Örvitinn

Sunnudagsmogginn tileinkaður hindurvitunum

Kíkti á Sunnudagsmoggann heima hjá foreldrum mínum í gærkvöldi og ofbauð. Gríðarlega stór hluti blaðsins var lagður undir gagnrýnislausa umfjöllun um hindurvitni. Til að byrja með er Sunnudagsmogginn náttúrulega alltaf með eitthvað af kristnum hindurvitnum - það er hefðbundið og tekur alltaf nokkurt rými, við því er lítið að gera enda mogginn kristilegt rit.

Í gær bættu þeir um betur og tóku tveggja opnu viðtal við fjölskyldu í Hafnafirði sem er sannfærð um að draugagangur sé í húsi þeirra. Ekki var mikilli gagnrýni fyrir að fara í því viðtali - ég býst við að biskup sé æfur! Ég gat ekki annað en hugsað um svefn-lömun þegar las ég frásögn sonarins af draugaganginum sem hann upplifði þegar hann "vaknaði" í herbergi sínu og upplifði ærslaganginn. En til hvers að leita rational skýringa þegar maður getur hoppað á nýaldarvagninn með hinum kjánunum.

Tímarit Morgunblaðsins var tileinkað stjörnuspeking Íslands, hann fékk að sjálfsögðu mjúka meðferð. Glaður var ég að sjá að hann segist ekki spá fyrir framtíðinni, en hæpin þykir mér fullyrðingin um að hann geti sagt eitthvað til um persónur útfrá fæðingarstað og tíma. Líklegra þykir mér að persónulýsingar hans eigi við um flesta en fólk taki þær sérstaklega til sín (sbr. Forer áhrifin) það er að minnsta kosti staðlaða trixið.

Morgunblaðið er alls ekki að standa sig að mínu mati, gagnrýnin viðhorf fá þar lítið sem ekkert rými en hindurvitnum er gert hátt undir höfði á því sem næst hverjum degi.

Þessu skylt:

efahyggja fjölmiðlar