Örvitinn

Trúir einhver þessari vitleysu?

Jæja, Páskadagur runninn upp. Kristnir fagna sinni sigurhátíð - frelsarinn reis upp frá dauðum, sannarlega sá atburður sem kristin Kirkja byggir grunn sinn á - án upprisunnar er í raun ekkert eftir annað en aflífaður múgæsingamaður. En trúa menn þessu í raun? Eru enn til sæmilega upplýstir íslendingar sem taka söguna (eða réttara sagt sögurnar) af upprisu Krists sem heilagan sannleik? Hálfgerðan sannleik? Nei varla, enda er ekki nokkuð sem styður þá kenningu að upprisan hafi raunverulega átt sér stað en heilmikið sem bendir til þess að hún sé síðari tíma skáldskapur. Meðal annars er merkilegt að hugsa til þess að í fyrstu útgáfum Markúsarguðspjalls (sem Matteusar og Jóhannersguðspjöll byggja á) er ekkert minnst á upprisu krists heldur endar frumútgáfan á því að konurnar finna tóma gröf.

Það er fyndið að lesa predikanir lærðra manna í dag þar sem þeir segja frá upprisunni eins og til séu góðar heimildir og ein frásögn þegar raunin er sú að í Guðspjöllunum eru margar ólíkar og ósamrímanlegar frásagnir af þessum atburðum. Þeir áttu sér stað annað hvort í myrkri eða dögun, konurnar voru ein, tvær, þrjár eða fleiri. Tilgangur þeirra var hinn eða þessi, gröfin var opin eða lokuð. Engill var við gröfina í einni frásögn, ungur maður, tveir englar eða tveir menn í öðrum frásögnum og svona heldur þetta áfram. Samt skrifa menn predikanir í morgunblaðið og fullyrða að eitthvað hafi gerst á einn veg en ekki annann. Auðvitað gerðist ekkert af þessu, það sjá allir sem skoða málið fordómalaust. Samt er til fólk sem heldur því fram að krossfesting og upprisa Jesús sé merkilegasti atburður mannkynssögunnar? Svo merkilegur að samtímamönnum Jesús datt ekki í hug að minnast á hann í bókum sínum þrátt fyrir að segja frá flestu því sem markvert þótti á þessum stað og tíma. Þessi frásagnaskortur var svo vandræðalegur fyrir Kirkjuna að hún neyddist til að falsa frásagnir svo einhverjar heimildir væru til.

kristni
Athugasemdir

Gunni Palli - 11/04/04 16:20 #

Ef það er eitthvað sem er fyndið að lesa þá eru það skrif hjá mönnum sem telja nauðsynlegt að verja ómældum tíma í að berjast gegn skaðsemi kristinnar trúar, líkt og við búum í einhverju talebanasamfélagi.

Það er allavega gott að einhverjum finnst gaman að lesa predikanir um sögu páskana, ...ég efast um að nokkur hana lesi þær.

Gunni Palli - 11/04/04 16:21 #

....nokkur annar átti þetta víst að vera.

Matti Á. - 11/04/04 17:22 #

Fyndnara þó er fólk sem telur nauðsynlegt að tjá sig um þá sem verja tíma í að berjast gegn skaðsemi kristinnar trúar.

Ég skrifaði pistil á Vantrú sem er staðlað svar við gagnrýni eins og þessari, ég skil einfaldlega ekki fólk sem upphefur sinnuleysi en er samt ekki laust við að hafa skoðanir á ýmsum málum.

Halldór E. - 11/04/04 18:30 #

Blessaður Matti, svarið við spurningunni þinni er já, með þeim fyrirvara þó að ég tel þetta ekki vitleysu. Hins vegar er spurning hvort ég geti talist upplýstur Íslendingur, en það er víst alltaf skilgreiningaratriði.

Kristján Atli - 11/04/04 21:52 #

Að mínu mati er þetta ekki spurning um hópinn heldur um einstaklinginn. Kristin trú er til staðar fyrir þá sem leita hennar og finna í henni einhverja hamingju og/eða staðfestu. Ef það er ein manneskja, AÐEINS EIN, sem að finnur sinn sess í lífinu með aðstoð Biblíunnar og/eða kristinna trúarbragða þá er EKKERT sem við hin getum sagt til að gera lítið úr því.

Að því sögðu, þá er ég sammála þér Matti að því leytinu til að það er gjörsamlega óþolandi þegar ákveðnir "einstaklingar" taka sig til og reyna að þvinga sinni skoðun upp á aðra. Og það gildir jafnt yfir alla, hvort sem um ræðir "frelsarann" Gunnar í Krossinum, "afhommarann" George W. Bush eða Osama bin Laden og félaga hans í Al Qaeda. Bara örfá góð dæmi um menn sem hver um sig hamast í sínu horni í þeirri góðu en stórhættulegu trú að þeir einir viti hvað er besta lausnin á vanda ALLRA.

Fáránlegt og gjörsamlega óþolandi hvernig sumir trúarflokkar fá endalaust að tjá sig í fjölmiðlum á meðan maður heyrir t.d. ekki múkk í Búddistum eða Vottum Jehóva á þeim grundvelli. Svo að einhver dæmi séu nefnd. Og þá er ég ekki einu sinni að minnast á múslima, sem iðka sína trú flestir og eru friðarsinnar en þora ekki fyrir nokkurn mun að tjá sig af ótta við að verða fyrir aðkasti.

En páskarnir hafa þó eitt jákvætt sem gildir yfir okkur öll: LANGA HELGI! :) Og því ber að gleðjast...

Matti Á. - 11/04/04 22:12 #

Spurningin er, af hverju trúir Halldór, sæmilega upplýstur íslendinur og vafalítið vel lesinn um þessa atburði, því að þeir hafi átt sér stað í raunveruleikanum?

Vissulega er það rétt hjá Kristjáni að trú getur haft jákvæða merkingu fyrir einstaklinginn - enda hef ég sagt það stundum að ég get lítið sagt við því að einhver trúi á eitthvað æðra afl. Eða svo ég vitni í sjálfan mig

Ég get alveg skilið að fólk trúi á Gvuð og eitthvað yfirnáttúrulegt og að það sé eitthvað meira í þessum heimi en bara það sem við sjáum. Ég er ekki sammála þessu en hef vissan skilning á því.

Halldór E. - 11/04/04 23:01 #

Blessaður Matti, spurningunni um af hverju ég trúi því að þetta hafi átt sér stað má svara á ýmsa vegu. Allt eftir áheyrendahópi og eðli umræðunnar. Þannig gæti ég útskýrt fyrir Fíladelfíuliðinu, Vegurunum og Gunnari í Krossinum þegar ég mætti Kristi, ákvað að tilheyra honum og gefa honum líf mitt. Viðbrögð þeirra væru sjálfsagt eitthvað á þann veg "been there done that" og við myndum ræða um skírn í heilögum anda og hvað felst í henni. Umræða sem er líklega alveg merkingarlaus fyrir þér og líklega tilgerðarleg (sem hún líklega yrði). Ég gæti sagt að uppeldi mitt þar sem upprisan er sjálfsagður hlutur móti líf mitt og hjálpi mér að skilja þann heim sem ég lifi í. Síðan með því að játa upprisuna öðlast ég ákveðinn skilning á veruleikanum sem síðan mótar líf mitt og þetta líf mitt sem kristinn einstaklingur mótar síðan sýn mína á veruleikann og þannig styrkist ég í þessari kristnu heimsmynd. Ég gæti líka bent á að menntun mín, bæði á sviði raunvísinda sem varð reyndar endaslepp og síðan í guðfræði hafi undirbyggt þá hugmynd að til sé skapari alls. Syndafallið, friðþægingarkenningin og þar inni upprisutrúin er síðan leið hins kristna (í þessu tilviki mín) til að útskýra hvers vegna sköpunin er ekki fullkomin fyrst skaparinn sé það.

Matti Á. - 12/04/04 17:59 #

Þetta segir mér af hverju þú ert trúaður og kristinn, en en þetta segir mér ekki af hverju þú hefur kosið að trúa því að upprisan hafi átt sér stað í raunveruleikanum þrátt fyrir að engar samtímaheimildir séu til um þann merka atburð, frásagnir guðspjallanna séu mjög ólík og að ekki er minnst á upprisuna í upprunalegri útgáfu Markúsarguðspjalls.

Telur þú söguna af upprisu Júlíusar Cesars trúanlega og ef ekki, af hverju? The Life and Death of Julius Caesar as source for The Gospel of Christ

Halldór E. - 13/04/04 10:34 #

Mín kristna heimsmynd byggir á því að Guð hafi orðið maður í Jesú Kristi. Og hin syndlausi maður Jesús hafi verið píndur og kvalinn vegna synda allra manna. Þar endi hins vegar ekki sagan heldur hafi hann sigrað dauðann í raun og veru og þannig kennt okkur að kærleikur Guðs er öllu sterkari. Auðvitað eru til fjölmargar sögur um hin og þessi "sect" sem hafa átt sína frelsara. Auðvitað er hægt að finna samsvaranir í öllum sögum, sbr. aðferðafræði Deus ex Cinema. Hins vegar verðum við að varast það að koma með fullyrðingar eins og: Grace í Dogville er eins og Jesús a.k.a. Jesús er ekkert merkilegri en hún. Varðandi innlegg Dan Barker þá er það að segja að röksemdin hans um að guðspjöllin séu ekki að fullu samhljóða í öllum þáttum, gerir ekkert til að draga úr raunveruleika atburðanna. Það minnir okkur á að guðspjöllin eru vitnisburður manna um atburðina. Þannig eru vangaveltur Dan Barker hugsanlega pirrandi fyrir bókstafstrúarfólk sem telur að KJV-útgáfa Biblíunnar sé sú eina rétta upprunalega. En við hin sem höfum einhverja þekkingu á ritunarsögu Biblíunnar erum kannski ekki jafn "sjokkeruð".

Matti Á. - 13/04/04 10:38 #

Barker fjallar um fleira en það að guðspjöllin séu ekki samhljóða, til að mynda skort á ófölsuðum samtímaheimildum.