Örvitinn

Rauðkálsskortur

Ók milli matvöruverslana og leitaði að fersku rauðkáli og sætum kartöflum í kvöld, fann kartöflurnar en rauðkálið var hverg til. Vissulega var ég seint á ferðinni þar sem ég skaust til Njarðvíkur í dag í fertugsafmæli Kidda frænda. Það stefnir í að það verði ekkert rauðkál steikt með hvítlauk og engifer borið fram með kalkúnanum annað kvöld. Æi, það er svosem ekkert stórslys.

Ætla að fylla kalkúnann með aprikósufyllingu, uppskriftin er úr veislubók Hagkaups. Held þetta verði alveg þokkalegt.

Fórum í matarboð hjá Heiðu og Walter í gærkvöldi, ég drakk slatta af áfengi og var töluvert þunnur í morgun. Lærðum hvernig við eigum að nota pönnuna sem foreldra mínir gáfu okkur í jólagjöf. Þetta er semsagt fetepanna á tveimur hæðum, maður setur osta á neðri hæðina og steikir allskonar gums á efri hæðinni. Þetta var gómsætt og okkur hlakkar til að prófa þetta sjálf. Grafna nautalundin sem þau báru fram í forrétt var alveg agalega góð.

dagbók