Örvitinn

Ég slekk ljós

Á öllum heimilum skiptir fólk með sér verkum að einhverju marki. Nútímafólk deilir þó flestum verkum, skiptist á að elda, svæfa börnin og setja í vél - þó það sé svosem ekkert markmið í sjálfu sér að mínu mati að þessi verk skiptist nákvæmlega jafnt á milli hjóna.

En eitt verk er algjörlega á mínum herðum á þessu heimili. Ég slekk ljósin.

Stelpurnar á heimilinu vilja helst hafa öll ljóst kveikt, jafnvel þó enginn sé staddur nálægt birtunni. Nú er það ekki svo að ég vilji hafa myrkur á heimilinu, en það er engin sérstök ástæða til að upplýsa stofuna á annari hæð þegar fjölskyldan er annað hvort sofandi á efstu hæð eða að horfa á sjónvarpið á jarðhæðinni. Eldhúsið þarfnast ekki mikillar lýsingar þegar enginn er að elda og ég held að þvottavélin og þurrkarinn virki alveg jafn vel þó það sé myrkur í þvottaherberginu. Salernin þrjú hafa líka ekkert með ljós að gera þegar enginn er þar inni.

Fyrir mörgum árum sagði vinur minn frá því að pabbi hans gerði þetta, slökkti ljós um allt hús sí og æ og ég man að mér þótti pabbinn dálitið skrítinn.

Ég er skrítinn pabbi sem slekk ljós!

dagbók