Örvitinn

Hægðalosun í morgunsárið

klosett.jpg

Það skortir almennilega umræðu um hægðir í þjóðfélaginu. Heimildir herma að allir hafi hægðir en er einhver að fjalla um þær, skoða hvaða áhrif hægðir hafa á samfélagið. Eru hægðir kynjanna eins, getur verið að konur kúki ekki eins og karlar? Kúka fegurðardrottningar? Mér þykir það ósennilegt. Það er furðulegt að þetta hafi ekki verið stúderað betur.

Ég kúka eiginlega alltaf á morgnana áður en ég fer að heiman. Ekkert orsakasamhengi virðist vera á milli mataræðis og tímasetninga saurlosunar en það gæti þó verið til staðar.

Í morgun atvikaðist það þannig að ég, Inga María og Kolla kúkuðum öll áður en klukkan sló átta. Þetta er merkilegur áfangi og þarfnast nánari útlistunar.

Inga María vaknaði óþarflega snemma, fór á fætur um sjö og ég þurfti því að drífa mig framúr fyrir hálf átta um leið og Gyða fór í vinnuna. Ég og Inga María borðuðum morgunmat í rólegheitum en fórum svo niður í sjónvarpsstofu að dunda okkur. Ég fann fljótlega að eitthvað lá í loftinu, Inga María var búin að skíta og játaði það stolt þegar ég gekk á hana. Það var því ekkert annað í stöðunni en að þrífa kúkalabbinn. Því miður var ekki til neitt kúkalabb (á mínu heimili hefur orðið kúkalabb margar merkingar og er bæði notað um kúkinn sem slíkan en einnig klútana sem notaðir eru til að þrífa saurinn af bossanum, við þrífum kúkalabb með kúkalabb). Ég greip því til eldhúspappírs sem ég bleytti örlítið. Sem betur fer var þetta nokkuð snyrtilegt stykki hjá Ingu Maríu og þrif og bleyjuskipti gengu fljótt fyrir sig.

Um leið og þessu var lokið fann ég að ég þurfi að fara í mína hefðbundnu morgunlosun og röltum við því upp á efstu hæð, en salernið þar var það eina í húsinu með klósettpappír innan færis. Þetta sýnir vel hverslags faðir ég er, nota blautan eldhúspappír á yngstu dótturina en vill svo ekkert annað en ekta bréf á stjörnuna mína. Kolla vaknaði þegar við röltum upp, enda svosem kominn tími á það, klukkan alveg að verða átta. Ég settist á salernið og hóf að glugga í Fréttablaðið, sá þá mér til sárrar gremju að ég hafi tekið blaðið í gær upp en þar sem losun var hafin var of seint að fara niður og sækja nýtt blað. Þegar ég hafði að mestu lokið skákinni hringdi dyrabjallan. Klassískt. Áróra hafði gleymt lyklunum sínum og þurfti að komast inn til að ná í blað sem við prentuðum út fyrir hana í gærkvöldi. Ég tosaði upp brækurnar og hljóp niður (skeindi ekki bossann) til að opna fyrir henni. Á leiðinni upp aftur greip ég með mér Fréttablaðið í dag og renndi yfir það meðan ég droppaði síðustu spörðunum.

Þar sem ég sat og las Fréttablaðið lýsti Kolla því yfir að hún þyrfti líka að kúka þannig að ég neyddist til að hætta lestrinum, var fyrir löngu búinn að losa alla mykju. Kolla kúkaði því á eftir mér, en ekki nóg með það, hún kúkaði ofan á minn kúk, þvertók fyrir að sturta á milli. Það var reyndar klósettpappír á milli þannig að það var engin hætta á skvettum.

Kolla lauk sér fljótt af og þá gerði ég mikil mistök!
Í hugsunarleysi sturtaði ég niður. Sem betur fer áttaði ég mig á mistökunum um leið og ég gerði þau þannig að ég get drifið Kollu í að ná öðru sturti áður en mínu var lokið. Það verður oft mikil sorg á mínu heimili ef dæturnar fá ekki að sturta niður sjálfar.

Þess má geta að ég tók engar myndir :-) Ætli mogginn birti þessa færslu :-P

dagbók
Athugasemdir

Sirry - 02/04/04 13:08 #

Ég trúi varla að ég hafi lesið þetta Matti, en alla vega gerði ég það og ég held að allir kúki eins fer eftir mataræði kannski en þó konur vilji ekki láta vita af því þá gerist þetta. Það er samt merkilega mikið til af körlum sem vilja ekki vita til þess að konur kúki eða reki við og margar konur halda að þetta sé óeðlilegt. Veit um eina konu sem kúkar ekki heima hjá sér því maðurinn hennar má ekki vita af þessu honum finnst það turn off, þannig að hún röltir sér á veitingastað í nágrenninu til að gera stykkin sín Ég meina það fólk er fífl.

Matti Á. - 02/04/04 13:17 #

Hvað meinarðu með því að þú trúir ekki að þú hafir lesið þetta :-P

Gaman að heyra af konunni sem kúkar ekki heima hjá sér, mjög athyglisverð hegðun.

Eggert - 02/04/04 14:25 #

Mín hegðun er þveröfug, þ.e.a.s. ég á erfitt með að gera stykkin annars staðar en heima.

Sirrý - 02/04/04 15:09 #

verð að segja eitt. Miðað við kynni mín af þér Matti er ég eiginlega alveg hissa á að engar myndir hafi fylgt greininni. :C)

Matti Á. - 02/04/04 15:16 #

Hehe, ég reyndar mynd, sem ég tók af Kollu á klóstinu í fyrradag, sem hefði passað vel með þessari grein :-) - myndin er mjög smekkleg, ekki hafa áhyggjur af öðru.

Ég hef aldrei getað skilið þessa tregðu hjá sumum við að losa hægðir annars staðar en heima hjá sér, ég læt þetta gossa hvar sem ég er staddur - eða réttara sagt, í næsta salerni - hvar sem ég er staddur, t.d. þegar ég fæ mér slatta af bjór.

jogus - 04/04/04 00:57 #

Hear hear. Ég hef aldrei getað skilið svona pempíuskap að geta ekki kúkað þegar maður þarf að kúka. Ég veit meira að segja nokkur dæmi þess að fólk kúki ekki í marga daga ef það kemst ekki í eigin klósett (td helgarferðir til útlanda). Sikk. Mitt motto er, if you gotto go, you gotto go.