Örvitinn

Nammidagur

Kolla og Inga María fengu að kaupa sér bland í poka í gær, en þar sem klukkan var orðin margt ákváðum við að fresta nammiáti til dagsins í dag. Af því leiðir að núna horfa þær systur á morgunsjónvarpið og borða nammi. Fengu nammipokana sína áðan og byrjuðu að hakka í sig sælgætið. Ég sá að það stefndi í óefni og samdi við þær um að ég fengi að geyma pokana, þær koma svo til mín og fá einn og einn bita.

Vandamálið með bland í poka er að Inga María á það til að klára sitt nammi löngu á undan Kollu. Þetta veldur svo mikilli sorg þegar Kolla borðar sælgætið sitt og systir hennar horfir á. Kolla er sem betur fer ekki frek og á það til að gefa Ingu Maríu með sér, en það er nú samt ekki sanngjarnt gagnvart Kollu.

Þannig að í dag tók ég við stjórninni og berst nú við að sannfæra þær um að taka sér reglulega pásu. "Einn bita og svo slökum við aðeins á" segi ég og þær samþykkja þetta. Stórfurðulegt!

Annars er það eiginlega algjör undantekning að stelpurnar fái eitthvað sælgæti, jafnvel á nammidögum, það vildi bara þannig til að þær voru farnar að biðja um nammi, Kolla var byrjuð að bíða eftir nammideginum á fimmtudag. Eflaust hafa þær eitthvað verið að æsa hverja aðra upp, vinkonurnar á leikskólanum.

Svo það komi fram, þá er engin hætta á að ég stelist í nammið þeirra þó ég gæti pokanna, ég borða næstum aldrei sælgæti.

fjölskyldan