Örvitinn

Skýr dagur

Elduðum Bayon skinku í kvöld, hún var á 40% afslætti í Hagkaup og við ákváðum að elda fínt í kvöld. Langt síðan ég hef eldað veislumat og steikin liggur satt að segja frekar þungt í maga! Eldamennskan tókst ágætlega þó ég hafi þurft að henda kjötinu aftur í ofninn, það var ekki alveg tilbúið þegar ég hélt - gat samt skorið nokkrar sneiðar til að hefja kvöldmáltíðina. Glassúrinn var góður, dijon sinnep, púðursykur og whisky klikkar ekki. Appelsínusósan var óhefðbundin en skrambi góð, svo bara þetta klassíska - brúnaðar kartöflur, rauðkál, gular baunir og rauðvín.

Inga María er búin að vera ósköp hress í dag, ég vona að hún sé búin að jafna sig alveg.

Versluðum í páskamáltíðina, verðum með kalkúna. Bjóðum tengdaforeldrum mínum og hugsanlega ömmu og afa Gyðu líka. Ég á svo eftir að heyra í Jónu Dóra og Þórði, foreldrar mínir stungu af úr bænum, fóru norður.

Keypi mér Life Of Brian á DVD fyrir þúsund krónur í Hagkaup í dag, held það séu tólf-þrettán ár síðan ég sá þá mynd - vonandi er hún jafn góð og mig minnir, kíki á hana á eftir eða á morgun.

Á morgun er föstudagurinn langi - þá kemur í ljós hvaða íslendingar eru trúaðir í raun og hverjir ekki. Þeir sem sannarlega eru kristnir láta sér leiðast, fara í Kirkju og hugsa um þjáningu Frelsarans á krossinum. Hinir þjást vegna þess að þeir hafa ekkert að gera. Annars var ég að lesa það í dag að orðið kross kæmi hvergi fyrir í upprunalegum texta Biblíunnar og kæmi ekki inn í kristnar sagnir fyrr en á þriðju öld. Merkilegt.

Líðan mín á morgun mun væntanlega ráðast af úrslitum leiksins, en í hádeginu á morgun mætast Liverpool og Arsenal í Ensku úrvarlsdeildinni. Ég er svona þokkalega bjartsýnn á að Liverpool geti fengið eitthvað úr þessum leik - læt það sem ekki eyðileggja daginn ef þetta fer illa. Annað kvöld förum við svo í matarboð hjá Heiðu og Walter, ég stefni á að drekka helling af Whisky, nennti ekki í ríkið að kaupa bjór.

dagbók
Athugasemdir

Birgir Baldursson - 08/04/04 23:11 #

Life of Brian er jafngóð og þig minnir. Ég get ábyrgst það.

Skúli - 09/04/04 01:11 #

"Annars var ég að lesa það í dag að orðið kross kæmi hvergi fyrir í upprunalegum texta Biblíunnar og kæmi ekki inn í kristnar sagnir fyrr en á þriðju öld. Merkilegt."

Getur verið að þetta hafi verið í einhverju riti Votta Jehóva?

Hérna eru ritin í N.t. sem orðið kross kemur fyrir í:

Jóhannesarguðspjall 19:6 19:10 19:15 19:16 19:17 19:18 19:19 19:20 19:23 19:25 19:31 19:32 19:41 Lúkasarguðspjall 9:23 14:27 23:21 23:23 23:26 23:33 24:7 24:20 8:34 Markúsarguðspjall 15:13 15:14 15:15 15:20 15:21 15:24 15:25 15:27 15:30 15:32 16:6 Matteusarguðspjall 10:38 16:24 20:19 23:34 26:2 27:22 27:23 27:26 27:31 27:32 27:35 27:38 27:40 27:42 27:44 28:5 Fyrra bréf Páls til Korintumanna 1:13 1:17 1:18 1:23 2:2 2:8 Síðara bréf Páls til Korintumanna 13:4 Bréf Páls til Efesusmanna 2:16 2:8 3:18 2:20 3:1 5:11 5:24 6:12 6:14 Bréfið til Hebrea 6:6 12:2 Bréf Páls til Kólossumanna 1:20 2:14 Postulasagan 2:23 2:36 4:10 13:29 Bréf Páls til Rómverja 6:6 Opinberun Jóhannesar 11:8

Matti Á. - 09/04/04 01:29 #

Hvað er torskilið við: upprunalegum texta Biblíunnar ?

Matti Á. - 09/04/04 02:12 #

Ég byrjaði á því að pikka eftirfarandi texta inn en koxaði á grísku stöfunum og þar sem þau orð skipta meginmáli í textanum ákvað ég að taka bara mynd af síðunum. Gæðin eru ekkert sérstök, ég nenni einfaldlega ekki að vanda til verka, en það er þó hægt að lesa þetta.

Losing faith in faith, Dan Barker, bls. 203-204

Skúli - 09/04/04 09:47 #

Ég veit þetta er ekkert trúaratriði fyrir þig en bæti við þessa umræðu, svona í tilefni dagsins, að skýringin á því að stáros er notað yfir "kross" í þessu sambandi er sú að staurarnir voru þegar á aftökustaðnum en þvertréð fest á er sakamaðurinn var kominn til aftökunnar.

Matti Á. - 09/04/04 09:52 #

Mér þykir þetta hálfgerð ad hoc skýring.

Bar Jesú ekki krossinn á föstudaginn langa?

Hvað með það sem kemur fram í textanum að krossinn kemur hvergi fyrir í kristinni list fyrr en um miðja fimmtu öld?

Skúli - 09/04/04 15:20 #

Ertu viss um það? Í Pompei fannst reyndar skopmynd af kristnum manni sem tilbiður krossinn. Fisktáknið og lambið eru þó upprunalegri t.a.m. í katakombunum. Þá hefur myndbannið og sú staðreynd að kristnin var óopinber átrúnaður vart stuðlað að miklum myndlistararfi frá kristninni.

Svo nægir að lesa pistla Páls til þess að sjá hversu rík staða krossins hefur verið í kristinni guðfræði frá upphafi.

Skúli - 09/04/04 16:00 #

Já, Jesús bar líklega bara þvertréð upp að Golgatahæð.

Skúli - 09/04/04 21:33 #

"Á morgun er föstudagurinn langi - þá kemur í ljós hvaða íslendingar eru trúaðir í raun og hverjir ekki."

Metaðsókn í Hallgrímskirkju á lestur Passíusálmanna!

Matti Á. - 10/04/04 02:47 #

Íslendingar eru sannarlega áhugasamir um Arnar Jónsson ;-)