörk fræðslu og boðunar eru h.v. óskýrari í leikskólum.

Þú tekur semsagt undir það að hér sé um trúboð að ræða en þér er sama vegna þess að þetta er þín trú (og meirihluta þjóðarinnar) sem um ræðir. Þú hundsar rannsóknir sem sýna að minnihluti þjóðarinnar hefur sömu trúarskoðanir og þið kirkjunnar menn - trú meirihluta íslendinga er af ólíkum toga.

Það er einföld lausn á þessu máli, prestar hætta að fara í heimsóknir til leikskóla og einbeita sér að starfi innan kirkjunnar. Ég skal ekki skipta mér af því þó auglýsingar frá kirkjunni hangi upp á vegg í leikskólanum - það er innan marka að mínu mati. Engu er fórnað þó prestar hætti að stunda trúboð í leikskólum. Krakkarnir læra ekkert minna um menninguna, læra ekkert minna um siðferðið - þau bíða bara í nokkur ár eftir ítroðslunni. Þá þarf ég að taka ákvörðun um það hvort ég tek börnin mín úr kristinfræðinámi og geri þau um leið að frík eða ekki. Óþarfi er að deila um hvort kristinfræðinám er trúboð - það er það í dag, jafnvel þó menn vilji að svo sé ekki og til séu dæmi um krakka sem eru svo heppin að lenda í "eðlilegu" kristinfræðinámi, læra þá væntanlega einhverjar aðrar bækur en þær sem gefnar eru upp í námskrá grunnskólanna.

En kirkjunnar mönnum virðist drullusama, því tilgangurinn helgar meðalið. Hver haus færir Kirkjunni pening og peningar eru nauðsynlegir til að viðhalda þessari blessuðu fornaldar stofnun. Hvað með það þó einhverjir rugludallar kvarti.

arndís - 02/03/04 15:51 #

Lúthersktrú er ríkistrú á Íslandi og meðan ríki og kirkja eru ekki en aðskilin þá er því miður ekkert við því að gera að það sé kristnifræðsla í leikskólum og grunnskólum og, fyrst að þetta er svona rosa mikið mál fyrir þig, af hverju eru börnin þá ekki á einkareknum leikskóla???!!??? En hversu slæmt er það að syngja og hlusta á prest í eina klukkustund á viku getur verið að þær hefðu kannski meira gaman að því en að verða teknar afsíðis...

-Ein spurning að lokum.. hvað gerir Áróra þegar hún er tekin úr trúarbragðafærslu/kristnifræðum í grunnskóla.

Matti Á. - 02/03/04 16:48 #

Lúthersktrú er ríkistrú á Íslandi og meðan ríki og kirkja eru ekki en aðskilin þá er því miður ekkert við því að gera að það sé kristnifræðsla í leikskólum og grunnskólum
Við því er ekkert að gera... hvaða endemis rugl er þetta, við búum ekki í trúarofstækisríki og því er ýmislegt við því að gera þegar manni þykir þjóðkirkjan vera farin að ganga of langt.

En hversu slæmt er það að syngja og hlusta á prest í eina klukkustund á viku getur verið að þær hefðu kannski meira gaman að því en að verða teknar afsíðis...
Þessu svara ég að hluta í þessari færslu.

Ein spurning að lokum.. hvað gerir Áróra þegar hún er tekin úr trúarbragðafærslu/kristnifræðum í grunnskóla.
Áróra er ekki tekin úr kristinfræði og ólíklegt er að ég taki Kollu og Ingu Maríu úr kristinfræði þegar að því kemur, því eins og Svavar bendir á fyrir ofan, vill maður síður að börnin sín verði frík í augum jafnaldra sinna.

Birgir Baldursson - 02/03/04 23:56 #

"Eins og ég reyndi að benda Matta á hér í fyrsta svari er sannleiksfyrirvarinn fjarri því að vera virtur í flestu því barnaefni sem boðið er upp á. Ég man satt að segja ekki eftir því að hafa lesið bók, séð barnamynd eða nokkuð slíkt þar sem sérstaklega er tekið fram að viðburðirnir séu ekki sannleikanum samkvæmir."

Hver veit nema það séu að renna upp nýir tímar í þessum efnum, að ekki muni þykja sjálfsagt mikið lengur að ala krakka upp í hindurvitnum og lygi. Ef við trúleysingjarnir skerum okkur þarna frá restinni af mannkyninu er það einfaldlega vegna þess að við erum í fararbroddi siðmenningarinnar :)

Þó eitthvað hafi alltaf verið einhvern veginn er ekki þar með sagt að best sé að hafa það alltaf þannig.

Ingibjörg Stefánsdóttir - 26/03/05 23:29 #

Í framhaldi af þessu langar mig að segja frá samtali sem ég átti nýlega við leikskólastjóra sem ég þekki. Hún neitar að hleypa prestunum inn í leikskólann og hefur setið fundi með prestum hverfisins þess vegna. Þar reyna þeir að koma því inn hjá henni að hún eigi að hafa samviskubit yfir því að svipta börnin þessarri reynslu. Það tekst þeim ekki enda er hún á því að foreldrar eigi að ráða trúaruppeldi barna sinna.

Matti Á. - 27/03/05 04:19 #

Þetta er leikskólastjóri að mínu skapi. Því miður er þetta afar eðlilega viðhorf hennar sjaldgæft!

Birgir Baldursson - 28/03/05 01:10 #

Þú mættir alveg, Ingibjörg, láta okkur vita hvaða leikskólastjóri þetta er, svo við getum heiðrað hana og gert úr því mikið fjölmiðlahavarí

Ingibjörg Stefánsdóttir - 28/03/05 16:38 #

Veit ekki hvort hún nennir því eða hefur áhuga á einhverju fjölmiðlahavarí, get þó spurt hana.

Matti Á. - 28/03/05 17:22 #

Ég er einmitt hræddur um að fólk vilji frekar forðast svona umtal, fylgir því nefnilega ýmislegt neikveitt - t.d. skítkast frá biskup!

Þú mátt að minnsta kosti benda henni á að hópur fólks sé afar ánægður með viðbrögð hennar í þessum málum.