Örvitinn

Gengið á eftir mönnum - markmannsleysi

Knattspyrnuliðið Henson er að fara að spila fyrsta æfingaleik ársins í kvöld og þykir mönnum réttilega frekar seint farið af stað þetta árið. Spilum þrjá æfingaleiki á næstu tveim vikum auk tveggja æfinga, menn ættu aðeins að geta komið sér í smá leikform við það. Ég þarf á því að halda, er í hrikalegri æfingu. Mætum Hunangstunglinu á gervigrasinu í Laugardal.

En það vantar leikmenn og sérstaklega markvörð!

Ég er semsagt að reyna að fá strákana til að staðfesta mætingu. Menn eru búnir að vera væla um að fá æfingaleik síðustu vikur og þegar hlutir fara að gerast þarf maður að ganga á eftir gaurunum eins og þeir séu einhverjar drottningar - hvað er málið? Á ég virkilega að þurfa að hringja í hvern og einn, getur maður ekki treyst á að þetta lið lesi og svari tölvupósti? úff þetta er nú meira liðið. Sex leikmenn hafa staðfæst mætingu í kvöld að mér meðtöldum. Skil ekki hvernig Ingi fór að þessu :-)

Svo er það markmannshallærið, markvörðurinn sem spilaði með okkur í fyrra verður ekki með í ár, er að fara að vinna úti á landi. Ég ætlaði að reyna að ná í Kristján sem spilaði fyrir okkur í marki í nokkrum leikjum en hef ekki hugmynd um hvernig ég á að ná sambandi við hann. Þekkið þið einhvern sem langar að spila í marki í sumar - þarf ekki að geta neitt rosalega mikið, borgar engin æfingagjöld, þarf ekki að spila í marki á æfingum frekar en hann vill og kemst nokkrum sinnum á ókeypis fyllerí með hressum hópi. Látið mig vita ef þetta freistar eða þið þekkið einhvern sem gæti haft áhuga.

Ofan á allt er ég að verða frekar slappur, ekki alveg rétti tíminn til þess. Mæti þó í leikinn í kvöld og spila þar til ég fer að æla blóði. Hef svo næstu þrjá daga til að jafna mig fyrir ferðina til Manchester.

13:00
Skaust heim og sótti (sendi mér í tölvupósti) leikmannalistann. Ætli maður þurfi ekki að fara að hringja út. Sendi póst á Kristján, sjáum hvað setur.

14:00
Kristján kemst ekki í kvöld en líklega í næstu tvo leiki. Alls níu búnir að melda sig fyrir kvöldið.

16:00
Kominn með í lið og rétt rúmlega það ef allir mæta.

boltinn
Athugasemdir

Ingi - 19/04/04 14:36 #

Blóð sviti og tár lýsa þessu best. Aðal málið er að hafa nógu stóran hóp og láta aðra leikmenn fá verkefni, menn eins og Viffi, Alli, Kjartan og Aggi geta verið drjúgir ef þér tekst að virkja þá. Skilst að þið séuð orðnir 10 eins of staðan er núna þannig að þetta hlýtur að reddast. Listi með nöfnum leikmanna og símanr. eru á yahoogroups.com undir "files". Bið að heilsa .

kveðja Ingi

Matti Á. - 19/04/04 14:49 #

Jæja, búið að redda markverði - Björn mætir og spilar með okkur í kvöld og hugsanlega í næstu æfingaleikjum. Þetta reddast vonandi, ekki samt nóg að fá 11 manns, við verðum að hafa varamenn því við erum ekki í neinu formi til að spila heilan leik.