Örvitinn

Hnattvæðingin og andmælendur hennar

globalization

Nokkuð er liðið síðan ég kláraði að lesa bókina Globalization and its discontents eftir Joseph Stiglitz.

Stiglitz var aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, ráðgjafi Clinton stjórnarinn og fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði.

Í bókinni fjallar Stiglitz um hnattvæðinguna, það sem vel hefur tekist og einnig það sem miður hefur farið. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn fær verulega á baukinn hjá Stiglitz sem telur að þar á bæ sitji menn fastir í hugsjónum og kreddum en gæti þess ekki að líta á hvert mál fyrir sig og beinlínis neiti að læra af reynslunni. Stiglitz er hnattvæðingarsinni sem telur að henni hafi verið klúðrað að mestu leyti.

Meðal þess sem fjallað er um er hverju hnattvæðingin átti að skila og hvernig það hefur brugðist, Asíukreppuna, markaðsvæðingu Rússland, Kína og ýmislegt fleira. Mér þótti mjög áhugavert að lesa um Rússland, sér í lagi hvernig menn í réttum stöðum fóru að því að mergsjúga kerfið og komast yfir milljarða á örskömmum tíma. Hræsni vesturlanda kemur berlega fram í bókinni þegar lýst er þeim skilyrðum sem þriðju heims ríki þurfa að standast til að fá aðstoð á meðan ríku þjóðirnar fara ekki sjálf eftir sömu kröfum, t.d. varðandi tolla, ríkisstyrki og einkavæðingu stofnana.

Bókin er skrifuð fyrir almenning og auðlesin. Holl lesning fyrir bæði frjálshyggju- og félagshyggjufólk.

bækur
Athugasemdir

Birkir - 14/03/04 19:38 #

Þetta er að verða hálf-pínlegt. Þetta er í annað, ef ekki þriðja, skipti sem ég rek hér inn nefið til þess að rekast á þig fjalla um bók sem ég er nýbyrjaður á.

Það er spurning um að þú látir mig vita hvað þú hefur í hyggju að lesa næst, og e.t.v gæti ég verið á undan einu sinni.

Matti Á. - 14/03/04 22:04 #

hehe, ég þarf greinilega að setja upp lista yfir bækurnar á náttborðinu :-)